Tuesday, January 31, 2006

Hér er bara ekki neitt...

voru orð læknis sem skoðaði mig í gær. Ef hann hefði verið að skoða svæði aðeins ofar en raunin var, hefði þetta verið einstaklega dónaleg athugasemd. En þar sem hann rúllaði ómtækinu fram og aftur um hálsinn á mér, voru þetta bara góðar fréttir. Að vísu átti ég í vandræðum með að skilja hann í fyrstu því hann blandaði saman íslensku og dönsku í eina orðasúpu (og eins og flestir sem mig þekkja vita, gerði ég flest annað en læra dönsku þetta ár mitt úti). Ég reyndi að útskýra fyrir honum að það væri nú ekkert skrítið að ekkert væri þarna því kirtillinn hefði allur verið fjarlægður í ágúst... eftir japl jamm og fuður urðum við sammála um að skilja ekkert sérstaklega vel hvort annað en ég komst þó að því að með þessum orðum ætti hann við að engar krabbameinsfrumur væru sjáanlegar í eitlunum eða annarsstaðar og það væru góðar fréttir. Nú get ég haldið áfram að drepa mig á gjálífi og ólifnaði ;)
Enda fór ég beint og fékk mér ís!

Reunion helgarinnar var mjög skemmtilegt. Með blóðflæðið á fullri ferð eftir spennandi handboltaleik (og nokkra bjóra) renndum við ömmurnar á Ara þar sem einhverjir úr klíkunni höfðu hreiðrað um sig, nokkur borgfirðingafífl, fjármálaráðherra ofl. og fjörið hélt áfram...og áfram.

Tveir linkar á línuna:
Jónas minn sem einusinni var litli frændi, en er nú bara frændi (enda löngu orðinn stærri en ég). Hann neitar að læra af Möttu frænku sinni sem telur ekki við hæfi ættarinnar að stunda nám í Danaveldi eftir að hafa ræktað þar barnið í sér (og reyndar æxli í leiðinni). Hann er nú lærlingur í Köben, hefur gaman að jarðfræði, fótbolta og naglalakki (bleiku); á það til að semja hálfar sögur, senda þær á frænkur sínar (mig) sem orðnar eru spenntar, en klára aldrei seinni hlutann!

Íris mín sem er ennþá litla frænka og sýnir ekki mikla tilburði að stækka mikið meir. Hún er einn stærsti dvergur íslands...nei nei, hún er lyfjafræðingur, sérfræðingur í samlokusamfaradansi, á diskókúlu og lykil af íbúðinni minni sem hún notar aldrei ;) Einnig lumar hún á einni Viagra fyrir mögru árin.

Jónas og Íris, velkomin á kantinn!

Thursday, January 26, 2006

Langar til að deila því...

...með þessari heimsálfu a.m.k. að í dag er frelsari fæddur, allavega prins. Í Ástralíu, fæddi Þórhildur mín strák í gær, en samt eiginlega í dag því hann fæddist 26. jan. Ástralía er bara svo á undan skohh.
Ég er ó svo stolt af stelpunni minni :)

Svo er ég komin á nýjan bíl og það er alveg að koma helgi! Vei

Thursday, January 19, 2006

Síðasti söludagur

á mjólk er áætlaður nokkra daga fram í tímann..kannski svona viku, nema á fjörmjólk sem endist víst aðeins skemur en léttmjólkin.
Þetta er mikilvægt að vita, því það eitt er víst að gamalt verður úrelt og þá má henda því fyrir nýtt.
Menn falla ekki á síðasta söludag af sömu ástæðu og það er dónalegt að benda á gamalt fólk, hvað þá fólk með hækju eða göngugrind. Síðasti söludagur þeirra rann út fyrir löngu og allir vita það en enginn sýnir það samt (nema kannski hjúkrunarheimilin).
Ég stend og fell með þeirri skoðun minni að maður er ekki degi eldri en manni finnst maður vera og á þeim forsendum leyfi ég mér oft að vera jafn barnaleg í hegðun og mig langar þá stundina.
Eftir þá stund vikunnar, þegar ég fylli á lyfjaboxið mitt, þarf ég oftast að finna mér e-h barnalegt að gera eða heyra í e-h sem er til í að fíflast, því mér finnst þetta mjög mikil gamalmennastund. Eins reyndi ég að hlægja að því þegar mér, 28 ára gömlu fullorðinsbarni, var synjað um líf- og sjúkdómatryggingu, sökum krabbameins og örorku eftir bílslys. En nú er nóg komið. Í dag fékk ég minn óþægilega grun staðfestan að hér eftir má ég aldrei gefa blóð aftur!
Ég vissi að þeir sem fá krabbamein þurfa a.m.k. að bíða í ár til að mega gefa aftur, en ég má aldrei aftur. 17 sinnum náði ég að gefa blóð áður en minn síðasti söludagur rann upp. Blóðgjafirnar mínar náðu ekki einusinni að verða lögráða.
Ef einhver sem þetta les, er að velta því fyrir sér að tappa sínu gæðablóði í poka, vil ég hvetja þann sama til að láta vaða.
Áður en það verður of seint.

Tuesday, January 17, 2006

Ammmmæli!

Fyrir 26 árum gerðist það!
-Þá kreistist í heiminn lítil óreiða sem hafði lifað það af að fá hettusótt í móðurkviði
-Þessi litla óreiða var skírð í höfuðið á póstkorti
-Hún laug til um kyn fram að fermingaraldri
-Hún keypti ljón á veginum af lettneskum strippara sem flúði svo land
-Hún er með rangt stjörnumerki tattúverað á handlegginn
-Hún leggur sig fram við að ná nokkrum útihátíðum í einu um hverja verslunarmannahelgi
-Hún bjargar mús frá ketti í óveðri en klæðir sig svo í kanínu og lætur sig dreyma um loðhúfu
-Hún má ekki vera nettengd í fyrirlestrum því þá á hún það til að panta sér utanlandsferðir
-Hún hefur forðast slysaskot í Palestínu
-Komið við Grátmúrinn
-Hjólað á bíl í Köben
-Hún er brúnni en andskotinn, samt nær hún að lýsa upp skammdegið

-Til hamingju með daginn elsku Hlésí mín, ég hugsa stíft til þín í dag og finnst endalaust vænt um þig

Wednesday, January 11, 2006

Matta/Matthea

Um daginn vorum við Gulli minn að velta því fyrir okkur hversu ólíkar þær væru; Matta -atvinnulausi mastersneminn í Árósum og Matthea - sérkennarinn í Laugarnesinu.
Matta hékk í tölvunni, spilaði mikið, skemmti sér og fylgdist með öllu því sem gerðist á Íslandi. Matthea hins vegar gæti stundum verið stödd á Grænlandi án þess að vita af því, er alltaf að drífa sig og hefur ekki samband við vini sína dögum saman. Hún þykist hafa nóg að gera alla daga en þegar vel er að gáð kemur í ljós að það er hið mesta kjaftæði!
Ef hún Matthea hefði nóg að gera hefði hún t.d. ekki haft tíma til að:

-halda minningarathöfn með góðum vinum, um Mörtu, vörtuna smörtu sem yfirgaf Héðinn eiganda sinn í jólafríinu
-og sitja með sama hópnum á Eldsmiðjunni í 4 klst og segja vörtubrandara
-ímynda sér að húmor gæti verið staðsettur í vörtum og að kannski væri Marta aðal uppistandarinn í ruslafötu læknisins og tætti af sér brandarana við alla fæðingablettina
-fara á milli Reykjarvíkur og Hveragerðis nokkrum sinnum á dag, rétt eins og aðrir fara á milli herbergja
-grenja sig inn í heimabæ sinn á gamlársdag eftir að lögreglan lokaði fyrir umferð í kjölfar stærstu innanhúss flugeldasýningar landsins
-liggja á snyrtistöfu Kötlu og láta maka glimmeri á "strikið á hálsinum" á sér
-setja á fót kapphlaup milli dansandi hænu og urrandi risaeðlu á ganginum á Álftavatni ásamt spenntum frændsystkinum
-semja smásögur
-sletta úr klaufunum um allan bæ
-horfa á Silvíu Nótt með Þóri og Kidda og væla úr hlátri

-og margt margt fleira

Friday, January 06, 2006

Ég ætla að kjósa...

janúarmánuð sem eitt af undrum veraldar!
Hann hefur einstakt lag á því að tæma mann að innan.
Hann lætur mann beygja sig niður þegar maður labbar framhjá KB banka
Hann lætur vini manns snúa aftur til náms í útlöndum
Hann sýnir manni alla vetrarveðráttu Íslands stax á fyrsta degi
Hann bræðir snjóinn svo maður geti séð allt ruslið eftir flugelda gamlárskvöldsins
Hann byrjar í þynnku
Hann er verkfæri hins illa!

Sá merkilegi atburður átti sér stað í gær að ég fékk símtal sem innihélt ekkert skítugt tal. Ekkert var klæmst (Það útilokar strax Héðinn ;)eða snúið upp í andhverfu sína..bara einfalt, skemmtilegt símtal.
Hinumegin á "línunni" var Torfi minn og erindið var að biðja mig að vekja athygli sem flestra sambekkinga okkar frá Laugarvatni á því að nú er kominn tími til að hittast!
Það verður sem sagt óformlegur hittingur útskriftarárgangsins 97 og þeirra sem þá vilja hitta á:

Ara í Ögri
föstudaginn 27. janúar 2006
ca kl 20.00
Ódýr bjór


Endilega látið þetta berast lömbin mín og svo hittumst við bara í fjörinu á Ara!