Sunday, October 31, 2004

Breyttir tímar

Nú eru breyttir tímar í orðsins fyllstu. Í nótt fórum við aftur um klukkutíma svo nú erum við bara klukkutíma á undan Íslandi. Eitt af fáu sem nú er ófrágengið eru ættleiðingarskjölin mín svo ég geti formlega verið fjölskyldumeðlimur hér hjá Hröbbu minni, Viktori og Viktoríu. Ég er sem sagt búin að vera hér meira en heima hjá mér síðustu daga. Í gær skelltu hjúin sér á tónleika og við Dísin pössuðum hvora aðra á meðan. Í dag fórum við Viktoría á leikvelli í nágrenninu, í rosa góðu veðri, sungum okkur hásar og átum ís. Nú er Viktor að kveikja upp í arninum og húsmóðirin í eldhúsinu. Stulli er að koma í mat til "okkar" (ég er næstum hætt að vera gestur hér...;) og allir í góðum fíling.
Tölvan mín er ennþá lömuð, í endurhæfingu á Íslandi, svo koma Dísirnar mínar og Hési um helgina....veiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiii

Friday, October 29, 2004

Hrun/uppbygging

Allt að gerast.
Mamma er farin :( eftir að hafa verið mér stoð og stytta í viku, Ég er flutt, tölvan mín er alveg hrunin..svo blogg verða ennþá færri næstu daga, gestir :) næstu helgi, skóli, lítill zzzvefn...., handboltaleikir, söfn, strætóar, rigning, snúðar og spilakeppni (vá mörg s í því sem ég hef gert undanfarið...) Hrun hafa verið áberandi undanfarna viku en nú er komið að uppbyggingu.

Saturday, October 23, 2004

Laugardagur til lukku

Nú er laugardagur og það er ekkert nema gott um það að segja. Mamma kom til mín á fimmtudagskvöldið og ætlar að dvelja hjá örverpinu sínu fram á föstudag. Enn sem komið erum við í svítunni þeirra Hröbbu og Viktors, svo förum við heim til mín og ef hlutirnir fara eins og allt stefnir, þá nær hún móðir mín að hjálpa mér að flytja og gista á þriðja staðnum þessa rúmu viku sem hún verður hérna! Já, best að vera ekkert að festa rætur neins staðar, viss um að ég finni grænna gras...!

Hildur Kristín Sveinsdóttir...íþróttakennari, sjúkraþjálfari og annálaður gullmoli útskrifast frá HÍ í dag. Ef ég væri fugl, myndi ég fljúga til hennar með rauðvínsglas á bakinu og skála, en verð víst að láta nægja að hugsa fallega til þín, elsku Hildur mín og það geri ég hér með.

Vilborg Magnúsdóttir....sálfræðipía og lögreglumaður nr. 1 útskrifast frá HÍ í dag. Ég sé fram á að ekki sé nóg að hugsa bara til ykkar stelpur mínar, fjandinn hafi það...ég er farin að kaupa mér flösku!!
Knús elskurnar

Tuesday, October 19, 2004

Afmælisbarn dagsins...

...er krúsídúllurúsínugríslingssellerírótin mín hún Júlía Gúlía Guðjónsdóttir!
Júlía þessi er ekki aðeins merkileg fyrir þær sakir að vera frá Hveragerði (eins og ég), kennari (eins og ég), dekurrófa (eins og ég), hafa ekkert peningavit (eins og ég) og vera maður...eins og ég (konur eru líka menn!) heldur er hún 27 ára (eins og ég)...nóg um mig, Júlía til hamingju með afmælið elskan mín, þú ert 27 ára...nú er þetta búið!!!
Hipp hipp húrrei, hipp hipp húrreii, hipp hipp húrreiiiiiiii.........

Mér finnst vænt um þig og ætla að minnast þín í 2 mínútur af hverjum klukkutíma, í dag!

Monday, October 18, 2004

Í Danmörku...

-rignir núna
-er ég búin að fara á fleiri handboltaleiki á mánuði en á heilu ári heima á Íslandi
-reykja allir allsstaðar
-afmannblendnaðist ég
-tala ég miklu miklu minna en á Íslandi
-horfi ég meira í kringum mig og spái í fólki
-stóð ég mig að því að hafa gaman að 10 ára gömlum strandvarðaþætti
-fer maður inn í strætóana að aftan og út að framan
-svindla næstum allir sér í strætó
-en ekki ég, því stundum kemur vörður og mér finnst alltaf að allir inni í strætónum getað verið verðir
-fór ég í mat til Tinnu minnar í Horsens og átti frábæra kvöldstund
-hef ég lært að meta tveggja daga gamalt morgunblað
-keypti ég grænan skrímsla bangsa með rana og hala handa ársgömlu barni
-er ég núna að passa húsið Hröbbu minnar og Viktors
-hef ég spreytt mig á fleiri gestaþrautum en allt mitt líf á Íslandi
-tapaði ég í backomon fyrir Hjalta
-drekk ég alls ekki jafn mikinn bjór og við var að búast
-hef ég oft næstum orðið fyrir hjóli
-býr Héðinn
-sem er ekki búinn að blogga lengi
-er ég myrkfælnari en heima
-sendi ég mitt fyrsta sms á dönsku
-en hef ekki ennþá fengið svar

-er ég og get ekki annað :)

Tuesday, October 12, 2004

Að ætla að sjarmera sjálfa sig...

...er mjög skrýtið. Það reyndi ég samt í gær.
Fólk er alltaf að tala um að það sé svo mikilvægt að finna sjálft sig og það sé hvergi betra en í útlöndum. Fólk lærir sín mörk, reynir á öll þolmörk sín og gengur yfirleitt lengra en það mundi gera í sínu venjulega umhverfi. Alltaf að takast á við nýja hluti, læra á því og stækka "þægindahringinn". Ég er að ganga í gegnum þessa sjálfsskoðun og komst að því eftir frekar stuttan tíma að mér líkar ekkert sérstaklega vel við sjálfa mig. Mér finnst ég gefast allt of fljótt upp, kem mér undan því óþægilega og á erfitt með að koma mér í gang...svona mætti lengi telja.
Ég ákvað því í gær að sættast við sjálfa mig og eiga þægilega sáttarstund með sjálfri mér. Ég eldaði góðan mat, settist inn í borðstofu, kveikti á kerti og lagði fallega á borð. Þetta var sáttarfundur Mattheu og Möttu sem hefði átt að eiga sér stað miklu fyrr. Ég var alveg tilbúin í að sjarmera sjálfa mig... það sem ég lærði hinsvegar á þessari stuttu stund með sjálfri mér, var að ég alls ekki tilbúin að gefa sjálfri mér jafn mikinn tíma og ég hef handa öðrum, því fyrr en varði, var ég komin í tölvuna, sendandi sms og lesandi blað og hundsaði sjálfa mig eins mikið og ég gat!
Þar hafiði það!

-Fréttir vikunnar eru þær að ég sé ekki fram á að getað klárað ritgerðina fyrir settan tíma, enda tekur mig laaangan tíma að lesa allar þessar dönsku bækur!
-Ég er búin að taka við Karl Jensen sem ætlar að hitta mig í vikunni og redda mér vinnu með unglingum hér í Århus!
-Mamma kemur eftir nokkra daga...veiiii
-Mamma er samt veik heima núna með lungnabólgu :(
-Helgi frændi á afmæli í dag...til hamingju ezkan mín
-Pabbi kemur heim úr golfferð á Spáni í dag
-Ég ætla að flytja í byrjun nóvember, hvert veit ég ekki
-Arndís og Hlédís eru að plana Danmerkurferð í nóvember...veiiii
-Tinna ætlar að kíkja á okkur Hröbbu í kvöld, hún býr í Horsens
-Ég ætla með Frímanni í bíó í vikunni
-Köngulær í Danmörku líta út eins og risa-hrossaflugur

Kveð að sinni!

Saturday, October 09, 2004

Home alone

Já, nú er sambýlismaður minn farinn heim til Íslands og hugðist ég hafa það notalegt, svona ein í kotinu. Ég fór fram í eldhús, hitaði mér kakó og smeygði mér svo í náttföt. Talaði við syss í símann en skyndilega stirðnaði ég... skelfingin speglaðist í augunum á mér þegar ég horfði á Satan, holdi klæddan með átta mjóa og loðna fætur á veggnum fyrir ofan mig. KÖNGURLÓ! Þar sem ég er ein heima reyndi á allar taugar þegar ég teygði mig í amerískt tímarit sem lá upprúllað í körfu í herberginu mínu til að senda þetta verkfæri djöfulsins (köngurlóna) til forfeðra sinna. Ég gladdist innra með mér þegar ég dúndraði tímaritinu í áttina að óskapnaðinum, því ég efaðist ekki um að ég myndi hitta. En það var nú aldeilis ekki, ég rétt náði að dangla í síðuna á óargardýrinu og svo hvarf það. Ég leitaði og leitaði að helv... köngurlónni en fann hana ekki, svo þegar þetta er skrifað hef ég á tilfinningunni að hún sé að skríða alls staðar á mér....stefnir allt í svefnlausa nótt. (hrollur)

Afmælisbarn dagsins...

...er hin yndislega, góða, fallega, skemmtilega, gáfaða og uppáhalds systir mín, Ragnhildur Sigurðardóttir. Þessi stórmerkilega stelpa; umhverfisfræðingurinn, lektorinn, náttúruverndarsinninn, tveggja barna móðirin, herstöðvarandstæðingurinn, húmoristinn, allaballinn, gleðigjafinn og máttarstólpinn er hvorki meira né minna en 32 ára í dag!
Til hamingju elsku besta syssin mín.
Og nú hrópa ég svo undir tekur í herberginu mínu...hipp hipp Húrreiii, hipp hipp Húrreiii, hipp hipp Húrreiiiii....

Öskubuska

Kirkjuklukkurnar í Dómkirkjunni hringja alltaf á heila tímanum og óma um bæinn...ég hugsa alltaf til Ásdísar sem finnst alltaf eins og hún þurfi að flýta sér heim þegar hún heyrir í klukkunum, eins og Öskubuska... sem hlýtur að þýða að henni líði eins og prinsessu alla daga :)

Fínt að frétta frá mér. Er búin að sitja sveitt á skrifstofunni minni uppi í skóla og ritgerðin mjakast..
Frímann bauð mér í mat í gær. Eldaði sjálfur þessi elska, frábær matur með frábærum strák. Við fórum svo á danssýningu þar sem við hittum Evu og Höllu, en dansararnir vinna með Höllu (sem er líka dansari hér í Århus fyrir þá sem ekki vita). Danssýningin var mjög skemmtileg. Hluti af menningarhelgi sem nú stendur yfir. Stelpurnar dönsuðu sama dansverkið eftir fiðluleik og rokktónlist. Fyrsta danssýningin sem ég sé sem fer ekki eftir tónlist, heldur bara áfram þegar tónlistin hættir og dansinn breytist ekkert eftir breyttri tónlist!
Svo fórum við Frímann, Halla og allir dansararnir á kaffihús. Einn dansaranna (sænsk) kunni nokkur orð á íslensku: "Hvar er klóstið?" "Hvað segirðu gott" og "Bara fínt". Hún bjó með íslenskum dansara einusinni og alltaf þegar sú hringdi heim spurði hún "Hvað segirðu gott"...svo kom þögn í símanum og svo svaraði hún "Bara fínt", þannig lærði þessi sænska íslenskuna. Hún er alveg heilluð af tungumálinu okkar og finnst alltaf eins og við séum frá fornöld þegar við tölum saman.
Við fórum svo í partý hjá vinum Frímanns í KaosPilot. Það var rosalega skemmtilegt. Allir fóru strax að tala saman á ensku þegar ég kom svo ég myndi nú örugglega skilja allt, meir að segja þegar ég fór fram í stofu, héldu samræðurnar í eldhúsinu áfram á ensku...enginn má vera útundan. Umræðurnar í partýinu snérust aðallega um það hversu langt maður ætti að ganga í gestrisni þegar maður fengi vini frá útlöndum í heimsókn, hversu miklu breytir maður sínu lífsmynstri, er skemmtilegra fyrir vininn að sjá "Gullfoss og Geysi" en að sjá hvernig lífi þú raunverulega lifir, ferð í vinnu og sinnir þínum málum..!
Partýið fluttist svo yfir í arkitektarskólann. Áður en við fórum tóku strákarnir catwalk á ganginum, mis vel klæddir og gjörningar voru framdir. Casper fór alveg með það þegar hann gekk inn ganginn með handklæði um mittið og glas í hendinni. Hann settist í stól við enda gangsins, hellti vatninu úr glasinu yfir hausinn á sér og henti glasinu svo aftur fyrir sig. Snéri sér svo við, henti handklæðinu yfir vatnspollinn og dillaði svo rassinum inn ganginn tilbaka! Gjörningur mánaðarins.
Í arkitektarskólanum var elephant fest, sem felst í því að arkitektarnemar drekka elephantbjór frá kl. 15 og fram eftir nóttu. Uppblásnir fílar voru um allt, barir á öllum hæðum og mis drukkið fólk upp um alla veggi. Þetta var rosalega gaman. Ég sá nú ekki framtíðar eiginmann minn í þessum hópi en þetta var skemmtilegt þrátt fyrir það!
Í dag hitti ég Jónínu frænku, Grétar Odd og Christine. Það var rosalega gaman. Grétar og Christine sóttu mig og við hittum Jónínu, Halldísi og Jónínu yngri. Svo fórum við í bíó. Við sáum danska mynd sem heitir "Bræður" rosalega umhugsunarverð mynd með dönskum stórleikurum. Svo fórum við út að borða og svo keyrðu þau mig heim. Til að kóróna svo daginn hringdi Arndís yndislega í mig, svo ég sofna með brosið hringinn.

Monday, October 04, 2004

Það þarf svo sterk bein til að vera ég...

Nú er ég að verða búin að sitja hálfan daginn fyrir framan tölvuna, reyna að finna greinar í ritgerðina mína, tala við fullt af fallegu fólki á msn og svara pósti. Anders kíkti hérna inn áðan til að athuga hvort ekki væri allt í lagi því að ég hef varla hreyft mig síðan ég vaknaði.
Í gær kíkti ég á Diljá í Vesturgötusvítuna í videógláp og almenna afslöppun og svo til Hröbbu og Viktors, þar sem ég rústaði þeim hjónum í undankeppni heimsmeistarakeppninnar í tveggjamannakapli. Hrabba húsmóðir bakaði svo syndsamlega góða snúða og Viktor kveikti upp í arninum (með bros á vör ;) Svo horfðum við á David Blaine og spjölluðum saman, það er rosalega erfitt að gleyma sér í sjálfsvorkunn þegar maður hefur þessi frábæru hjón...nei, Viktor ég er ekki að reyna við þig þó ég sé að hrósa ykkur :) Viktor endaði svo frábært kvöld með því að troða skeið upp í nefið á sér og sökkva tveggjakrónupening inn í hendina á sér og út um tána!
Ég fór í rosalegt Kaos pilot partý á laugardaginn þar sem töluð var við mig japanska, ég var máluð í framan með rauðum og bláum strikum og tók þátt í karókí...já yndin mín, þið lásuð rétt, ég tók þátt í karókí. Ég söng ásamt Diljá, Martinu, Peter og Höllu, Girls just wanna have fun... ég ætla ekki að segja frá viðtökum áheyrenda!
Á föstudaginn fékk ég svo að vera viðhengi í læknanemapartýinu "Læknumst 2004". Rosa gaman.
Frétti áðan að þegar Ína og Grímur voru að fara heim úr því partýi hafi þau komið að alelda húsi og brotið upp hurðina og alles. Maðurinn sem var inni í húsinu var víst fluttur meðvitundarlaus til Köben og Grímur fékk brunasár á hendina...þau voru í blöðunum í gær, ekki skrítið að ég frétti þetta í dag, ekki sú sleipasta í dönskunni.
Annars er ég farin að kaupa dönsk dagblöð og les allt sem ég get, þó ég skilji ekki allt. Er hætt í dönsku Andrésblöðunum og bifast nú við að komast á næsta stig.
Bæjó í bili þó...