Tuesday, December 19, 2006

Lyfleysa

Hver man ekki eftir Síþreyttheu um páskana í fyrra sem höndlaði lyfjaleysi með því að sofna hér og þar..aaaðallega þar!
Þar sem örlögin fóru um mig mjúkum höndum síðast og enginn stór skandall átti sér stað í lyfjaleysinu, ákvað læknirinn minn að grípa inní og taka mig aftur af lyfjunum, nú á jóladag!
Ég á svo að fá smá geislajoðsýnishorn í janúar til þess að kanna stöðuna á skjaldkirtlinum (eða vonandi skjaldkirtilsleysinu)og fæ svo meðhöndlun í framhaldi af því.
Sem sagt mega gestir og gangandi aftur eiga von á því að ég gráti þegar ég ætla að hlæja, gleðjist óvart í stað samúðar þegar fólk gleymir hlutum (sorry Hlédís), kveiki á miðstöðinni þegar ég ætla að lækka í útvarpinu og klóri mér þegar ég þarf að hnerra!!
Já örlögin hafa aftur gefið mér hormónalegt frelsi til að láta tilfinningarnar sveiflast í óvæntar áttir, og koma þannig með æsispennu í líf mitt og minna nánustu (Gunni þunni verður þrítugur á tímabilinu, spennandi að vita hvernig hormónatryppið Matthea höndlar það;)
Á morgun hefst langþráð jólafrí...hipp hipp húrreiii, hipp hipp húrreiii, hipp hipp húrreiiiiiiiiiiii!

Monday, December 04, 2006

Eymingjabloggari...

Já, það er ég...og ég veit uppá mig skömmina. Ég hef enga afsökun fyrir letinni nema þá, að ég hef komist að því að það er svipað með bloggið og kynlífið, það er erfiðara að byrja aftur eftir langa pásu ;)
-London var æði!
Ásdís tók frábærlega á móti okkur og náðum við að taka allan pakkann á 5 dögum. Helsta ráðgáta ferðarinnar var baunin í vasa Hlédísar, við renndum okkur niður risa rennibraut á Tate safninu, Oxford street fékk sinn skerf af laununum okkar sem og barirnir í Camden Town. Við stilltum okkur um að kaupa 2m uppblásinn jólasvein með kóngavinki en tókst að klára sítrónurnar og sennilega myntulaufin líka á Old Street.
Sem sagt frábær ferð!
-Litla Víkurskottið okkar er formlega komin með nafnið Arnfríður Mára og af því tilefni skelltum við okkur öll fjölskyldan til Víkur um helgina. Þar gistum við eina nótt í flottasta gistiheimili þessa heims, Norður Vík, fengum tælenskan pottrétt a la Æsa, Gunninn minn galdraði fram humar, við ærsluðumst með krökkunum í íþróttasalnum í klukkutíma og vorum svo öll sléttgreidd klukkan þrjú þegar "presturinn skvetti vatni á litlu systur", eins og Katla orðaði það.
-Hvernig finnst ykkur Hörður Torfa standa sig sem James Bond?


-Ég er komin á "nýjan" bíl. Eftir að sölumaður mánaðarins hjá bílaumboðinu var búinn að selja undan mér hinn bílinn fyrir mistök, prenta út rangt bílnúmar og þ.a.l. næstum búinn að selja mér bíl sem var í fullri notkun annars eiganda, "gleyma" að segja mér að demparar væru ónýtir í bílnum, klikka á dekkjaumgangi sem hann var búinn að lofa, og týna öllum mottum úr bílnum..stökk hann af stað og náði í nýtt mottusett og slengdi þeim orðum svo framan í mig fullur sjálfstraust að hann klikkaði sko ekki á smáatriðunum...!
-Ég hef nokkrum sinnum verið spurð að því í vinnunni hvenær jólin komi..og hvar þau séu nú. Þegar ég segi að þau séu bara að bíða eftir því að koma, er ég spurð af hverju..já af hverju eru jólin að bíða eftir að koma, og hvar eru þau nú??
-Ég hef fundið fyrir því núna meira en nokkru sinni hversu vænt mér finnst um Ásdísina mína og allur minn hugur er hjá henni þessa dagana. Ég hlakka til að knúsa þig Físið mitt!
-Katla segist sleppa "nautunum" stundum þegar hún er að flýta sér með Faðir vorið (vorum skuldunautum) en ég sleppi þeim sko ekki í bænum mínum þessa dagana!
-Eftir að hafa fengið fleiri stig fyrir að flauta en syngja í Singstar, hætti ég mér út á hina grýttu leið söngsins í vinnupartýi á laugardaginn. Í miðju lagi ákvað tæknin að nú væri nóg komið og breytti um lag.. já ég fæ seint mína 15 mínútna frægð í sönglistinni eins og Herbert Guðmundsson!
-Bráðum ætla ég að blogga aftur

Wednesday, November 01, 2006

Monday, October 30, 2006

Þessar litlu prinsessur...


...voru aðal ástæða þess að við Gunnar skelltum okkur til Víkur í Mýrdal um helgina.
Auk þess að knúsast í þessum krúttum fórum við í bíltúra, skoðuðum fiskeldi, útivistarsvæði, norðurljós og "leirdúfuskitteríuðumst" í fjörunni...jább er ekki frá því að ég sé að fullorðnast!

Wednesday, October 25, 2006

Hann Valdi koppasali...


...náði ekki upp á nef sér (enda vænn sultardropi á nefi hans) þegar hann komst að því í dag, að stundum notaði ég hjólkoppa úr Öskjuhlíðinni í föndur. "Ffffffföööndur".. voru viðbrögð hans og hann hrækti orðinu útúr sér (sultardropinn small í mölina við fætur mér). Samviskubitið hríslaðist um mig og ég lofaði sjálfri mér að safna þeim heillegu hjólkoppum sem á vegi mínum verða í framtíðinni og bæta í safnið hans Valda. Valdi vinur minn sagði að fólk væri eiginlega hætt að koma til hans, og nánast enginn hringdi núorðið. Hann er þó búinn að setja upp stórt skilti við veginn með símanúmerinu sínu (svo leit hann á símann svona til að tékka hvort væri nokkuð missed call síðan hann tékkaði síðast). Að lokum spurði hann mig hvort ég hefði nokkuð hent einhverntíman hjólkopp frá árinu 1950, hvort ég hefði gaman að fornbílum, sest upp í slíkan bíl eða þekkti e-h sem hefði áhuga á gömlum bílum, en áður en ég náði að svara, strunsaði hann í burtu, ákveðinn í að eyða ekki fleiri orðum í manneskju sem notar stundum hjólkoppa í föndur...FFFFFÖÖNDUR (hnuss)!

Monday, October 23, 2006

There is a crack in my wall


Þegar ég gekk út úr KBbanka í fyrra, mörgum peningum fátækari, datt mér ekki í hug að það yrði minn bani. Eða þeas það sem ég keypti fyrir þennan pening er að drepa mig. Hér fyrir utan eru pólskir iðnaðarmenn öllum stundum (og þá meina ég öllum stundum) að bora, pússa og saga. Já þeir eru á samning að gera bara e-h sem heyrist hátt í!
Það er hreinlega eins og þeir geri ekki ráð fyrir að fólk (ég) þarf sinn svefn á daginn. Arndís og Ási sem búa hér hjá mér þessa dagana, eru svefnlaus á næturvöktum því kyrrlátara er að leggja sig á umferðareyju á Miklubrautinni en inní svefnherbergi á Laugarnesveginum!
Pabbi kíkti við í dag, settist inní stofu og við þurftum að kallast á þó við sætum hlið við hlið! Hann tilkynnti fljótlega að hann ætlaði ekki að vera lengi í heimsókn.
Hlésin mín tók eftir sprungu eftir endilöngum stofuveggnum sem læddi sér áfram með stigmagnandi hávaða að utan. Jább allt lítur út fyrir að blokkin mín verði nokkuð vel pússuð og fín að utan, en allar líkur eru á því að hún innihaldi svefnlaust fólk með bauga og sprungna veggi að innan!

Saturday, October 21, 2006

Pizza

Eins og þið vitið mörg, eyði ég síður en svo öllum mínum frítíma í eldhúsinu. Ég elda nánast aldrei! En í vikunni ákvað ég að nóg væri komið og langaði að prófa mig áfram í eldhúsinu. Ég fékk pizzauppskrift hjá heimilisfræðikennaranum á vinnustað mínum og nú ætlaði ég sko að elda pizzu fyrir minn kæra.
Þegar ég var að ljúka við botninn áttaði ég mig á því að þarna stæði ég, kófsveitt í eldhúsinu og bisaði við pizzauppskrift fyrir þroskahefta!!!
Ég var með hveiti í hárinu :-/
-Þá mundi ég ástæðu þess að Eldsmiðjan er á speed dial hjá mér-

Thursday, October 19, 2006

Hún Joð mín...


...á afmæli í dag! Hún er tuttuguogníuára stelpan einsogekkertsé!
Á næsta ári verður hún þrítug tveggja barna móðir ;)

Til hamingju elsku Júlían mín ég hrópa ferfalt húrra fyrir þér þegar ég keyri framhjá blokkinni þinni næst!

Wednesday, October 18, 2006

Veit einhver

hvað þýðir að vera með böggum hildar??
Þar til ég fæ þýðinguna ætla ég að reyna að koma þessu orðatiltæki fyrir í tali mínu hvenær sem þess er kostur!

P.s einn töff fréttamaður sagði handvömm í sjöfréttunum í gær (ég er stolt af þér Hési minn :)

Monday, October 16, 2006

Jamm og já...

Einu sinni átti Héðinn vini sem blogguðu, og einu sinni átti hann vini sem gerðu út á það að vera fullorðin börn! Ég týndi bloggandanum með kólnandi veðri. Finn hann ekki aftur og af sömu ástæðu og að betra sé autt rúm en illa skipað, er betri auð síða en illa orðuð, ekki satt??!
Þrátt fyrir bloggleysi undanfarið, hefur gengið á ýmsu í mínu lífi sem og annarra á þessum mánuði.
-Fyrst og fremst eignuðust Þráinn minn og Æsan mín gullfallega og fullkomna dóttur 5.október. Sökum endalausra tækniörðugleika get ég ekki sett mynd af prinsessunni á bloggið núna, en ég bæti úr því síðar
-Þórhildur mín yfirgaf Ísland og hélt út í heim á ný. Ég sakna hennar.
-Ömmurnar hittust og byrjuðu kvöldið nokkuð siðfágaðar...



-...en það hélst ekki lengi





-Ragnhildur stóra syssin mín varð árinu eldri
-Vilborg eignaðist prinsinn Magnús Dag og ku hann vera hinn mesti sjarmur
-Ég fór að taka olíu á einni bensínstöð borgarinnar. Þar lét gamall karl olíu á bílinn minn með ánægju, en okkur brá sennilega báðum jafn mikið þegar kerlan sem virtist í fyrstu vera rétt og slétt kassadama, reyndist vera verslunarstjóri dauðans sem fullyrti að sá gamli hefði yfirfyllt bílinn minn af olíu, lét hann tékka aftur á mælingunni og fór svo sjálf yfir þetta allt saman. Það hlakkaði í mér þegar í ljós kom að karlgreyið hafði hárrétt fyrir sér. Kellunni var ekki eins skemmt.
-Nú á ég son í Afríku



-Sigga landbúnaðarráðuneytisgella er guðmóðir hans og sér um að myndir af honum séu í veskinu mínu. Einnig hefur hún uppi áform um að sjá um trúarlegt uppeldi hans með aðstoð bréfdúfna og reykmerkja
-Í kennslustund í dag, þegar ég var að kenna nemendum mínum muninn á sjálfráðum og ósjálfráðum taugaboðum, vildi ég koma þeim í skilning um að það að "veifa" væri sjálfráð taugaboð. (Ég sagði) Dæmi: Ef þið eruð að labba eftir gangstétt og ég kem gangandi hinu megin við götuna, hvað gerið þið þá (handviss að allir myndu svara í kór "VEIFA")..þegar gellur í einum "HLAUPA Í BURTU"...ég sá þetta ekki alveg koma :-/
-Dillzið mitt er komið til landsins og ég hlakka svoo til að sjá hana
-Syssin mín er í framboði með tilheyrandi ferðalögum og því hef ég tekið að mér að sjá um börn og bú í staðarsveitinni þegar ég kem því við.. þá baka ég og sýni á mér hliðar sem fólk (þar með talið ég) vissi ekki að ég ætti til!
-Ásdísin mín er farin til London en ég mun hitta hana eftir 17 daga og get ég vart beðið...London here i come!!!
-Hlédís og Sigrún djásnin mín urðu 8 hvolpa mæður í síðustu viku og þar eru á ferð flottustu og krúttlegustu dýr á jarðríki




-Ég er orðin 270 cm á hæð ef meðtaldar eru málningaflyksurnar sem þrýstast undir skóna mína þegar ég stíg út fyrir blokkarinnar dyr. Ég get svarið að háþrýstiþvottakarlinn reyndi að hitta mig um daginn þegar ég þaut út í bíl!
-Og nú er annað augað í mér farið að renna til af þreytu
Takk fyrir að lesa mig enn..

Friday, September 15, 2006

Guðsonur!


Þetta er guðsonur minn, Arinze Tómas Nzeakor og mamma hans hún Þórhildur. Það var ansi stolt guðmóðir (ég) sem stóð við altarið í Bessastaðakirkju sl. sunnudag og lofaði að gera mitt besta til að aðstoða við kristilegt uppeldi gullmolans. Ég er ó svo stolt, svooo stolt og upp með mér yfir þessu hlutverki og er það ætlun mín að vera yfir og allt um kring..., þrátt fyrir að heimsálfur skilji okkur að!

Okezie, ég, Arinze og Helga

Tuesday, August 22, 2006

Vinahandbók Mattheu

...hefur verið í vinnslu í langan langan tíma. Allt frá því að fyrstu vinirnir í hópnum fóru að flykkjast út í leit að ævintýrum en gleymdu alveg að flytja heim aftur. Þórhildur hefur nú gengið lengst í þessum efnum, enda að byggja sér í Ástralíu..og þá lágu vinahandbókarskrifin niðri um tíma meðan ættjarðarormurinn Matthea var að jafna sig á þeim fréttum!
Héðinn, Ásdís, Kiddi, Þórir og Diljá að festa rætur í útlöndum... og Hrabba og Viktor búin að kaupa sér í Árósum!
Ef einn ofantalda hefði ekki keypt allt upplagið af vinahandbókinni, áður en hún kom út og troðið henni þversum uppí rassgatið á mér, kæmi kafli úr bókinni hér á eftir.
Þess í stað hef ég ákveðið að reyna að samgleðjast þessum flökkukindum og skipuleggja heimsóknir til þeirra sem fyrst! (og reyna að tæla mannskapinn aftur heim).

Í gær bauð Íris okkur frænkunum í mat (+ Sigrúnu óléttu og Ölmu Noregsgellu). Þegar leið á kvöldið vorum við búnar að hlæja svo mikið að Sigrún var komin með 2 í útvíkkun og samdráttarverki! Gaman að því

Wednesday, August 09, 2006

Hrabba mín


Hún Hrabba mín er afmælisgella dagsins! Hún, ásamt fjölskyldu sinni bjargaði lífi mínu í Danmörku og upp frá því tóku þau mig í fóstur. Til hamingju með daginn elskan mín!

Friday, August 04, 2006

Monday, July 31, 2006

Hvar hafa bloggdagar lífs míns litum sínum glatað...?

Orðrómur götunnar segir að sumarið sé tíminn... en ég hef það sterklega á tilfinningunni að þegar ég fer að vinna vetrarvinnuna mína eftir hálfan mánuð, sé það einmitt sumartíminn sem kemur til með að virðast sem dagur, ei meir! Tíminn fylgir ekki alveg minni klukku sem þarf að innihalda aðeins fleiri klukkustundir eins og hjá svo mörgum. Einn dagpartur hefur farið í Austurvallarhangs og það var eftir kl 17!! Veðrið hefur svo sem ekki verið að flækjast fyrir mér, en þrátt fyrir að sumarið hafi rokið framhjá mér hefur margt gerst og enn fleira framundan..
Í sumar:
-hefur landbúnaðarráðuneyti Íslands notið starfskrafta minna
-hef ég hringt á skrifstofu opinberrar stofnunar til þess að flissa að talanda símadömunnar
-átti Þórhildur mín afmæli

-er skottan væntanleg til landsins á næstu dögum, frá Ástralíu með litla ungann sinn í kengúrupokanum
-hef ég lagst í fjöruna við Gróttu og ritað í sandinn
-var grillað í Þjórsárdal
-datt Katlan okkar niður klett og brotnaði á báðum höndum
-hlustaði ég á Sigur Rós
-fengu kennsluhæfileikar (þolinmæði) mínir að njóta sín við að kenna afa á kasettutæki..það tók ekki nema 2 klst!
-voru gluggarnir teknir úr íbúðinni minni..og enginn að stressa sig að setja nýja í..hver þarf svo sem súrefni
-hef ég unnið upp ákveðna skuld og er nú á núlli skv. Héðni bókaranum mínum ;)

Í dag:
-á Arndísin mín afmæli!!!

-Mér finnst svoooooooooooo vænt um þig elsku frænka og myndi kalla ferfalt Húrra fram af svölunum mínum ef ég væri ekki nú þegar komin á dauðalista nágrannanna (eftir kveðjupartýið síðustu helgi)

Wednesday, July 12, 2006

Golfmót í Vík!!!

Komið þið sæl,

n.k. laugardag þannn 15. júlí verður golfmót í Vík til styrktar Hilmi Snæ Guðmundssyni.
Spilaðar verða 9 holur á þessum skemmtilega golfvelli og verður fyrirkomulagið punktakeppni.

Í boði eru veglegir vinningar, t.d. ferð fyrir 2 til einhvers af áfangastöðum Icelandair í Evrópu. Einnig verða veitt nándarverðlaun og dregið verður úr skorkortum, þannig að allir ættu að geta unnið eitthvað.

Mótsgjald verður 3500kr. Hægt er að skrá sig með því að senda póst á netfangið golfvik@gmail.com eða hringja í síma 893-3383 Stefán Davíð Helgason eða 861-1779 Þráinn Sigurðsson.

Með von um góða þáttöku,

mótstjórn

Allir eru velkomnir

Heimasíða golfklúbbsins í Vík er http://golf.is/index.jsp?iw_language=is_IS&ib_page=560

Tuesday, July 11, 2006

Harpa


Þetta er hún Harpa afmælisbarn sem á bumbuna Emil. Hún hélt upp á afmælið sitt með rosalegri kvennaveislu á sunnudaginn, þegar úrslitaleikur HM var spilaður. Hörpu líður aldrei vel nema eiga e-h í panti í IKEA. Nú er hún búin að ná í kommóðuna sem bumbuEmil á að fá í september, svo nú leitar hún í örvæntingu að e-h til að panta í IKEA.
Þess má geta að Diljá rokklingur er umboðsmaður bumbunnar.

Tuesday, July 04, 2006

Katlan mín


Í gær átti Katla Þöll, bróðurdóttir mín, 5 ára afmæli. Til hamingju litla skottið mitt!!!

Hvað hefurðu verið að gera að undanförnu, annað en að fitna?


Í hverri ungri konu býr feit miðaldra kelling sem bíður eftir að brjótast út, sagði vinur minn í gær á meðan hann tróð ís í andlitið á sér. Hann hikaði aðeins og bætti svo við hjá sumum glittir í hana fyrr en hjá öðrum!

Ekki þarf að taka fram að þessi athugasemd hægði soldið á handtökunum sem taktfast höfðu borið skeiðina að fésinu á mér, svo munnurinn væri örugglega alltaf stútfullur af ís!

Monday, July 03, 2006

Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns...

Í þau óteljandi skipti sem ég hef gengið fram hjá fallegasta húsinu á Laugarásveginum á leið minni um Laugardalinn, hef ég yfirleitt staldrað aðeins við, horft heim að húsinu og látið mig dreyma um að búa þarna. Ég hef séð fyrir mér hvernig húsið lítur út að innan, virt fyrir mér stóru gluggana og fallegu bílana á stæðinu.
Þegar við Helga nálguðumst húsið í göngutúrnum okkar í dag, breyttist draumur minn í blákaldan veruleika. Gömul kona reikaði út úr húsinu "mínu" og bað okkur um að hjálpa sér. Við héldum það nú og skelltum okkur inn til hennar. Mjög fljótlega kom í ljós að kona þessi var illa haldin af alzheimer og vissi hvorki almennilega í þennan heim né annan. Hún vissi ekki hvort hún væri að koma eða fara, hver byggi þarna með henni, hvort hún væri læst úti eða bara hissa á að enginn væri heima. Við Helga (Nightingale)tókum þá gömlu að okkur, hringdum nokkur símtöl þegar hún var búin að ákveða sig hvað dóttir hennar héti og hvar hún byggi, og sátum svo hjá gömlu þar til dóttirin kom heim. Sjaldan, ef nokkurntímann höfum við vinkonurnar þurft að endurtaka jafn oft staðreyndir um sjálfar okkur og eftir að hafa sagt 5 sinnum hvar við byggjum, létum við nægja að segja bara að við byggjum í nágrenninu.
Þetta var bara nokkuð skemmtileg tilbreyting á kvöldgöngunni og kannski við Helga förum bara að gera út á að kíkja við hjá gömlu ringluðu fólki sem leitar á náðir náungans í neyð!

Tuesday, June 27, 2006

Krakkahelgi


Síðasta helgi var tileinkuð gullmolunum mínum þremur, Björk, Kötlu Þöll og Jökli þar sem við skemmtum okkur hressilega saman víðsvegar um landið!
Töfragarðurinn, Veiðisafnið, tívolí, sund, tjörnin (þar sem við vorum aðallega í því að fæða veiðibjöllurnar), bíó, leikir og grill voru viðfangsefni helgarinnar og sofnuðum við öll með candyfloss í hárinu.

Katla tjáði mér að þó að ég væri orðin fullorðin, myndi ég aldrei hætta að vera tvíburi..hún horfði djúpt í augun á mér og sagði að nú væri ég fullorðin, og bara stundum fullorðinsbarn!
Kannski hætti ég að vera fullorðinsbarn þegar ég hætti að segja "flugveldar" og sá lógigina í því að segja "flugeldar"...
Plís ekki segja Ásdísi og Héðni íslenskunörrum, en ég er að spá í að reyna að endurheimta barnið í sjálfri mér með því að fara að tala vitlaust!

Monday, June 19, 2006

17. júní


Ef hláturinn lengir lífið, þá græddi ég nokkur ár á þessum tveimur gullmolum sem hér sjást jarmandi, nú um helgina!

-Svo tapaði ég nokkrum mánuðum þegar öryggið fór í rúðuþurrkunum á miðri heiði í grenjandi rigningu og ég að verða of sein í vinnuna...!

-Þórhildur vill vita hvað þessar tvær ær heita og þar sem þær litu alls ekki út fyrir að vera mikið að fara í felur á Lækjatorgi að morgni 18. júní, ætti nú barasta vel að vera í lagi að ljóstra því upp. Þetta eru að sjálfsögðu sambýliskonurnar, hundaeigendurnir, Indlandsfararnir, Bootcampboltarnir og gleðipinnarnir Sigrún Ósk og Hlédís!

Monday, June 12, 2006

Hvað eiga...

...hávært piss á Blönduósi, gervigæsin Helvítis fyllerí, fegrunaraðgerðir á kynfærum, Prófessor Herdís, lagið "fjólublátt ljós við barinn"...remixað og hringvöðvagloss sameiginlegt?
Allt saman (og svo miklu, miklu meira) voru þetta umræðuefni Akureyrarferðarinnar um helgina!

Í ferðinni:
-sönglaði Hlédís fyrir utan klósetthurð Möggu að hún heyrði í pissinu hennar..en vandræðalega stuttu seinna kom í ljós að Magga var alls ekki á klósettinu, heldur fullorðin kona sem nú hefur sennilega miklar áhyggjur að hún pissi óvenju hátt!
-komum við okkur svo vel fyrir á tjaldstæði Akureyringa að við komum upp badminton-og krikketvelli í þægilegum radíus frá tjöldunum okkar
-sofnuðu Hlédís og Gulli í sundi
-þjónaði gervigæsin Helvítis fyllerí miklu hlutverki sem almennur gleðigjafi
-fórum við í jólahúsið og smökkuðum hangikjöt
-var pókermót
-Komumst við að stéttarskiptingu norðlenskra garðsláttursmanna
-tók Gulli því með stóískri ró þegar býfluga nálgaðist hann
-settist kettlingurinn Woodstock Kóran (segist alls ekki hratt) að hjá okkur en nú á hann annað hvort heima á löggustöðinni á Akureyri eða hjá Guði
-fórum við í grillveislu aldarinnar til snillingsins Silju Báru..getið séð myndirnar hér
-Smökkuðum við framandi líkjöra í tugatali
-máluðum við bæinn rauðan
-var farið í "ég hef aldrei" og í ljós kom að margir "höfðu oft" ;)
-lærði ég að áhættusamt getur verið að skora á Tóta að skella bjór í grímuna á sér
-var alveg hriiiiikalega gaman :)






Thursday, June 08, 2006

Sumarið

er komið hjá Mattheu!
Í dag kláraðist skólinn í Öskjuhlíðinni og á morgun er sumarfrí-dagurinn minn. Á mánudaginn byrja ég svo í sumarvinnunni..þar til skólinn byrjar aftur í ágúst. Jább, þetta sumar verður frábrugðið þeim síðustu að því leiti að ég verð að vinna alla virka daga og því verður hvítvínsþamb á Austurvelli aðeins að eiga sér stað um helgar!
Á seinustu vikum hef ég verið að reyna að höndla lífsgleðina sem magnaðist við einangrunina og lýsir það sér helst í miðbæjarrölti og almennum látum. Um síðustu helgi fór ég í sveitasæluna til syss og fjölskyldu og náði í froskana mína í leiðinni. Eftir að hafa skellt mér í sund með fólkinu mínu, tvær nætur í röð, rifum við frænkurnar okkur upp á rassgatinu einn morguninn (við Hlés mín), lögðumst undir feld í brúðarsvítu Langaholts og létum dáleiða okkur. Þar fengum við þau fyrirmæli að týna upp fallegt blóm af beði og sveifla því svo yfir einhverjum sem hefði gert okkur eitthvað í æsku.. mjög eðlilegt alveg!
Veit ekki hvort það kemur dáleiðslunni við en síðan þetta átti sér stað, hef ég ekki getað hætt að hugsa um það hvort það sé tilviljun að hún Joð mín hafi bara fermst með rauðhærðu fólki!
Síðan ég bloggaði síðast er hún Hildur mín orðin frú.

Fjörið stóð langt fram á nótt og þetta var allt endalaust gaman. Takk fyrir mig!
Á morgun er stefnan svo tekin á sólina, hvar sem hún nú verður. Við Hlédís, Alma, Gulli, Tóti og Magga..og bara þeir sem vilja koma með ætlum að keyra út í buskann, tjalda og raula útileguvísur fram á morgun!
Víííí...

Monday, May 29, 2006

Hrebbs


Hrabban mín og fjölskylda eru á landinu og því er ástæða fyrir stóra og smáa að gleðjast. Þessi gullmoli fer fljótlega af landi brott til að berjast fyrir íslands hönd í boltanum og er ég sannfærð um að hún rúllar þessu upp!!!
Eins og oftast þegar Hrabbið okkar kemur á klakann, hittumst við vinkonurnar til að spjalla og troða í okkur. Ég veit að ég tala fyrir okkur allar; Joð mína, Moniku og Steffí þegar ég segi: Kooomið heim til Íslands í sumarfríinu (segist með eins rödd og í Karíusi og Baktusi (ekki gera eins og mamma þín segir, Jens)!!!)

Takk fyrir kvöldið yndin mín

-Linkur á Monsuna sem er einn besti bloggari landsins..tékkið bara

Tuesday, May 23, 2006

Ásdís

Í dag eru tuttuguogníu ár síðan Ásdís mín fæddist. Húrra. Við kynntumst á síðustu öld og höfum brallað mikið saman. Húrra. Allt frá því að gera gamlan kjallara íþróttahússins í Hveragerði að félagsmiðstöð, og í það að klæða okkur upp sem tómata og leggja könnun fyrir saklausa ferðalanga sem áttu leið um blómabæinn! Húrra. Í dag á Ásdís heima í Frakklandi og skokkar þar um með baguette í holhöndinni (eins og Héðinn myndi segja). Húrra. Ég sakna hennar. (Ekkert húrra hér). Á miðað við kærastann sinn er Ásdís eldri en ryk. Hehehe.
Til lukku með daginn yndið mitt

Tuesday, May 09, 2006

Sælir eru einfaldir...

...segjum við systurnar stundum þegar við ræðum viðbrögð okkar við hinum og þessum uppákomunum. Við eigum það nefninlega sameiginlegt að búast yfirleitt við því besta, í hvaða aðstæðum sem eru og pæla ekki einusinni í öðrum möguleikum.
Þetta hefur fylgt mér soldið í lífinu og má þar nefna:
-Þegar ég var harðákveðin að fara að sjá Eivorina mína keppa í handbolta, klukkutíma eftir að ég var keyrð niður fótgangandi á Kringlumýrarbrautinni
-Djamm og handboltaferðina á Akureyri, með ML, daginn eftir að ég lét taka úr mér háls-og nefkirtlana
-Raddlausi kennarinn (ég) í nýju vinnunni minni viku eftir að ég lét taka úr mér skjaldkirtilinn og var kölluð Skrámur í mánuð
-Ferðina upp á Snæfellsjökul með hækjur og spelku frá nára og niður á kálfa
...og svo verð ég víst að viðurkenna að það kom dáldið aftan að mér í dag, þegar ég, hjálmlaus brunaði niður Kringlumýrarbrautina á hjólinu mínu og hélt að lífið léki við mig, þegar býfluga á stærð við skógarþröst sogaðist í fésið á mér í aðstreyminu og small á augntönninni, svo ekki munaði nema sentimetrum að hún endaði í kokinu á mér. Ég riðaði til og var næstum búin að missa stjórn á fáknum, rak annan fótinn í stéttina og greip svo í tré...

...töff

Vonandi drapst helvítið

Wednesday, May 03, 2006

Líf mitt


Síðustu sólarhringa hefur líf mitt verið súrara en slátur!

Friday, April 28, 2006

Ábending frá Ástralíu

Hún Þórhildur mín benti mér á að það væri eins og ég hefði ekki lifað einangrunina af, ef miðað er við bloggleysi mitt síðan ég lauk "afplánunni".
Það er öðru nær.
Ég er sprellalæv, fór langt upp fyrir sjálfa mig þegar ég byrjaði aftur á lyfjunum og nánast öskraði úr gleði og hamingju á aumingja alzheimerssjúklinginn ömmu mína þegar hún hringdi til að kanna ástand mitt. Svo sveif ég hægt niður til jarðar aftur og held að ég sé að ná jafnvægi.
Mig langar til að þakka ykkur öllum fyrir kommentin. Gaman að sjá hversu margir kíkja hingað og þegar sjálfstraustið fór að rjúka upp með auknu Euthyrox í blóðinu, fór ég að spá í þessu með skriftirnar. Ég komst að því að ég gæti aldrei skrifað bók. Í fyrsta lagi kemur "andinn" ekki yfir mig nema ég skrái mig í mastersnám í Danmörku eða loki mig af á sjúkrahúsi og fórni eins og einu og einu líffæri og í öðru lagi lengi ég alltaf mál mitt þegar ég segi frá svo að allar mínar bækur myndu byrja á setningunni "Í upphafi var orðið...!" og smásögur mínar yrðu eins og ævisögur í þrem bindum!
Ég fór á húsfund í gær! -Þessi setning hljómar ekkert ógurlega í eyrum margra en ég veit að Gummi og Lísa fá kalt vatn milli skinns og hörunds mér til samlætis. Þessir fundir eru til þess gerðir að ræna mann lífslönguninni. Fyrir utan það að búið er að klína aleigu minni, í formi hraunáferðar, á veggi blokkarinnar, nýja gluggalista og múrviðgerðir, þá hefur gamalt fólk (sem er í miiiiklum meirihluta í þessu 63 íbúða húsfélagi) mjög sterkar skoðanir á öllu, öllu sem viðkemur blokkinni og öllu öðru. 62 skoðanir eru t.d. á því hvaða litur fari blokkinni best (getiði hverjum er hundaskítsama). Þegar fimmtugastiogáttundi íbúi blokkarinnar var að tjá sig um mikilvægi sveigjuhandriða var ég komin í svo djúpar samræður við gömlu konuna við hliðina á mér að ég vissi nákvæmlega hvar hún ólst upp, hvaða leið hún hjólaði í vinnuna í gamla daga og að maðurinn hennar sem sat hinumegin við hana ropar orðunum út úr sér eftir að hafa fengið krabbamein í raddböndin!
Af þessum fundi fór ég svo beint á fund Kennarafélags Reykjavíkur og með því fór ég úr öskunni í logandi elda helvítis. Ef ég gef mér það, að ég lifi fram yfir fimmtugt, (þá þarf ég líka að láta af þeim ósið að mynda krabbameinsæxli hér og þar, fara að líta í báðar áttir þegar ég fer yfir götu og standa mig í átakinu "hjólað í vinnuna" (sem ég skráði mig í með glöðu geði en spyrnti svo við fótum þegar átti að plata mig til að koma í morgunverð í Hafnarfirði kl. 06.00 á fimmtudaginn og hjóla svo þaðan í vinnuna)) verði ennþá með gleraugu og finnist ég knúin til að garga skoðanir mínar og baráttumál yfir fullan sal af fólki er ég sem sagt orðin eins og megnið af fólkinu sem þarna var í gær... árar Kölska.

Friday, April 21, 2006

Þriðji í einangrun

Ég trúi varla að upp sé runninn þriðju dagurinn í einangruninni! Eivor engillinn minn í Þýskalandi reddaði mér góðum hluta gærdagsins með því að koma mér inn á veftv stöðvar 2 og er ég nú búin að rifja upp nánast alla Svínasúpuþættina og hló svo undirtók í stofunni :)
Það er soldið merkilegt ferli sem á sér stað inni á spítölum. Ekki það, að ég hafi spáð mikið í það hingað til, enda yfirleitt verið hálf dópuð af lyfjum eða sársauka þegar ég hef lagst inn fram að þessu, en ég hugsaði vel og vandlega um það áðan. Þannig er nefninlega að nú er tími úthreinsunarinnar.. jebb eins og allir vita þá kúka stelpur ekki svo ég mun reyna að hafa þennan kafla bloggsins frekar stuttan. En ég fór sem sagt í þetta ferli í morgun að fá hina og þessa pilluna, stíla, túbur og vökva til að allt geislavirkt myndi nú örugglega skila sér út í sjó, þaðan í fiskana og að lokum á sushi-diskinn ykkar :)
Stuttu eftir allar þessar inntökur til úthreinsunar var hringt frá ísótóparstofu og nú átti að mæla mig vel og rækilega til þess að hægt væri að reikna út hvenær óhætt sé að sleppa mér lausri (svona soldið eins og þeir gera víst í Hrísey..eða gerðu allavega).
Mér var komið fyrir á mjóum bekk og yfir mig var settur stór skanni og svo rann bekkurinn rólega í tæpan klukkutíma og skanninn vann sína vinnu í hverjum krók og kima líkama míns. Til þess að ég yrði nú kyrr þessa klukkustund og ekkert myndi klikka, var ég óluð niður á höndum og fótum.
Það var akkúrat þá sem ég áttaði mig á því að maður þarf að vera ansi meðvitaður um sjálfan sig ef maður vill ekki verða fórnarlamb aðstæðna...að vera nýsloppin úr einangrun og vera svo ólaður niður á bekk...hmmm...
Svo ég tali nú ekki um að vera með Microlax í sunnanendanum, sem er ekki beinlínis róandi fyrir klukkutíma afslöppun, niðuróluð og fín :)
Heimferð í dag og hið daglega líf framundan, víííííííí

Mamma á afmæli í dag og ég ætla sko að kalla til hennar úr fjarlægð...TIL HAMINGJU!!!

Thursday, April 20, 2006

Ég bara verð að deila því með ykkur...

...hversu mikilvægt það er fyrir suma að halda sig bara inni, helst alltaf og vera ekkert mikið að láta sjá sig innan um annað fólk!!
Áðan fékk ég símtal sem veitti mér aðgang út í frelsið. Það var ísótópastofa sem er niðri á næstu hæð og vildi fá mig niður í mælingu. Eftir að ég lagði á leið mér svona svolítið eins og ég væri að fara á árshátíð eftir langt hlé. Ég vandaði mig við að pissa rétt (og auðvitað allt beint í skálina, ekkert á ská eða neitt þannig), sturtaði tvisvar niður og þvoði mér tvisvar um hendurnar. Greiddi mér, tannburstaði fyrir ofan vaskinn og hitti öllu oní og vandaði mig sérstaklega við tunguna!
Svo var komið að því að velja föt... ég var mjög lengi að ákveða í hverju ég ætti nú að fara, því það er ekki á hverjum degi sem manneskja í minni stöðu fær að fara út úr helli sínum. Eftir miklar vangaveltur ákvað ég að fara í síðu nærbuxurnar sem eru hvítar sem mjöll og þvottahússtafirnir framan á buxnaklaufinni eru svartir sem tinna! Sokkarnir toppuðu svo fegurðina og ferskleikann og það voru titrandi hendur sem snéru hurðarhúninum á leið út á gang. Ég var með hálfgerðan kjánahroll alla leiðina niður, fannst ég vera að stelast út um miðja nótt til að sækja í vafasaman félagsskap..svo var líka önnur tilfinning sem sótti á mig en ég var ekki alveg viss um hver hún var. Þar sem ég má náttúrulega ekki snerta fólk, fannst mér ég getað bætt fyrir fjarlægðina með því að brosa mínu breiðasta meðan ég arkaði á neðri hæðina.
Þá gerðist það..dularfulla tilfinningin sem ég hafði fundið fyrir var sú sem píparar einir finna ekki og eru því oft með svokallaðan "plummer" en aðrir eiga að vera nokkuð meðvitaðir um. Síðu fínu nærjurnar mínar höfðu mjakast niður og þegar ég hélt að ég væri að hífa þær upp, var ég alltaf að toga í strenginn á þeim stuttu sem innanundir eru...og úps..í miðjum stiganum, geislavirk og brosandi eins og Þyrnirósin eftir aldarsvefninn, missti ég niðrum mig fallega "árshátíðarföðurlandið" mitt!!!
GUÐI SÉ LOF FYRIR AÐ SUMARDAGURINN FYRSTI ER FRÍDAGUR OG ÞVÍ FÁIR Á FERLI!

MS=Matthea Sperrileggur

Gleðilegt sumar!!

Kannski það hafi blundað í mörgum á þeirra villtustu árum hræðsla við að vakna upp á þeim stað sem ég er núna. Eftir að hafa kvatt veturinn "full" harkalega, drukkið frá sér ráð og rænu, frídagur daginn eftir og svona..og vakna svo í sótthreinsuðu umhverfi og algjörlega á valdi þvottahúss spítalanna! Þetta hvarflaði svona að mér í morgnun þegar ég vaknaði við bank og morgunmatarbakka var smeygt inn svo hann rétt snerti innri hurðina á stofunni minni.En sem betur fer er ég fullkomlega meðvituð um ástæðu veru minnar hér og hef ákveðið að njóta hennar.
Ég á svo góða vini og fjölskyldu að ef ég væri væmin að eðlisfari, færi ég að grenja akkúrat núna. En eins og einn góðvinur minn segir: "Tilfinningar eru bara fyrir eymingja, homma og kjellingar" svo ég læt nægja að segja bara 1000 þakkir fyrir símtöl, komment, bréf ofl..þið eruð rjómi þjóðarinnar og mér finnst afskaplega vænt um ykkur öll :)
Alveg eins og ég var búin að ímynda mér mörgum árum fyrr hvar ég yrði um aldamótin sem þá virtust mjög fjarlæg, hafði ég ekki beint planað þessar aðstæður mínar þennan sumardaginn fyrsta! Að sjálfsögðu var ég heldur ekki stödd í Eiffelturningum í París á miðnætti um aldamótin en ég er enn að átta mig á þessu öllu hér.
Aldrei hefur verið brýnt eins vel fyrir mér að spíta tannkreminu vel og vandlega ofaní vaskinn, svona svolítið eins og ég sé vön að spíta því í lófann á mér og klína svo í hárið á einhverjum, eins heyrðist öðru hvoru rödd í gegnum hurðirnar mínar tvær í gær sem hvatti mig áfram að sjúga nú brjóstsykurinn...vel og vandlega. Á tímabili fór ég að halda að þarna væri á ferð annar sjúklingur sem hefði laumast að hurðinni og væri að tala skítugt, en er ég kannski sú eina sem set uppí mig brjóstsykur, velti honum svo rækilega upp úr gólfinu og geymi hann að lokum á milli rasskinnanna?! Nei nei, það er gott að fylgst sé vel með manni og auðvitað er mikilvækt að ég spíti ekki geislavirkum síklum hér um allt og svo þarf ég stöðugt að koma munnvatnsframleiðslunni af stað til að geislarnir setjist ekki í munnvatnskirtlana.

Vá þegar rennt er yfir þessa bloggfærslu má sjá hvernig sjálfhverfur einstaklingur (ég) verður enn sjálfhverfari (um mig) þegar hann er einn (frá mér) með sjálfum sér (til mín)!

Björkin mín besta varð átta ára í gær! Ég komst því miður ekki í afmælið (þó hefði kannski verið soldið gaman að sjá upplit foreldranna þegar inn valsaði úfin, geislavirk frænka í síðum hvítum nærbuxum sem væri komin til að knúsa krakkana þeirra..muhahahahahah) en hugsaði þeim mun meira vestur til gullmolans míns sem var svo heppin að kindin hennar bar lambi á afmælinu sem var að sjálfsögðu skírt í höfuðið á au-pairnum Ninu. Og svona bara fyrir Braga: Kýrin Matta hefur það fínt, en ég er enn að venjast því að eiga belju sem nöfnu ;)

Wednesday, April 19, 2006

Eign þvottahúss spítalanna

Jább það er ég! Alveg frá toppi til táar. Þrátt fyrir að ég hafi nú sterklega á tilfinningunni að þvottahús spítalanna kæri sig alls ekkert um að eiga mig!
Allavega er pokinn í óhreinatauskörfunni minni úr sykri til að hægt sé að demba öllu draslinu beint í vél og enginn þurfi að snerta á sýktum spjörum mínum.
Ég sem hef sjaldan tekið mig betur út. Síðu, niðurþröngu nærbuxurnar vinna þannig með stuttu afa-sniðnu nærbuxunum að þær draga hvora aðra niður. Þannig að í gegnum gula kartöflusekks-sloppinn minn þarf ég að kafa á mínútu fresti til að hífa öll herlegheitin upp um mig! Lukka í ólukkunni að ég fái ekki að spranga hér um gangana og dilla skönkunum, þess í stað sit ég í turnherbergi mínu og get ekki einusinni beðið eftir því að prins komi og frelsi mig. Ef ég myndi skella lokkaflóði mínu út um gluggann og ætla að bíða þess að prinsinn á hvíta hestinum klifraði upp, gæti ég þurft að bíða ansi lengi því ég er, jú, eitruð!!

Bloggleysi síðustu daga/vikna kemur til af ýmsu. Þó sérstaklega þeirri staðreynd að ég hef haldið mig nær alla páskana í sveitasælunni hjá Ragnhildi syss og co, sofið og borðað til skiptis og verið nánast símasabands og tölvulaus. Ég gat mokað mér á KK og Ellenar-tónleika með Hlédísi og Sigrúnu á Hótel Búðum en þar með var þátttöku minni í menningar eða skemmtiviðburðum páskahátíðarinnar lokið. Ef sundferðir, spilakvöld eða spjallhittingur var planaður eftir kl 22 á kvöldin, var Matthea B-manneskja Sigurðardóttir að játa sig sigraða fyrir hinum snemmsækna A-manneskja svefni! Hrikalegt alveg.
Og nú er ég hingað komin. Á krabbameinsdeild 11 E, stofu 12 sem allir óttast að koma nálægt, matarbakkar eru lagðir fyrir utan hurðina og eins er með hreinan tískufatnað, beint úr þvottahúsi allra landsmanna. Allt er reynt til þess að líf manns breytist sem minnst við svona innlögn..þeir eru með iðnaðarmenn beint fyrir utan gluggann hjá mér hér líka!!! Og Hlédís, veistu hvað..þessir eru sko líka með bor..alveg fyrir allan peninginn!
Mér finnst þetta nokkuð gaman. Var að hugsa um það í morgun, eftir að ég keyrði pabba og félaga hans út á flugvöll (þeir voru að fara til Spánar í golfferð) að mér liði eins og þegar ég kom heim úr göngunni okkar upp í Reykjadal þarsíðasta sumar. Sólin var komin upp, fuglar sungu, fáir á ferli og allt af vakna. Vor í lofti og sumarið framundan.

Þar sem lítið er að gera hér í lítilli einangraðri stofu, á ég von á því að blogga mikið og þá kannski sérstaklega um það sem ég hugsa um núna, þegar ég hef svo góðan tíma til að hugsa.
Núna lítur allt út fyrir að ég verði hér aðeins fram á föstudag því það er víst röð af fólki sem vill láta myrða frumur í hálsinum á sér með þessum hætti (eða kannski bara þreyttar húsmæður/feður sem eru hvíldinni fegin). Í gær var mér sagt að ég færi í fyrsta lagi heim á laugardaginn..en þetta skýrist allt á næstunni.
Bæjó-í bili þó!

Monday, April 03, 2006

Fegurðarblundur

Einhverntímann stóð ég í þeirri trú að fólk sem fengi sér blund svona við og við, væri ólíklegra til að fá bauga, hrukkur og væri alltaf í góðu skapi því það væri svo úthvílt (allavega fórum við Arndís, meðvitað eða ómeðvitað, eftir þessari speki öll menntaskólaárin!
Nú er hins vegar svo komið að blundirnir hjá með veita mér allt annað en fegurð eða ferskleika. Ég er bókstaflega alltaf þreytt og sofna hvar og hvenær sem er þessa dagana. Hef minnt sjálfa mig á konuna í fyrstu Duice Bigalow-myndinni sem þurfti að binda hárið við stólinn svo andlitið dytti ekki ofan í súpuskálina þegar hún sofnaði í tíma og ótíma.
Eftir ræktina og göngutúr um helgina var planið að skella sér aðeins austur til mömmu og pabba, en fá sér smááá lúr áður en lagt væri í heiðina..5 klst seinna, í framan eins og rúsína og með orku á við tannstöngul, vaknaði ég og ekkert varð af ferðalagi. Ég veit að nú hugsa margir að þetta komi þeim ekki svo mikið á óvart fyrst þetta sé nú einusinni ég, og ég viðurkenni alveg að ég hef mikla reynslu í eftirmiðdagslúrum..en nú er mér brugðið, svo þið getið rétt ímyndað ykkur!
Ég þakka þeim sem hugsuðu til mín um helgina og reyndu að hringja, ég svaf nánast alla helgina og hefði hvort sem er ekki verið skemmtilegur félagsskapur, en takk fyrir að hugsa til mín.
Nú eru 2 vikur búnar ég er hálfnuð í ferlinu. Ég er ekki komin með bjúg ennþá eða önnur líkamleg einkenni en köttinn á bringunni, svo þetta er vel sloppið hingað til. Ef bjúgurinn lætur sjá sig, er ég svo heppin að baugarnir undir augunum eru að verða það síðir að ég breiði þá bara yfir mesta bjúginn og málið er dautt!

Friday, March 31, 2006

Eeeegggg

Ætli séu raunhæfar skýringar á því, að mér finnst alltaf öll egg "renna út" í nóvember?! Alltaf þegar ég sé egg í ísskápnum og man ekki hvenær ég keypti þau, skýst upp í hugann á mér að þau hljóta að vera "best fyrir" nóvember..!
Hef ákveðið að taka upp ákveðið kerfi, þ.e.a.s merkja eitt eggið með tússi og elda það síðast.

-Hér þarf væntanlega ekki að taka fram að ég tek öll eggin úr bakkanum þegar ég kaupi þau, raða þeim í ísskápinn og hendi bakkanum.

Sunday, March 26, 2006

Áskorun

Á mig hefur verið skorað að blogga um "geislaferlið" mitt sem hófst í raun í síðustu viku. Þá hætti ég að taka lyfin mín sem sjá mér fyrir efnaskiptum, hormónaflæði.. já beinlínis halda mér hérna megin línunnar. Að hætta lyfjatöku er svipað og að stöðva virkni eins ákveðins líffæris..kannski svona eins og ákveða að hætta að blikka augunum eða einbeita sér að því að stöðva munnvatnsframleiðslu einn daginn!
Eins og gefur að skilja eru ýmsar aukaverkanir sem fylgja því að stoppa eitt tannhjólið í vélinni og var ég upplýst um þær allra helstu.
Nú er sem sagt vika síðan ég tók síðast inn lyfjaskammt og enn láta aukaverkanirnar bíða eftir sér. Ég vildi nú meina að það væru einstaklega miklar læknisfræðilegar ástæður fyrir því að ég sofnaði í miðjum bangsaleik við Kötlu frænku mína í gær..en þeir sem mig þekkja hristu hausinn og muldruðu: "eiiiinmitt"
Einnig velti ég því fyrir mér hvort skjaldkirtilsleysið ylli því að þegar ég sat í fullum bíósal í kvöld og horfði á Tristan og Ísold, gat ég ekki hætt að hugsa um það hvað mig langaði í Sinalco!! (engin leið að nálgast það nú til dags..vá hljóma ég ekki eins og öll 29 árin mín).
En enginn vafi er þó á því að ósýnilegi kötturinn sem lá á bringunni á mér í nokkra mánuði áður en æxlið uppgötvaðist er kominn aftur! Hann beið færis á því að skríða upp á bringuna á mér og liggur þar af fullum þunga. Vonum að hann stökkbreytist við geislunina og verði að fallegum prins (kannski Tristan!!)

Tuesday, March 21, 2006

Ég á...

... svoooo góða vini!
Takk fyrir allar kveðjurnar djásnin mín

Wednesday, March 15, 2006

Útgeislun

Vá hver er kaldhæðnin í því að rekast á gamla ókunnuga konu í búð sem segir að maður hafi útgeislun og frétta svo daginn eftir að maður þurfi í geislajoðmeðferð þar sem maður er í einangrun sökum geislavirkni, verður að fletta bókum með hönskum og má ekki koma nær fólki en 2 m... ætli sú gamla sé skyggn!

Að vera með vatnshöfuð og munnþurrk er líka kaldhæðið!

Monday, March 13, 2006

"Ég var aldrei send í sveit"...

..var boðskapur menningarnæturgjörnings Diljáar vinkonu minnar fyrir rúmu ári síðan. Nú er svo komið að ég þarf að senda syni mína í sveit. Já, þeir Hrollaugur Bósi og Jónas annar munu yfirgefa öryggi heimilis síns (fara að vísu með búrið með sér) um páskana og verða í pössun hjá móðursystur sinni og fjölskyldu. Ástæðan er sú, að ég þarf að leggjast inn á spítala og geislavirkja mig aðeins upp!
Læknarnir mínir vilja fullvissa sig um að allt kvikt sé dautt í hálsinum á mér og telja þann kost skástan að loka mig af inni í einangrunartjaldi á sjúkrastofu og láta mig gleypa geislajoðpillur til að ég lýsi í myrkri. Stökkbreytingum verður vonandi haldið í lágmarki en í ljósi heppni minnar undanfarin ár, má ég alveg eins eiga von á því að vakna með brjóst á enninu ;)
Ég má ekki taka lyf í mánuð fyrir innlögnina, og vildi læknirinn meina að síðari 2 vikurnar gætu orðið soldið erfiðar...
Þannig að, góðir hálsar (ég telst nú seint til þess hóps), í páskafríinu verð ég sennilega með bjúg, munnþurrk og skapsveiplur sem gætu mælst á jarðskjálftamælum í verstu hviðunum! Allt sem ég segi eða geri á þessu tímabili má alls ekki nota gegn mér :)

Sunday, March 12, 2006


Matarbodid var geggjad..her eru Gulli og Anna Vala eftir ad hafa trodid i sig :) Posted by Picasa

Alma meistarakokkur Posted by Picasa

Arndisin min Posted by Picasa

Sigga systir (buin ad hneppa fra) og Bergur Posted by Picasa

Helgin

-fór í hendingskasti eftir vinnu í Hagkaup í Kringlunni
-brosti til gamallar konu sem var í hjólastól
-sú gamla stoppaði mig og sagði mig hafa einstaka útgeislun og að hennar viti hefði ég bjargað deginum fyrir mörgum einmana sálum við grænmetisborðið
-hún sagði mér einnig að hún hefði lamast fyrir 51 ári og kenndi engum um og bæri ekki hatur í brjósti sér
-ráðlegging hennar til mín var sú að ég ætti að kveikja á kerti og slökkva á símanum mínum 20 mín til klst á dag
-hún hækkaði svo róminn og nánast öskraði á mig að ég yrði að læra að segja "nei" því maður gefur ekki úr tómum poka, fyllir ekki á sprungna blöðru osfrv...
-ég sagði henni ekki að einn málkunningi minn (Héðinn) sagði eitt sinn að ég væri félagslegt sleipiefni (mér fannst það ekki eiga við út af kynslóðabili okkar gömlu).
-í þrjú korter brosti ég svo til konunnar og komst ekki að til að segja að ég væri orðin of sein til að brosa til annars gamalmennis (ömmu) og kunni ekki við að fara því sú gamla var enn að lofsyngja mig
-fór svo loks til ömmu, brosti mínu blíðasta því ég var aðeins of sein og keyrði hana í nudd
-beið í klst á nuddstofunni og hugsaði um gamalmenni almennt
-ræktin
-svaf svo yfir Elizabethtown
-nýja íbúðin hans Eyþórs
-brauð og kökur til Helgu
-tiltekt
-risastór strigi sem brátt fer á stofuvegg heimilis míns

-matarboð hjá Gulla og Ölmu í kvöld..vííííí

Wednesday, March 08, 2006

Að blogga í minningagreinastíl

Af því tilefni að Jens minn Tilsner er orðinn 29 ára og nálgast því brátt fertugsaldurinn, finnst mér við hæfi að minnast þeirra ára sem hann átti í blóma lífsins. Nú er lífsblómið að fölna og engin leið tilbaka!
Þegar okkar leiðir lágu saman í fyrsta sinn, náði þessi mikli öðlingur vel að fela fötlun sína, sem síðar átti eftir að verða honum fjötur um fót. Ég, í barnaskap mínum átti það til að biðja hann að segja álit sitt á förðun minni, fatavali eða öðru slíku og það gerði hann nokkuð skammlaust um hríð. Það var ekki fyrr en of seint að ég uppgötvaði að hann var litblindur og telst þar með til fatlaðra og má leggja í merkt stæði. Ég hins vegar sit eftir með sárt ennið, bleikan varalit og fjólublá pils...og hélt að ég væri töff!
Ekki er auðvelt að sjá hversu gamall Jens minn er, eða Héðinn eins og hann var að lokum nefndur.
-Líkamlega er hann ekki deginum eldri en 28 ára!
-Málfarslega gæti hann verið bekkjarbróðir Jónasar frá Hriflu
-Tannlæknaskýrslur sanna að stellið er varla ársgamalt, enda alltaf að byggja og bæta tanngarðinn
-Peningalega... koma tímar og koma ráð

Njóttu þeirra 29 ára sem eftir eru elskan mín og til lukku með daginn (upphafið á endinum;)

Gísli mágur minn og Gummi vinur eru líka afmælisbörn dagsins en þeir eru staddir ásamt Þráni og pabba í Englandi á Liverpool-leik.
Til hamingju!

Saturday, March 04, 2006


Thetta eru synir minir, �eir Hrollaugur Bosi og Jonas annar. Annar er prins � al�gum en hinn er bara vinur hans, ag�tur samt alveg! Posted by Picasa

Thursday, March 02, 2006

Mwuhahahahaha

Þessi hefur fundið leið til að sleppa við leiðinlegar bekkjarferðir fyrir lífstíð!

Tuesday, February 28, 2006

Þessir dagar!

Er eðlilegt
að standa í sakleysi sínu í röð í 10-11 þegar róni ryðst inn, plantar sér í beint fyrir aftan mann og þegar maður lítur við, þá andarvarpar hann af "fullum" krafti beint framan í mann!

Nei!

er þá eðlilegt
að hrökkva upp við að e-h ýti það fast á dyrabjölluna að hún festist inni (kemur fyrir þessa dagana) og þegar maður hleypur niður og ætlar að fixa helvítis bjölluna, þá kemur í ljós að þar stendur sami róninn og heldur að maður reki gistiheimili!

Nei!

Hvað er þá eðlileg við að maður bjóðist til að fletta upp á títtnefndu gistiheimili fyrir rónann og kalla svo götuheitið niður af svölunum því þrátt fyrir rónann í sjálfum sér, er maður soldið hræddur við róna almennt...!

Guði sér lof fyrir Hlés mína sem stóð sem einfættur klettur við hlið frænku sinnar í rónaraununum!

Friday, February 24, 2006

Hver okkar á mest bágt...

...ég eða húsaflugurnar tvær og hrossaflugan sem liggja þurrsteiktar í loftljósinu í svefnherberginu mínu.
Jákvætt við þeirra aðstöðu: Þær enduðu líf sitt í sviðsljósinu og kalla á athygli augna minna þegar ég rýni upp í loftið= töff lík
Jákvætt við mína aðstöðu: Ekkert
Neikvætt við þeirra aðstöðu: Þær eru dauðar
Neikvætt við mína aðstöðu: Ég þarf að ná í stól, teygja mig eins langt og ég get, hugsanlega fara úr lið við það, skrúfa ljósið eða toga í það...ég man það aldrei og pirrast gífulega á þessu stigi ferlisins, sturta úr ljóskúplinum í ruslið (eða jafnvel í froskabúrið;), fara aftur til baka, aftur upp á stólinn, teygja mig og reyna að muna hvort helvítis ljósið sé skrúfað eða smeygt!

Það þarf ó svo sterk bein stundum til að vera hún Matthea

Thursday, February 23, 2006

Hrollaugur Bósi og Jónas (í hvalnum) II

Ég gekk (ekki þó í hægðum mínum) á hlaupabretti í Laugum í gærkveldi og velti því fyrir mér hvort strákurinn við hliðina á mér vissi af því að hann gargaði og tók fyrir andlit sér þegar Chelsea stóð sig ekki gegn Barcelona á skjánum fyrir framan hann. Ég var að spá í hvort ég ætti að flissa inní mér að honum þegar ég áttaði mig á því að sjálf var ég svo niðursokkin í skautadansinn á næstu rás, að ég var alvarlega farin að velta því fyrir mér hvort skautadansmeyjarnar lentu aldrei í því að vera akkúrat á túr á stórmótum. Kjólarnir bjóða ekki beint upp á það að fela dömubindi eða spotta af túrtappa...og það hlýtur að vera óþægilegt að klóra sér í eyranum með tánni á fullri ferð á skautasvelli ef maður (kona) er með álfabikarinn.
Ég veit alveg að það er hægt að stjórna blæðingunum með pillunni..en sumar eru svo ungar, sem veltir upp annari pælingu, hvort þær fari á pilluna bara til að vera ekki á túr á stórmótum.
Æ ég hætti allavega hlaupunum (labbinu) áður en ég komst að niðurstöðu!

Jónas minn vann froskanafnasamkeppnina með nöfnunum Hrollaugur Bósi og Jónas II (sem er prins í álögum). Albínóinn er sjálfskipaður Hrollaugur, er hrollvekjandi og býr í laug.
Takk þið öll yndin mín fyrir tillögurnar, þær voru allar góðar og aldrei að vita nema ég fái mér fleiri dýr (ekki samt áður en ég kaupi mér flugmiða Héðinn) og leiti þá í nafnabankann :)

Tuesday, February 21, 2006

Loksins gerðist það

að barnaskapur minn og peningaráð færu illa með mig. Ekki svo að skilja að þetta sé í fyrsta skiptið, en núna birtist geðveikin í formi tveggja froska (annar er albínói). Ég skrapp í gullfiskabúð fyrir helgi og gekk út hálftíma seinna með fangið fullt af froskadóti ásamt prinsunum mínum sem settir voru í poka. Þeir þykjast alltaf vera dauðir þegar ég tala við þá (surprise!) en stökkva svo á mig þegar ég skipti um vatn...sem endar með því að íbúðin og ég erum á floti!
Ef einhver kann skemmtilegt froskanafn, þigg ég allar hugmyndir (Héðinn það er bannað að segja Flus eða Húnbogi!)

-og hvernig stendur á því að síðasta færslan mín datt út!
Arg

Tuesday, February 14, 2006

Fiskur á reiðhjóli

Oddný Sturludóttir, samfylkingarkona hlaut verðlaun fyrir að ferðast allra sinna ferða á hjóli. Ekki voru allir á eitt sáttir með réttmæti þeirra verðlauna þar sem hún býr í Þingholtunum og kostningaskrifstofa hennar er á Laugarvegi.
Það sýður á einum góðum vini mínum sem þeysir um á gráa fiðringnum sínum um allt og býr hann í Hlíðunum!!
Hann fær umhverfisverðlaun mánaðarins hjá vinkonu sinni, Mattheu. Til hamingju Frímann minn!
Kveðjuathöfn saumaklúbbsins Sleiks var haldin á Ítalíu í gærkveld. Dillý okkar tyllti niður tánni hér á landinu á leið sinni frá Danmörku til San Fran. Á meðan við skáluðum fyrir "afmælislíkamshluta" Diljáar, var brotist inn hjá mömmu hans Frímanns...ljótterðað!
Þorrablót helgarinnar var með eindæmum skemmtilegt. Öll systkini mín voru samankomin á blótinu, Ragnhildur, Þrási, Hlés og Arndís, Æsa og svo auðvitað Gísli bílstjóri.
Sumir tóku með sér svið heim á leið, aðrir stálu jakka!
Bara gaman að því!

Thursday, February 09, 2006

Arg

Einhverntímann hefði ég flissað eins og smástelpa ef einhver hefði sagt að mér ætti eftir að klæja í einn kalkkirtilinn minn!
Fram að þessu hefur mér fundist eins líklegt að hægt væri að klægja í kalkkirtil eins og að blikka með brisinu en nú er þetta því miður orðin staðreynd.
Ófullkomleiki minn felst meðal annars í því að einn af mínum fjórum kalkkirtlum er saumaður í vöðva eftir skurðaðgerð og ekkert meira með það neitt. Fyrr en á síðustu dögum þá líður mér eins og þessi títtnefndi kalkkirtill sé að fá uppreisn æru, eftir langa þögn. Aaaarg, það er ekki eins auðvelt að klóra sér í kalkkirtlinum eins og eyranu!

Vilborg afmælisbarn, til hamingju!

Wednesday, February 08, 2006

Fyrir 28 árum

fæddist í þennan heim lítil vera sem átti síðar átti eftir að vera þekkt innan vinahóps síns sem "Florence Nightingale". Hún á það til að; gera hlé á djammi sínu um miðja nótt og hoppa upp í sjúkrabíla sem ná í slasaða á skemmtistaði borgarinnar, dýfa hendi sinni ofan í vaska sem stíflast hafa af magainnihaldi vina sinna, kaupa sér flugför til hinnar og þessar heimsálfunnar í stundarbrjálæði, hughreysta vini sína þegar illa gengur (og vel), klifra yfir klósettveggi...einnig í þágu vina sinna, ofl ofl..
Helga mín, til hamingju með afmælið!!!

Monday, February 06, 2006

Gulli getur...

...stokkið upp eina hæð í hverju skrefi.
Á þessa staðreynd rak ég mig á föstudagsnóttina þegar ég var nýkomin heim og búin að hreiðra um mig í stofusófanum með ís (já nú eru allir dagar ísdagar). Það var dinglað (og bjallan festist inni eins og vanalega). Ég gekk fram, viss um að þetta væri Arndísin mín sem hefði gefist upp á djamminu eins og ég (jább, eins og ég þekkti hana frænku mína ekki neitt!). Ég ýtti á takkann á dyrasímanum og opnaði svo hurðina á íbúðinni minni. Bjóst við að sjá glitta í dökkan koll á leið upp stigann, en í staðin stóð dökkklæddur Gulli beint fyrir framan dyrnar...
Það má segja að ég hafi alveg misst kúlið, andlitið og hjartsláttinn á því andartaki, og úr fagurmótuðum raddböndum mínum spratt út hást öskur, sjitt hvað mér brá...
Langaði bara að deila því með ykkur elzkurnar, hversu ó svo hættulegu lífi ég lifi!!

Tuesday, January 31, 2006

Hér er bara ekki neitt...

voru orð læknis sem skoðaði mig í gær. Ef hann hefði verið að skoða svæði aðeins ofar en raunin var, hefði þetta verið einstaklega dónaleg athugasemd. En þar sem hann rúllaði ómtækinu fram og aftur um hálsinn á mér, voru þetta bara góðar fréttir. Að vísu átti ég í vandræðum með að skilja hann í fyrstu því hann blandaði saman íslensku og dönsku í eina orðasúpu (og eins og flestir sem mig þekkja vita, gerði ég flest annað en læra dönsku þetta ár mitt úti). Ég reyndi að útskýra fyrir honum að það væri nú ekkert skrítið að ekkert væri þarna því kirtillinn hefði allur verið fjarlægður í ágúst... eftir japl jamm og fuður urðum við sammála um að skilja ekkert sérstaklega vel hvort annað en ég komst þó að því að með þessum orðum ætti hann við að engar krabbameinsfrumur væru sjáanlegar í eitlunum eða annarsstaðar og það væru góðar fréttir. Nú get ég haldið áfram að drepa mig á gjálífi og ólifnaði ;)
Enda fór ég beint og fékk mér ís!

Reunion helgarinnar var mjög skemmtilegt. Með blóðflæðið á fullri ferð eftir spennandi handboltaleik (og nokkra bjóra) renndum við ömmurnar á Ara þar sem einhverjir úr klíkunni höfðu hreiðrað um sig, nokkur borgfirðingafífl, fjármálaráðherra ofl. og fjörið hélt áfram...og áfram.

Tveir linkar á línuna:
Jónas minn sem einusinni var litli frændi, en er nú bara frændi (enda löngu orðinn stærri en ég). Hann neitar að læra af Möttu frænku sinni sem telur ekki við hæfi ættarinnar að stunda nám í Danaveldi eftir að hafa ræktað þar barnið í sér (og reyndar æxli í leiðinni). Hann er nú lærlingur í Köben, hefur gaman að jarðfræði, fótbolta og naglalakki (bleiku); á það til að semja hálfar sögur, senda þær á frænkur sínar (mig) sem orðnar eru spenntar, en klára aldrei seinni hlutann!

Íris mín sem er ennþá litla frænka og sýnir ekki mikla tilburði að stækka mikið meir. Hún er einn stærsti dvergur íslands...nei nei, hún er lyfjafræðingur, sérfræðingur í samlokusamfaradansi, á diskókúlu og lykil af íbúðinni minni sem hún notar aldrei ;) Einnig lumar hún á einni Viagra fyrir mögru árin.

Jónas og Íris, velkomin á kantinn!

Thursday, January 26, 2006

Langar til að deila því...

...með þessari heimsálfu a.m.k. að í dag er frelsari fæddur, allavega prins. Í Ástralíu, fæddi Þórhildur mín strák í gær, en samt eiginlega í dag því hann fæddist 26. jan. Ástralía er bara svo á undan skohh.
Ég er ó svo stolt af stelpunni minni :)

Svo er ég komin á nýjan bíl og það er alveg að koma helgi! Vei

Thursday, January 19, 2006

Síðasti söludagur

á mjólk er áætlaður nokkra daga fram í tímann..kannski svona viku, nema á fjörmjólk sem endist víst aðeins skemur en léttmjólkin.
Þetta er mikilvægt að vita, því það eitt er víst að gamalt verður úrelt og þá má henda því fyrir nýtt.
Menn falla ekki á síðasta söludag af sömu ástæðu og það er dónalegt að benda á gamalt fólk, hvað þá fólk með hækju eða göngugrind. Síðasti söludagur þeirra rann út fyrir löngu og allir vita það en enginn sýnir það samt (nema kannski hjúkrunarheimilin).
Ég stend og fell með þeirri skoðun minni að maður er ekki degi eldri en manni finnst maður vera og á þeim forsendum leyfi ég mér oft að vera jafn barnaleg í hegðun og mig langar þá stundina.
Eftir þá stund vikunnar, þegar ég fylli á lyfjaboxið mitt, þarf ég oftast að finna mér e-h barnalegt að gera eða heyra í e-h sem er til í að fíflast, því mér finnst þetta mjög mikil gamalmennastund. Eins reyndi ég að hlægja að því þegar mér, 28 ára gömlu fullorðinsbarni, var synjað um líf- og sjúkdómatryggingu, sökum krabbameins og örorku eftir bílslys. En nú er nóg komið. Í dag fékk ég minn óþægilega grun staðfestan að hér eftir má ég aldrei gefa blóð aftur!
Ég vissi að þeir sem fá krabbamein þurfa a.m.k. að bíða í ár til að mega gefa aftur, en ég má aldrei aftur. 17 sinnum náði ég að gefa blóð áður en minn síðasti söludagur rann upp. Blóðgjafirnar mínar náðu ekki einusinni að verða lögráða.
Ef einhver sem þetta les, er að velta því fyrir sér að tappa sínu gæðablóði í poka, vil ég hvetja þann sama til að láta vaða.
Áður en það verður of seint.

Tuesday, January 17, 2006

Ammmmæli!

Fyrir 26 árum gerðist það!
-Þá kreistist í heiminn lítil óreiða sem hafði lifað það af að fá hettusótt í móðurkviði
-Þessi litla óreiða var skírð í höfuðið á póstkorti
-Hún laug til um kyn fram að fermingaraldri
-Hún keypti ljón á veginum af lettneskum strippara sem flúði svo land
-Hún er með rangt stjörnumerki tattúverað á handlegginn
-Hún leggur sig fram við að ná nokkrum útihátíðum í einu um hverja verslunarmannahelgi
-Hún bjargar mús frá ketti í óveðri en klæðir sig svo í kanínu og lætur sig dreyma um loðhúfu
-Hún má ekki vera nettengd í fyrirlestrum því þá á hún það til að panta sér utanlandsferðir
-Hún hefur forðast slysaskot í Palestínu
-Komið við Grátmúrinn
-Hjólað á bíl í Köben
-Hún er brúnni en andskotinn, samt nær hún að lýsa upp skammdegið

-Til hamingju með daginn elsku Hlésí mín, ég hugsa stíft til þín í dag og finnst endalaust vænt um þig

Wednesday, January 11, 2006

Matta/Matthea

Um daginn vorum við Gulli minn að velta því fyrir okkur hversu ólíkar þær væru; Matta -atvinnulausi mastersneminn í Árósum og Matthea - sérkennarinn í Laugarnesinu.
Matta hékk í tölvunni, spilaði mikið, skemmti sér og fylgdist með öllu því sem gerðist á Íslandi. Matthea hins vegar gæti stundum verið stödd á Grænlandi án þess að vita af því, er alltaf að drífa sig og hefur ekki samband við vini sína dögum saman. Hún þykist hafa nóg að gera alla daga en þegar vel er að gáð kemur í ljós að það er hið mesta kjaftæði!
Ef hún Matthea hefði nóg að gera hefði hún t.d. ekki haft tíma til að:

-halda minningarathöfn með góðum vinum, um Mörtu, vörtuna smörtu sem yfirgaf Héðinn eiganda sinn í jólafríinu
-og sitja með sama hópnum á Eldsmiðjunni í 4 klst og segja vörtubrandara
-ímynda sér að húmor gæti verið staðsettur í vörtum og að kannski væri Marta aðal uppistandarinn í ruslafötu læknisins og tætti af sér brandarana við alla fæðingablettina
-fara á milli Reykjarvíkur og Hveragerðis nokkrum sinnum á dag, rétt eins og aðrir fara á milli herbergja
-grenja sig inn í heimabæ sinn á gamlársdag eftir að lögreglan lokaði fyrir umferð í kjölfar stærstu innanhúss flugeldasýningar landsins
-liggja á snyrtistöfu Kötlu og láta maka glimmeri á "strikið á hálsinum" á sér
-setja á fót kapphlaup milli dansandi hænu og urrandi risaeðlu á ganginum á Álftavatni ásamt spenntum frændsystkinum
-semja smásögur
-sletta úr klaufunum um allan bæ
-horfa á Silvíu Nótt með Þóri og Kidda og væla úr hlátri

-og margt margt fleira

Friday, January 06, 2006

Ég ætla að kjósa...

janúarmánuð sem eitt af undrum veraldar!
Hann hefur einstakt lag á því að tæma mann að innan.
Hann lætur mann beygja sig niður þegar maður labbar framhjá KB banka
Hann lætur vini manns snúa aftur til náms í útlöndum
Hann sýnir manni alla vetrarveðráttu Íslands stax á fyrsta degi
Hann bræðir snjóinn svo maður geti séð allt ruslið eftir flugelda gamlárskvöldsins
Hann byrjar í þynnku
Hann er verkfæri hins illa!

Sá merkilegi atburður átti sér stað í gær að ég fékk símtal sem innihélt ekkert skítugt tal. Ekkert var klæmst (Það útilokar strax Héðinn ;)eða snúið upp í andhverfu sína..bara einfalt, skemmtilegt símtal.
Hinumegin á "línunni" var Torfi minn og erindið var að biðja mig að vekja athygli sem flestra sambekkinga okkar frá Laugarvatni á því að nú er kominn tími til að hittast!
Það verður sem sagt óformlegur hittingur útskriftarárgangsins 97 og þeirra sem þá vilja hitta á:

Ara í Ögri
föstudaginn 27. janúar 2006
ca kl 20.00
Ódýr bjór


Endilega látið þetta berast lömbin mín og svo hittumst við bara í fjörinu á Ara!