Monday, October 31, 2005

Útreikningur

Það tekur mig akkúrat sama tíma að ganga frá hurðinni niðri í Kringlunni (rétt hjá lottóinu), inn í ríki, kaupa stóra Gammeldansk, pakka henni inn, fara upp í Pennann og kaupa kort og aftur að hurðinni og það tekur kerrusafnarann í Hagkaup að opna pepsíið sitt og klára það...það sannaðist sko í hádeginu í dag!

Þegar ég verð menntamálaráðherra

ætla ég að setja fram lagafrumvarp þess efnis að allar meðalstressaðar íslenskar stórfjölskyldur ættu að fara saman í sumarbústað a.m.k tvisvar á ári.
Í bústaðnum um helgina var æðislegt. Við spiluðum, fórum í pottinn, lásum, borðuðm, sváfum (aðallega Hlédís samt :), föndruðum, róluðum, hittum Heiðu og fjölsk...
=frábært

...2 dagar í vetrarfrí og þá kemur Hésinn minn á klakann veiiiii!

Wednesday, October 26, 2005

Hápunktur liðinnar helgi

var þegar ég sat sem negld við sjónvarpið á laugardagskvöldið og sá Söndru Kim á Júrovisjónsviðinu í Köben. Vei, ég sannfærðist um að hún hefði ekki dáið í bílslysi eins og ég hafði haldið í mörg ár. Mikið var ég fegin... Je´aime je´aime la vie...!!!

(er það ímyndun í mér eða eru helgarnar hjá mér að verða sorglegri með tímanum?!)

Wednesday, October 19, 2005

Júlía Gúlía Guðjónsdóttir

er afmælisbarn dagsins í dag!
Júlía hefur verið hluti af lífi mínu alveg síðan við klíndum hori á hvora aðra, slefandi með bleyjur. Nú, 28 árum seinna erum við hættar með bleyjur og slefum bara við hátíðleg tækifæri.
Júlía tekur orminn í hælaskóm
Júlía sofnar þegar hún er að kenna barninu sínu að lesa
Júlía ælir þegar hún skiptir um bleyju
Júlía heldur alltaf með andstæðingnum þegar hún er að rífast
Júlía sléttir á sér hárið áður en hún fer að sofa
Júlía var einusinni með vængi og brodda og fannst það töff
Júlía hefur grætt mig oftar úr hlátri en nokkur annar
Júlía hefur læst sig úti á svölum daginn fyrir próf og hangið þar í nokkrar klst.

Júlía, til hamingju með afmælið gullmolinn minn!

Monday, October 17, 2005

Fólk

Eftir að klukkæðið gekk yfir bloggara landsins hef ég verið að velta fyrir mér leyndum hliðum á fólki, eða bara því sem maður pælir ekki í í fari fólks.
Undanfarið hef ég t.d reynt að skoða laumulega -hvort fólk smeygir almennt innkaupapokum upp á úlnliðinn á sér þegar það er að versla, eða hvort það heldur í höldin með krepptum hnefa (hef alltaf smeygt þeim á úlnliðinn...þoli ekki að vera ekki með báðar hendur lausar)
ég hef reynt að hlusta eftir því -hvort fólk hnerri almennt alltaf tvisvar í röð, hvorki meira né minna...og loki alltaf augunum þegar það hnerrar
-hvort fólk gangi rólega út um dyr á almennissalernum (ég er samt ekkert að liggja á gægjum neitt..ekkert perralegt við þessar óformlegu athuganir mínar), eða ryðjist út eins og ég geri því ég á alltaf von á því að læsast inni (einusinni fríkaði ég svo svakalega út því ég var viss um að ég væri læst inni og henti mér á hurðina, var svo byrjuð að klifra upp á klósettið og yfir vegginn þegar mér datt í hug að tékka hvort hurðin opnaðist nokkuð inn...

og ég get alveg sagt að niðurstöður þessara pælinga eru mér ekkert sérstaklega í hag !

Friday, October 07, 2005

Bitur reynsla

hefur kennt mér að þegar ég er bara búin að sofa í 4 klst þá á ég það til að labba á hurðir sem ég held að opnist af sjálfum sér,í opinberum stofnunum... (eru með litlu handfangi sem maður á að toga í en ég sé ekki)...mjög bitur og vandræðaleg reynsla fyrir mig, kannski ekkert sérstaklega fyrir það starfsfólk í íbúðarlánasjóði sem flissaði í barm sér.
Matta gler

Tuesday, October 04, 2005

Hafið þið...

...svo ógeðslegt baðkar í íbúðinni ykkar að þið getið varla hugsað ykkur að stíga ofan í það til að fara í sturtu?
...áveðið að kominn væri tími til að mála baðkarið (eins og síðustu eigendur hafa greinilega gert, án þess að hugsa út í hversu rosa vandræðum þeir væru að koma næstu eigendum í)?
...reynt að kaupa baðkersmálningu í Húsasmiðjunni og verið sagt að það sé ekkert mál, það sé bara mánaðar vinna og með málningunni fylgi videóspóla með leiðbeiningum (mikið að maður þurfi ekki að fara í baðkersmálningaræfingabúðir til Kína í 3 mánuði)?
...ákveðið að kaupa pottamálningu til að mála baðkerið?
...farið inn í málningarvöruverslun og logið ykkur svo í hnút með því að segja að þið ætlið að mála pottinn ykkar því þið eruð svo viss um að það verði valtað yfir ykkur ef þið viðurkennið að þetta er fyrir baðker?
...haft kost á því að kaupa hvíta málningu (sem væri tilvalin inn á mitt baðherbergi) en verið búin að ljúga að þið hafið bara ætlað að bletta sundlaugarbláan pott (til að þurfa ekki að kaupa málningu fyrir 12 manna pott þegar þið eruð aðeins með eitt baðker í huga)?
...gengið út með sundlaugarbláa pottamálningu eftir að sjarmerandi sölumaðurinn hafið ráðlagt ykkur að fá ykkur frekar nýjan sundbol en prófa hvíta málningu á pottinn, ef þið viljið breyta til???

...ekki ég heldur (roðn)