Thursday, January 20, 2005

Á dimmu desemberkvöldi...

...nánar tiltekið 23. desember 2001, keyrði ég bíl móður minnar vestur á land, með Arndísi frábæru frænku mér við hlið. Ástæðan var sú að ég þurfti að koma lifandi jólagjöf til þriggja ára frænku minnar sem býr á sveitabæ fyrir vestan.
Í aftursæti bílsins var stór krukka, sandur, postulínsbátur, plasttré og dæla. Þegar við vorum rétt ókomnar á leiðarenda, blöstu við mér kunnugleg blá, blikkandi ljós...aaarg, hugsaði ég, ekki aaaftur...! Bensínfóturinn hafði sigið eftir því sem nær dró takmarkinu og ég varð spenntari að hitta litlu frænku og fjölskylduna alla. Löggan gekk að glugganum mín megin og sá mig þar sitja arga á svipinn, en þó með jólaskapsívafi (því erfitt er að þurrka alveg út jólasvip jólabarns eins og mér, á Þorláksmessu), og Arndísi í framsætinu með stóran plastpoka, fullan af vatni með 2 gullfiskum í, öðrum svörtum og hinum hvítum og appelsínugulum. Þegar lögreglan var nýbúin að láta mig skrifa undir plagg, sem hafði af mér 7500 kr, og ég var lögð aftur af stað, hringdi síminn. Það var Gísli mágur minn sem vildi bara vara mig við löggunni sem væri að mæla bíla við tiltekinn bæ...(REALLY).
Þegar ég hafði gefið gullmolanum mínum gullfiskana, fengu þeir hin frumlegu nöfn Bátur (í höfuðið á bátnum í glerkúlunni) og Kolla (var með svartan blett á kollinum). Þeir áttu eftir að gleðja marga, sérstaklega lítil sveitabörn sem vildu halda á þeim eins og litlum hvolpum.
Ég var fjarverandi þegar Bátur lést, var sennilega í Reykjavík að kenna og gat ekki heldur verið viðstödd útför hans. Nú eru liðin rúmlega 3 ár síðan kvöldið góða þegar ég kom með fiskana og ég var heldur betur viðstödd dauða Kollu.
Það hófst fyrir 3 dögum. Hún lá á bakinu og tálknin gengu upp og niður. Ég rauk inn í eldhús og sagði Gísla tíðindin á ensku, voða hrædd um að fréttin um dauðastríðið kæmi illa við viðkvæm börn. Eftir langa íhugsun settist ég svo niður með (nú tæplega) 7 ára frænku minni og 2 ára frænda og sagði þeim með alvöru í svip og með grátklökkum rómi að nú væri Kolla okkar að deyja og fara til himna. Björk litla leit á mig eins og ég væri sú sem ekkert veit og sagði "nú æ æ, en hún deyr ekki alveg fyrr en eftir 3 daga, Bátur lá líka svona öfugur áður en hann dó", svo snéri hún sér að öðrum hlutum. Jökull litli hló bara og benti á öfugan fiskinn, enda ekki nema eðlilegt að hann skilji ekki alvöru málsins.
Þrem dögum seinna (sem sagt í dag) dó Kolla. Ég fékk það í gegn að hún Kolla okkar fengi sómasamlega útför (minnug gamalla daga, þegar Pétur, litla hornsílið hans Þráins bróður dó, þá var hann settur í stóra 2.l mjólkurfernu og svo fór fram löng útför úti í garði þar sem við jarðsungum hann bæði, smíðuðum krossa og fórum með bænir).
Nú skreyttum við Björk spilastokk úr plasti með glimmerlitum, skrifuðum fæðingardag (svona ca allavega) og dánardag Kollu og lögðum hana svo í bómull. Ég fékk mig ekki til þess að reyna að loka augunum á líkinu, en við signdum yfir kistunni og skelltum henni svo í frystinn!..ekki heppilegasti árstíminn fyrir greftranir.
Þetta atvik kenndi mér, að börn í sveit líta á dauðan sem mun sjálfsagðari hluta lífsins en þau sem þekkja hann lítið og hræðast hann.

Tuesday, January 18, 2005

Listaspíra

Það hreinlega spíra listarnir á þessari síðu minni og ég er löngu búin að missa tökin á þessu öllu saman...
Eftir síðustu lista komu nokkrir fuglar til mín og hvísluðu að mér að nokkrir Íslendingar í Danmörku væru ósáttir við fjarveru sína á listunum...þetta verð ég að taka til athugunar, sérstaklega í ljósi þess að þessir sömu Íslendingar hafa bjargað lífi mínu oft og iðulega á síðustu önn.
Ég hef grun um að dvölin í Árhúsum hafi komið lítið við sögu á upprifjun minni á toppum síðasta árs, því ég þræl-tapaði gleðinni á löngu tímabili (eða fór í mjög langa fýlu, eins og Skúli Hröbbupabbi myndi sennilega segja :)
Ég átti líka yndislega tíma og langar að gera lista (surprise) til heiðurs öllu því frábæra fólki sem var í því að kasta til mín björgunarhringjum í útlandinu (..eða í sumum tilfellum hreinlega lánaði mér hús, bíl og jafnvel barn ef því var að skipta!)
Það var gaman þegar:
-Hrabba skoraði úrslitamarkið á síðustu sek. í mikilvægum leik og allt ætlaði um koll að keyra
-þegar Viktor kom sem frelsandi engill í Bubba byggir buxunum sínum og náði í mig, týnda í e-h símaklefa, kveikti upp í arninum og spilaði og söng
-þegar við Diljá ætluðum með orðabækurnar upp á slysó (það var allavega gaman eftir á..)
-í matarboðinu hjá Möttu og Stulla
-í Diskódjamminu hennar Hröbbu
-í Kaos pilot partýjum alla önnina
-í saumaklúbbum okkar Diljáar og Frímanns á Englinum
-við Viktoría Dís sungum á leiðinni í leikskólann
-í matarboðum, spilakvöldum, snúðabakstri og spjalli hjá Hröbbu og Viktori
-og margt margt fleira...

Monday, January 17, 2005

Afmælisbarn dagsins...

...er hin óviðjafnanlega frænka mín, Hlédís Sveinsdóttir (stundum kölluð Fésí, Hlésí, Hlé..).
Hún er ein af mínum lang uppáhalds persónum í lífinu. Hún er svakalega fyndin, hugsar nánast aldrei áður en hún framkvæmir, gerir allt sem aðrir roðna við að hugsa um að gera, miklar ekkert fyrir sér (nema þá helst að eiga við skítableijur, en það stendur til bóta)og svo myndi ég nefna hérna hversu ótrúlega stolt ég er af árangri hennar í skólanum (fyrir þá sem ekki vita er kellan á Bifröst) ef það væri ekki farið að vera hálf vandræðalegt hversu margir hafa stráfallið í stafi yfir einkunnum hennar.
Við Hlédís höfum brallað mjög margt saman í gegnum tíðina og er 70 mín. tíminn í mesta uppáhaldi hjá mér. Þá var þetta yndi að vinna á hárgreiðslustofu rétt hjá mér, kom alltaf til mín eftir vinnu, við borðuðum saman (oft take away frá Vegamótum)láum svo í sitt hvorum sófanum og grenjuðum úr hlátri yfir 70 mín. Svo sofnuðum við báðar sem varð til þess að við vorum andvaka um nóttina og þreyttar daginn eftir í vinnunni. Brot af því besta, en af nógu er að taka
Hlésí mín hefur m.a.
-gert fyrir mig skattaskýrslu um miðja nótt, daginn fyrir skilin
-aldrei lagt löglega
-aldrei borgað í göngin (svo ég viti allavega)
-fengið fullorðinsbleiju á Landsspítalanum fyrir gjörning sem enn hefur ekki verið framinn
-spreyjað ilmvatni á reykmettaða menn á djamminu
-fleygt sparigogg skipstjóra síns langt út á ballarhaf
-haldið á mús í annarri og kött í hinni á nærjunum einum fata í rafmagnslausu húsi úti í sveit
-náð að hjóla niður þrekhjól í spinningtíma
-fengið lánaðar nærbuxur hjá móðursystur sinni
-lýst upp myrkrið í Árósum, alla leið frá Íslandi

Hlédís, ég elska þig

Wednesday, January 12, 2005

Toppar

Æ það getur verið svo leiðinlegt til lengdar að lesa blogg í punktaformi, öllu má nú ofgera og ég er svo sannarlega að verða búin að klára þetta form hér á síðunni minni. En þar sem ég er með eindæmum áhrifagjörn og hef séð svona "uppgjör 2004" á nokkrum bloggsíðum, er ég að spá í að láta hugann reika og finna mér topp 10 lista frá árinu sem nú er liðið og kemur (vonandi) aldrei aftur! Svo er þetta líka ágætis leið þegar lítið er að blogga um eins og hjá mér síðustu daga. Gæti náttúrulega sagt ykkur frá því þegar ég gróf snjóhús með sex ára frænku minni, var miklu ákafari en hún og var komin góða leið til Ástralíu þegar mér var litið á hana þar sem hún lá í snjónum við hliðina á mér, horfði upp í stjörnurnar og sussaði á mig því hún heyrði svo miklu betur í stjörnunum þegar hún lægi svona aftur og hefði alveg hljóð. Ég get líka sagt ykkur frá því þegar ég stillti "Nínu og Geira" í botn tók 2 ára Jökul í fangið og dansaði með hann um húsið þangað til ég steig á legokall sem lá á gólfinu og datt næstum. Svo áðan þegar við fórum að skoða hvolpana litlu og sáum þá að kanínurnar voru allar sloppnar út og ég fór að elta eina, hljóp um alla hlöðu fulla af heyi, gargandi á kanínu sem var ekkert á því að stoppa. Eða þegar ég baðaði "börnin mín", bakaði, fléttaði hárið á Björk, sofnaði út frá Stubbunum...neeeei, þá viljum við heldur topp 10 listana..er það ekki?

10 gott 2004
-þegar ég, með dúndrandi hjartslátt, opnaði bréfið sem staðfesti skólavist mína í Danmörku
-þegar ég kom heim um jólin og fann með hverri frumu líkamans að "heima er best"
-þegar ég fékk heimsóknir frá Íslandi til Danmerkur
-þegar ég lá í grasi í Reykjadal með góðum vinum og sötraði kakó eftir notalegt bað í heita læknum
-ferðin í Gyllta turninn með Héðni...skríkir og digurbarkaleg öskur
-kveðjustundin með nemendum mínum í Engjaskóla
-óvænta afmælisveislan fyrir Þráinn í Vík
-Hvammsvíkurferðin
-bjór og heiti potturinn á Lýsuhóli
-Austurvöllur á laugardögum í allt sumar

10 slæmt 2004
-þegar ég keyrði tvisvar á sama tjaldsungann
-einmanaleikinn
-dagurinn sem ég rak mig á þá staðreynd að ég ber sjálf ábyrgð á líðan minni
-þegar Ásdís fór
-fyrsti skóladagurinn
-þegar ég sólbrann frá helvíti í ljósum í Árósum
-þegar jólabjórinn kom og ég drakk hann allan
-þegar uppáhalds gallabuxurnar mínar sungu sitt síðasta
-þegar ég kvaddi Björk
-þegar ég áttaði mig á því að ég ætti ekki lengur bíl

10 fyndið 2004
-Stína frænka
-þegar Katla 3 ára sagði við ömmu sína að ég væri ekki fullorðin...meira svona "fullorðið barn"
-þegar Hlédís bað um fullorðinsbleiju á Landsspítalanum
-þegar við Héðinn tókum hristumyndirnar í Tívolíinu
-Áramótaskaupið
-þegar við Hlédís og Stína móðursystir, stóðum í skærbleikum bikiníum og stórrósóttum sundbolum í ísköldum kvennaklefa og sturtuðum í okkur bjór áður en við fórum út í laug
-þegar ég reyndi að drepa flugu í sturtu á Laugarnesveginum og rann til í baðkarinu...
-Hlédís
-þegar snjókallinn sem ég fékk einusinni að gjöf frá nemanda, hætti ekkert að spila leiðinlegt jólalag, þó ég væri búin að trampa á honum og henda honum nokkra metra niður í ruslageymslu
-Júlía Gúlía

Monday, January 10, 2005

2005

Jæja lömbin mín! Þar sem ég hef ekki bloggað síðan í fyrra er sennilega tími til kominn að ég gefi frá mér lífsmark. Þegar þetta er skrifað er ég í sveitinni hjá Ragnhildi syss, í 5. skiptið á mánuði og hef hugsað mér að vera hér eins lengi og ég get. Eins og við var að búast getur (og hefur) margt gerst á mánuði í jólafríi námsmanns og því ætla ég að punkta niður það allra helsta. Sumt var skemmtilegt, annað síðra og sumt sennilega alveg gleymt og grafið.

Í Vík voru:
-jólaljós
-vodkatollur
-matarveisla
-hattar
-rosalega skemmtilegt fólk
-kossar og knús
-sumir sem ég hef ekki hitt lengi
-söngur
-sleifar
-alka seltzer
Jólin:
-m&p, Þráinn, Æsa og Katla Þöll
-tap á rauðvínsflösku í spilakeppni við fjölskylduna
-tók ég (af hálf illri nauðsyn) ástfóstri við náttföt sem ég á
-fékk ég dvd spilara, bleika 8 cm háa hæla, skartgripi, myndir, geisladiska og margt fleira
-snæddi ég matvæli sem gætu mett meðal stóran ættbálk í Afríku
-táraðist ég yfir afleiðingum flóðbylgjunnar
-las ég 5 spennusögur og ýtti skólabókunum enn lengra undir skrifborðið með tánni í leiðinni
-fylltist ég brjálæðislegri hamingju og leið alveg rosalega vel
-fengum við Hlédís fullorðinsbleyju á Lansanum til að nota í jólakortamyndir og ég keypti glimmervængi í sama tilgangi
-sendi ég ekki eitt einasta jólakort því ég er enn að bíða eftir að komast í myndatökuna
Áramótin:
-fyrstu án fjölskyldunnar
-bústaður í Gnúpverjahreppi með Ásdísi, Hlédísi, Héðni, Þóri og Gulla
-ýttum við Hlédís og Þórir bíl upp flughála brekku í brjáluðu veðri (tókst ekki)
-hoppuðum við inn í nýja árið og ég óskaði mér (sama óskin og sl 3 áramót...virðist ekkert vera að rætast)
-hljóp ég á sundbolnum í kringum húsið með Þóri og Gulla og öskraði "komi þeir sem koma vilja, fari þeir sem fara vilja, veri þeir sem vera vilja, mér og mínum að meinalausu"...enginn álfur né huldumaður lét sjá sig eftir það!
-flaug lítill fugl fram hjá heitum potti í Gnúpverjahreppi og er hann einn til frásagnar um það sem þar gerðist!
-hló ég að áramótaskaupinu
-snæddi ég frábæran mat með frábærum vinum
Eftir jól:
-hitti Þórhildi Warringtonbúa, sem er að flytja til Ástralíu
-fór ég í göngutúr með Ásdísi í mannhæðar snjó en var þreyttari í málbeininu en fótunum þegar ég kom heim nokkrum klst seinna
-sá Í takt við tímann og hló
-skrapaði ég Dillí mína upp á Vegamótum og við tjösluðum saman sjálfsvirðingu hennar með einu handtaki
-fór ég á fullorðinsball á Sögu (ekki gerst síðan ég var gemlingur,að reyna að vera fullorðin)
-hef ég heyrt stelpu neita að dansa við strák á þeim forsendum að hún hafi ekki vogað sér að dansa síðan eiginmaður hennar lést á dansgólfinu forðum daga...
-kviðið jafn mikið fyrir því og ég hlakka til að fara út í byrjun feb.
...og margt margt fleira!