Thursday, December 15, 2005

Hræðsla

Þegar vinkona mín sem ég kalla stundum J, flutti í Skipholtið á efstu hæð í blokk, kaus ég að hafa miklar áhyggjur af því að enginn brunastigi lægi að íbúðinni. Ég suðaði lengi í henni að hafa kaðal á svölunum, neyðarkitt í áldollu (svona niðursoðnar baunir eða brunaáburð, ef það kæmi jarðskjálfti og myndi kvikna í í einu) eða slökkvitæki undir koddanum en hún kom sér undan öllum þessum tillögum. Kaus að lifa á brúninni. Hlæja framan í hætturnar. Ég gerði það eina rétta í stöðunni, vafði reykskynjara inn í jólapappír, gaf henni og taldi mínu hlutverki sem lífverði þar með lokið.

Nokkru seinna flutti ég á efstu hæð í blokk og eyddi minni orku og tíma frekar í að finna rauð flotkerti í búðunum en að stressa mig á hlutum eins og slökkvitæki, eldvarnarteppi eða reykskynjara. Hlæja sem sagt framan í hætturnar eins og hún J mín. Ekki þarf að geta þess að enginn brunastigi liggur að íbúðinni minni og kaðall kæmist ekki fyrir á svölunum fyrir friðarkertunum sem þar loga öllum stundum.

Ég gekk um íbúðina mína í gærkveldi eftir að hafa lokið -fyrir-svefn-rútínunni og spáði í því hvort ég ætti að taka allar jólaseríurnar, kransana og lampana sem eru svo kósý í skammdeginu, úr sambandi. Ég átti von á mínum hjartfólgna helmingi sem var í bíó og mig langaði ekki að hann kæmi heim í myrkri. Allt fékk sem sagt að loga (nema náttúrulega kerti, ég er ekki alveg svo hættuleg). Þegar ég áttaði mig á því að ég hafði starað upp í loftið í hálftíma eftir að ég skreið upp í rúm, hafði mér tekist að sannfæra mig að nú væri kominn sá dagur að ég myndi brenna inni. Ég sá fyrir mér hvernig myndi kvikna fyrst í gardínunum inni í eldhúsi og svo skriði eldurinn inn í stofu. Ég ákvað að nota saumavélina (sem er í þungum kassa inni í skáp) til að brjóta glerið í svefnherbergisglugganum og vonaði að ég hefði tíma til að klæða mig í íþróttaskóna áður en ég þyrfti að hoppa út (ég bý á 3. hæð). Af því að íþróttaskór myndu einmitt redda málunum ef maður þarf að hoppa niður ca 8m!!

Í hræðslu minni fór ég að spá í því sem ég hræddist mest í þessari veröld. Ég bjó til lista og undirstrikaði 5 atriði í huganum. Köngulær, eldur, alnæmi, tannlæknar og það að láta tæta af mér neglurnar með rafmagns-pyntingartæki (sá það einusinni í bíómynd)er það sem ég hræðist mest og hana nú!

Ég beit svo bara á jaxlinn, snéri mér á hina hliðina og dreymdi um allar þær ógnir og skelfingar sem þessi 5 atriði hafa í för mér sér en ekki tók ég eina einustu seríu úr sambandi!

Monday, December 05, 2005

Einhver hefði nú kannski

drifið sig beint í bælið í nótt þegar Arndís og Gulli hættu að vera í heimsókn en ekki hún Matthea B-manneskja Sigurðardóttir. Hún festist yfir nördaþætti í sjónvarpinu um krakka sem sitja dag og nótt og læra til að taka þátt í stafsetningarkeppni í Bandaríkjunum. Ég sýp seyðið af þessari næturvöku minni í vinnunni í dag en eitt kenndi þetta mér þó; Héðinn málfræðinörd Halldórsson er ekki eyland í þessum efnum!
Helgin var rosaleg. Ég tók óspart út úr gleðibankanum og notaði til þess nýja debetkortið mitt sem er stax orðið rispað :(
Vinnustaðargrín og Sálarball voru viðfangsefni helgarinnar og svo náttúrulega afmælisjólaglögg hjá henni Ólöfu gellu sem býr í sambýlinu að Hringbraut.
Í kvöld verður jólakortagerð á Laugarnesveginum, allir velkomnir. Arndís og Gulli hafa þegar skráð sig og munu standa fyrir vísnagerð í hvert jólakort í ár!
19 dagar til jóla...það þarf eitthvað mikið að gerast svo ég fari ekki í jólaköttinn!