Tuesday, February 15, 2005

Drama...en mér er alveg sama!

Það var komið fram í mars þegar ég fann það gerast. Sólin var að koma upp og hitastigið fór hækkandi. Fyrst lýsti það sér í auknum þunga niður með síðunum og svo dofa neðst í líkamanum. Ég hafði rýrnað með hverjum deginum sem leið, en vonaði alltaf að það væri bara ímyndun í mér. Ég vissi að endalokin væru bara hluti af þessari stöðugu hringrás lífsins, en ég vonaði alltaf að ég hefði lengri tíma, að veru minni á þessari jörð væri ekki lokið svona fljótt. Margir í minni stöðu höfðu farið verr en ég. Nágranni minn, sem reyndar var smávaxnari en ég, missti útlim áður en hann hvarf á vit forfeðra sinna. Ég sá hann útundan mér, rétt áður en hann féll í hinsta sinn í jörðina. Hann hafði áður dottið, en ávallt var honum komið til bjargað af smáum líknandi höndum og tjaslað saman á ný. Ég hafði munað fífil minn fegri. Annað munnvikið hafði slappast verulega eftir hlýjindakast í febrúar og síðan þá hafði ég brosað skökku brosi að því sem yfir mig gekk. Ég hafði misst annað augað nokkru áður og var því með verulega skekkt sjónsvið en eins og títt er um okkar líka var ég læstur í hálsliðunum og gat ekki snúið höfðinu svo vel mætti vera.
Þegar ég fann hvernig lífið fjaraði út, fór ég að hugsa um lífskeið mitt sem var allt of stutt en þó viðburðaríkt. Ég var ekki stoltur af öllum þeim hugsunum sem þutu um kollinn á mér í dauðastríðinu. Þegar ég hafði fulla sjón hafði ég horft öfundaraugum á herramanninn sem bjó á móti mér. Hann var alltaf með pípuhatt, trefil sem gerði hann á einhvern hátt virðulegan og hafði yfir sér sérstaka reisn sem ekki er öllum gefin. Ég dauðöfundaði hann því ég hafði aldrei haft útlitið með mér. Það var líkt og skapari minn hafi haft um nóg annað að hugsa þegar ég varð til. Bústnar kinnarnar litu út fyrir að vera misstórar, maginn lá í fellingum og höfuðið var keyrt ofan á risastóran búkinn svo vart sást í hálsinn.
En nú hafði ég ekki áhyggjur af því, enda var ég farinn að halla óeðlilega mikið til vinstri og ég fann að góða augað var að gefa sig. Rétt áður en ég féll til jarðar sá ég hvernig skólabörnin óðu í pollana, glöð og kát yfir betri tíð. Ég reyndi að brosa að þeim í hinsta sinn því án þeirra væri ég ekki til. Fallið var ekki hátt en auga mitt skoppaði í rennvotu grasinu og beið þess að tilheyra nýjum snjókalli að ári!

No comments: