Thursday, June 30, 2005

Saumar fortíðar

Amma mín var stórgóð saumakona í gamla daga og eigum við afkomendurnir fullt af fallegum flíkum sem hún hannaði og saumaði þegar hún var upp á sitt besta. Mikið af þessum fatnaði er farinn að láta á sjá, en enginn tímir að henda honum...
Mamma er algjör barnakerling og hugsar allt út frá börnum (og þá sérstaklega barnabörnunum), hún setur gömul eldhúsáhöld út í kofa, geymir föndurdót í poka og á stóran leikfatakassa sem er í miklu uppáhaldi hjá krökkunum enda er þar að finna hallærislegustu föt allra tíma (og án gríns, af því að mamma geymir ótrúlegustu hluti/föt, þá eru einmitt föt frá öllum tímum í þessum kassa).
Í dag er ég búin að vera að hjálpa mömmu að henda fötum og dóti úr geymslunni og eins og það getur verið leiðinlegt, þá getur það líka verið frábærlega fyndið...í geymslum leynist nefninlega oft tímavél. Ég fann gamlan kassa frá mér, sem var fullur af fötum sem ég hef greinilega viljað geyma, af einhverjum gjörsamlega óskiljanlegum ástæðum, því ég var ekki skærasta peran í seríunni þegar ég gekk í þessum fötum, þveröfugt við það sem ég er í dag ;)
Þegar ég var hálfnuð að henda úr kassanum rakst ég á buxur og bol sem ég hafði saumað í saumatímum fyrir rúmlega 10 árum í ML..ég bjóst smávegis við að mamma myndi klökkna, strúka á mér kinnina og tilkynna hversu stolt hún væri af mér, að ég væri barasta hin fínasta saumakona eins og amma... en nei, aldeilis ekki...mamma skellihló, braut stórvirkin mín saman og kastaði þeim beint í leikfatakassann = of hallærisleg föt, meir að segja til að henda þeim!
Þar fór saumaframtíð mín (en án gríns, hvað var þetta með mig og blómóttar buxur og fjólublátt flauel!!)

Wednesday, June 29, 2005

Ég er ekki

Síðustu dagar hafa einkennst af hinni týpísku sumarstemningu sem samanstendur af litlu öðru en flakki á milli landshluta, upppakki úr töskum og kössum, öls í bænum, útskriftarveislum, Austurvelli, hestaferðum, videóglápi og almennri gleði.

Ég er ekki að fara til Palestínu, eins og Hlédís
Ég er ekki að vinna í bát frá Stykkishólmi, eins og Júlía
Ég er ekki nýútskrifaður lyfjafræðingur, eins og Íris
Ég er ekki nýbúin að kaupa mér 7 manna bíl, eins og Þráinn og Æsa
Ég er ekki að fara á Þjóðhátíð, eins og Arndís og Una
Ég er ekki í sólinni í Árósum eins og Ragnhildur systir og fjölskylda
Ég er ekki á leiðinni til Ítalíu, eins og Sigga systir

En ég get bara ekki hætt að brosa!

Og hlakka alveg rosalega til að fá fjölskyldu mína, Hröbbu, Viktor og Viktoríu heim til Íslands!!!

Wednesday, June 15, 2005

Barnapíuraunir!

Ég hef lært það af biturri reynslu að sturta ekki úr fullum kopp ofan í klósett úr mikilli hæð...og horfa ofan í klósettið á meðan!

Friday, June 10, 2005

Staður: Reykjakot
Persónur: Matthea og árásargjarn þröstur

Matthea, sem við skulum kalla M í sögunni leit upp í loft til að sjá hvort þessi skýjabakki færi ekki að þokast austur svo hún gæti uppfyllt loforð sem hún hafði gefið veikri móður sinni sem var á leið af landi brott. Nú skyldi M planta út nokkrum næpum í lítið beð rétt við fjölskyldugróðurhúsið. Skýjin voru á hreyfingu og allt útlit var fyrir að þetta hæfist hjá hinni síglottandi M sem er svo sæl og ánægð þessa dagana.
Eftir fáein andartök var M orðin skítug upp fyrir haus og raulaði fyrir munni sér á meðan næpurnar fóru ofan í moldina hver af annarri. Undirmeðvitundin hafði skynjað hættuna löngu áður en M kveikti á perunni, en hún hefði svo sem átt að vera á verði þar sem söngur fuglanna hafði breyst í hávært garg. Á einu augabragði steypti einn þrastanna sér niður úr nálægu tré og réðst á saklausa garðyrkjumanninn sem hélt að þrestir létu ekki svona eins og brjálaðar kríur. Fyrst hélt fröken M að þrösturinn hefði kannski bara óvart dottið úr trénu og næstum lent á henni fyrir slysni en svo var nú aldeilis ekki..ónei. Þrösturinn hóf árás með höfuð M að markmiði sem lukkaðist á þann hátt að M hljóp dauðskelfd inn í hús. Hún hringdi í Þ tvíburabróður sinn sem alltaf er með ráð undir rifi hverju..en hann sagði bara: "hún er bara að verja ungana sína, þú átt að virða móðureðlið"...
Ekki var þetta til að róa M sem náði sér í stóran, harðan frumskógarhatt og hélt að nú væru henni allir vegir færir. Þrösturinn hélt árásunum áfram og þar sem M var með fullar hendur af mold, freistaðist hún til að kasta nokkrum moldarkögglum í átt að þrastarmóðurinni (ekki mjög fallegt, en var gert í hræðslukasti) M hitti auðvitað ekki (hins vegar fóru nokkrir moldarkögglar inn í hálsmál M og niðrum það), en þetta var síst til að róa þröstinn...
Skemmst er frá því að segja að niðurröðun næpanna litaðist mjög af þessari árás (hver segir svo sem að allt þurfi að vera línulegt)!

Þessi sama fröken M drap í dag köngurló með þungri símaskrá...vonandi er drápseðlið þar með slokknað í bili!

Monday, June 06, 2005

Það var svo heimilislegt...

...á laugardaginn þegar Gulli og Héðinn slóust um framsætið þegar við rúntuðum ásamt Ásdísi á Hvolsvöll til að hitta Eddu Héðinsmömmu sem bauð upp á kaffi og köku. Líka þegar við hlustuðum á "litlir kassar" og sungum með, vindurinn við Urriðafoss og grillið og rauðvínið á pallinum í Reykjakoti. Ísbíltúrinn, þegar Héðinn hneykslaðist á kvikmyndasmekk vinkonu sinnar fyrir að fíla ekki Voksne mennesker í botn. Þegar krem og sjampóflóran hennar Hlédísar var komin í hillur, þegar við Ásdís og Gulli skoðuðum frosna fiska á sjómannadaginn, þegar Hlédís og Þórir hringdu frá Köben um miðja nótt eða snemma morguns (já þið voruð hress gullin mín) en heimilislegast af öllu var að ganga langleiðina heim á Laugarnesveginn eftir djammið með Ásdísi sem var klædd í vettlinga yfir berar tásur, með kaldar franskar í poka og sítrónutopp og fá engann leigubíl í skítakulda...

Beima er hest!