Monday, April 30, 2007

Það er komið sumar...

Hæ hó og jibbí jei!!!
Já þótt krækiberið Matthea sé kannski enn í helvíti þýðir það sko ekki að það sé aldrei neitt að gerast!
Á sumardaginn fyrsta komust gullmolarnir mínir í 8. bekk Öskjuhlíðarskóla í fullorðinna manna tölu og játuðu trú sína frammi fyrir guði og mönnum. Stolt ættingja kennara og vina var áþreifanlegt í kirkjunni þennan frábæra dag því allir stóðu sig með sóma :)
Ekki hefur bara ríkt gleði á bænum því fyrir nokkru andaðist Jónas annar, grænn og slímugur lífsförunautur minn sl. eina og hálfa árið. Í bíómyndunum leggjast gæludýr oft nálægt eigendum sínum, horfa stoltum augum á húsbændurna, glaðir með trygglyndið í gegnum tíðina...
En ekki froskurinn minn...ónei
Hann bólgnaði upp á fótunum og þeir urðu svona mygluloðnir og ógeðslegir. Svo flaut hann við vatnsyfirboðið og hreyfði sig hægt og rólega þar til hann stífnaði upp og fór yfir móðuna miklu!
Ég var ekki sein á mér, útbjó líkkistu úr cheeriospakka og svo var brunað austur í Ölfus þar sem uppþornuðum prinsinum mínum var komið undir græna torfu! Gunni og Viktor báru kistuna og grófu holu en ég smeygði tannstönglakrossinum niður í mosann.
Nú er Hrollaugur Bósi einn eftir í búrinu og gerir sér dagamun með því að hleypa öðru hverju umfrymi út um bakið á sér.. af hverju keypti ég mér ekki bara kött á sínum tíma!!

Hún Hlédís mín og Sigrún Ósk koma heim eftir 2 daga (eða næstum bara einn) og það gefur mér ástæðu til að garga svo hátt að undirtekur í blokkinni...Húrra, húrrra, HÚRRAAAAAAA!!!

Bless í bili

Saturday, April 07, 2007

Lífið eftir þrítuginn


Þetta er hin súperhressa (enda á nýjum og öflugri lyfjaskammti) Matthea sem þarna situr á Austur Indíafjelaginu og fær sér vatnssopa með tilþrifum. Matthea er eymingjabloggari. En þrátt fyrir þá staðreynd er hún nokkuð hamingjusöm þar sem veraldlegir hlutir gleðja hana mikið og þegar þessi mynd er tekin er hún stoltur eigandi Ipods og nýrrar stafrænnar myndavélar. Allt sem hægt er að kaupa fyrir peninga kallar fram bros á vörum kjellingarinnar. Hún hefur þó líka gaman af ferðalögum (eins og sönnum fegurðardrottningum sæmir) og hefur því skellt sér upp í bústað um páskana, vestur í Staðarsveit og á skotæfingasvæði suðurlands. Svo þvær hún á milljón í nýtengdu þvottavélinni sinni (takk elsku Gunni minn) og dansar um hreinu stofuna sína (enda á nýjum og öflugri lyfjaskammti eins og áður sagði)...
Já þegar vinir manns yfirgefa mann til framandi landa hefur maður bara um sjálfan sig að tala og það getur verið sorglegt eins og þessi færsla ber vitni um...ENNNN
í dag kemur Helga heim úr Ástralíureisu sinni og svo er Hési minn í Íslandsskreppi á morgun.. og gárungarnir halda því fram að danadrottningarnar Þórir og Kiddi séu jafnvel á klakanum..víííí
Já og takk svooo mikið fyrir öll kommentin sem fleyttu mér og okkur tvibbunum inn í þrítuginn.. fannst vænt um þau !