Saturday, July 23, 2005

Það er ekki...

...langt síðan að við Hlédís fórum í miðnæturgöngutúr í Laugardalinn í rigningunni sem þá var. Þegar við vorum hálfnaðar blasti við okkur hvít hæna sem hafði skorðað sig þægilega á skörðóttu grindverki (skuggalega nálægt Húsdýragarðinum). Ef ég hefði verið með einhverjum öðrum á göngu hefðum við sennilega skríkt, bent á hænuna og haldið áfram en Hlésin mín vildi taka hana með heim! Fannst akkúrat pláss fyrir hana í baðkerinu og þar ætti hún að eiga heima eftir að hún hefði farið með okkur í 10-11 og valið sér eitthvað að borða. Þegar hún (Hlédís, ekki hænan) hafði bagsað að við að taka fiðurféð af grindverkinu, lögðum við af stað...en tveimur bitum og einu fugladriti síðar, ákvað Hlé að sleppa hænunni, sem snaraðist aftur upp á skörðótta grindverkið og kom sér þar vel fyrir.
Þessi stutta raunveruleikasaga hafði það hlutverk hér á blogginu mínu að lesendur sæju að ég er ekkert mikið að skipta mér af ókunnugum dýrum (algjörlega öfugt við Hlés mína sem tekur allavega kvikindi upp í bíla, setur í vasa eða bara undir hendina). Eftir að hafa bisað við það sem smákrakki, að losa kattarkvikindi sem hafði sökkt klónum í lærið á mér, var ég læknuð af "best-að-klappa-annarra-manna-dýrum" forvitninni.
Nú er ég í sveitinni hjá Ragnhildi syss og fjölskyldu að hjálpa til við heyskap. Þetta er alls ekki í fyrsta skiptið sem ég dett inn á þessum árstíma til að sína "snilli" mína á rakstrarvélinni, en nú er ég öll að koma til í sb við annarra manna dýr!
Ég þori að klappa nýfæddu andarungunum þó að mamma þeirra hvæsi á mig og reyni að bíta mig, ég þori að halda á kanínunni sem er búin að vera villt síðan hún slapp út fyrir mörgum mánuðum og ég þori alveg fleiru (ehehe..man ekki meira sem ég þori :)

Annars líður mér vel, veit að margir eru búnir að hugsa til mín og senda góða strauma, ég finn þá elzkurnar mínar og læt vita þegar eitthvað meira kemur í ljós...hugsum líka til Fésíar okkar sem laug sinn inn í Palestínu sem læknir til að geta gengið til nálægra þorpa með lyf...get ekki beðið eftir að fá hana heim.

Wednesday, July 06, 2005

Hildur og Gummi

í dag fjölgaði í prinsessuhópi þessa lands þegar Hildur og Gummi komu einni slíkri í heiminn á meðan meginþorri landsmanna sat við skjáinn og fylgdist með þeim fréttum sem Hésinn okkar reynir daglega að troða inn í hausinn á okkur (vá löng setning).
Til hamingju með dúlluna ezkurnar, get ekki beðið eftir að sjá hana.

Í framhaldi af sauma/leikfatakassa blogginu mínu um daginn get ég upplýst það að nú hýsir leikfatakassi mömmu minnar líka alla árshátíðarkjólana sem ég var í á menntaskólaárunum...hvað var ég eiginlega að hugsa á þeim tíma...hélt ég virkilega að ég væri fín!!!
(þetta var ekki spurning og krefst því ekki svars, er pínku hrædd um að einhverjum takist að opna augu mín fyrir hallærisleika fortíðarinnar).

Monday, July 04, 2005

Litli prinsinn...

...þeirra Bryndísar og Sævars fæddist í dag! Til hamingju elskurnar, ég hlakka mikið til að knús´ann og kyssa...og ykkur líka.

Ég fór í afmæli til Kötlu Þallar bróðurdóttur minnar í gær. Hún varð fjögurra ára og hafði planað afmælið sitt í heilt ár. Það var gaman að horfa á litla krakka hlaupa út um allt og klína sig út í kökum, það var gaman að sjá Þrásann minn í pabbahlutverkinu, reynandi að hafa stjórn á skaranum og það var enn skemmtilegra að heyra Þráinn spyrja einn lítinn 4 ára hvort hann hefði skrifað á afmæliskortið sjálfur..og sjá svo svipinn á honum þegar stráksi sagði að mamma sín hefði gert það!

Ragnhildur systir mín bjó í Bólivíu fyrir 15 árum. Hluta af því ári sem hún dvaldi úti, bjó hún hjá bandarískri nunnu sem hafði snúið við blaðinu eftir 40 ár í nunnuklaustri og gifst á gamalsaldri. Nú er þessi aldargamla nunna komin frá Bólivíu til að heimsækja Ragnhildi og fjölskyldu. Ég keyrði með sysss út á flugvöll til að sækja þessa stórmerkilegu konu á laugardagsnóttina og komst að því að manneskja sem hefur dvalið í klaustri í 40 ár og þar af leiðandi þagað nær allan þann tíma, hefur þörf fyrir að tala...og það gerði hún svo sannarlega! Eigum við lesendur góðir, þeir sem þekkja mig eitthvað, ekki bara að segja að þarna hafi skrattinn (nunnan) hitt ömmu sína (mig)...

Ég er búin að bæta við einum link á snillinginn hana Guðnýju Jónu mína sem er að læra læknisfræði í Århus. Ég hef ætlað að linka á hana lengi, les hana reglulega og hef virkilega gaman að. Hvet ykkur til að kíkja hér til hliðar og kynnast þessum gullmola.

Þeir sem hafa gaman að stafavíxli geta samglaðst með Hésanum mínum sem finnst ekkert fyndnara en að víxla stöfum og hápunktur Parísarferðar okkar í vor var þegar hann fattaði að segja Bigursoginn í staðin fyrir Sigurboginn...nú hefur þessi frábæri húmoristi glaðst undarfarna daga eftir að hann fattaði orðið Sundahöfn!!!