Tuesday, July 29, 2008

Grímur Gunnarsson

Síðan ég bloggaði síðast hefur nýr fjölskyldumeðlimur bæst í hópinn. Hefur honum verið ætlað það hlutverk að veiða mýs og brosa og vera sætur þess á milli. Hans framtíðarheimili er á Grímslæk og hlaut hann því hið frumlega nafn, Grímur!
Þó hann sé ekki mikið eldri en mjólkin í ísskápnum mínum, hefur honum alveg tekist að gera hundafríkið mig, að kattakonu.
Hann er æði!!!
Eftir matarboð í vesturbænum í kvöld, rúntuðum við Gunni að Gróttu. Rómantíska kattakonan, ég, átti von á samræðum um ástina, lífið og tilveruna; að minn kæri myndi halla sér að mér og hafa orð á því hversu vel ég passaði við hið magnaða sólarlag... Þegar við vorum sest á stein við sjóinn og ég fann að á þessari stundu fengi ég svar við spurningunni um tilgang lífsins, opnaði Gunnsi skoltin og ruddi út úr sér þessar mjöög svo órómantísku setningu: "Í dag, þegar ég var í golfi, gleypti ég flugu, hún festist í hálsinum á mér og stakk mig!"
Ooog í þeim töluðu orðum var Bára komin í bleyti og mæjónesan orðin gul ;)
Rómantíkurbaninn Gunni

Monday, July 21, 2008

Sambúð A og B

Manneskja A, sem við skulum kalla Möttu, er veik. Henni er illt í haus og maga og líkamshitinn er í hærra lagi.
Manneskja B, sem við dulnefnum nú Gunnar, honum til verndar, kemur alla leið frá Selfossi til að stjana við manneskju A. Hann færir henni grillaðan kjúkling, leyfir henni að vinna í spili og googlar fjöldan allan af fyndnum videóklippum af netinu, liggur við hlið A með tölvuna í fanginu og leyfir henni að hlæja hátt uppí eyrað á sér. Allt saman í þeim tilgangi að láta manneskju A líða örlítið betur. Sem henni gerði líka.
Rétt fyrir svefninn ákveður manneskja B að hugsa sér mann. Manneskja A sem er keppnis, gat giskað á Whoopi Goldberg, Samuel L. Jackson, Fidel Castro og Sylvester Stallone þegar kemur að síðasta leiknum, enda A og B að verða ansi þreytt. Manneskja A byrjar að giska, ákveðin í að nú skuli hún massa leikinn og svífa svo inn í draumalandið, ánægð með gott dagsverk ;)
Nema, eftir gisk, heilabrot og hárreytingar fram á nótt og loks uppgjöf, kom í ljós að manneskja bévítans B, hafði hugsað sér Vaclav Havel fyrrverandi forseta Tékklands!!!!!!
Manneskja A vonar að ef hún þarf að æla í nótt, muni eitthvað slettast óvart á manneskju B!

Brúðkaup ofl.

Á laugardaginn brunuðum við Gunni á Blönduós í brúðkaup hjá Guðnýju og Begga.



Gunni tunglfangari
Daginn eftir var kíkt í Litladal og skroppið í veiði

...og svo á Hvammstanga, míns gamla "heimabæjar", þökk sé afmælisbarninu og Ástralíukrúttinu mínu, Þórhildi

Sunday, July 20, 2008

Gæsun Evu Daggar

Á föstudaginn var Evan okkar tekin á beinið, fyrir það eitt að vera að fara að giftast. Myndirnar tala sínu máli...





Monday, July 14, 2008

Spegill sálarinnar???

Stundum furða ég mig á þeirri kaldhæðni alföðursins að hafa ekki séð til þess að ég, fyrir 31 ári, kæmist ekki lengra í þróunarsögu lífsins, en beint í lakið í svefnherbergi foreldra minna...

Nokkrar manneskjur (ég segi nokkrar af því að það hljómar betur en "mamma og pabbi") hafa á ævi minni sagt að þeim finnist ég fullkomin. Þótt ég hafi nú ekki sannfærst, þótti mér notalegt að heyra þetta en það er eins og lífið hafi gert það að markmiði sínu að sanna að þessar manneskjur hafi rangt fyrir sér!
Það er óvinnandi verk að fara að telja upp alla galla mína hér á þessu bloggi, en langar mig þó að deila með ykkur nýjasta kvilla Mattheu.
Þegar bílar eru ekki að keyra á mig, eða krabbamein að læðast aftan að mér, fæ ég hrottalegt ofnæmi. Ekki bara fyrir frjókornum, heldur útbrot og kláða um allan líkamann vegna ódýrs þvottaefnis. Innkirtlar hafa verið fjarlægðir einn af öðrum og munnvatnskirtlar stíflast svo annars lýtalaust andlit mitt fær á sig lögun rassgats.
Margir sem ekki þekkja harðjaxlinn Smattheu, halda að ég sé svo viðkvæmt blóm að ekki megi tala um styrkingu Nasdaq vísitölunnar án þess að ég felli tár. Einnig hafa heilög tár fossað af mínum hvarmi á óheppilegum stundum eins og foreldraviðtölum ofl. Allt þetta án þess að sálin verði þess vör.
Já, í dag fékk ég sem sagt læknisfræðilega skýringu á daglegu táraflóði mínu.
Líklega hefur önnur geislajoðmeðferð mín, ef ekki báðar, séð til þess að þurrka upp slímhúð mína á þann hátt að meðan aðrir geta starað í 15 sek. án þess að blikka, get ég í mesta lagi 6 sek.! Þetta er mikilvæg staðreynd sem þið vissuð ekki um mig en vitið nú. Hah!
Ég er með eilífðar x-leyfi á allar störukeppnir héðan í frá.
Þar sem þetta er ólæknandi en mögulega hægt að slá á þetta með gervitárum og augndropum hvers konar, þarf ég viðbyggingu á lyfjaboxið mitt, spes fyrir augnsvæði hinnar annars fullkomnu Mattheu.
Til að klekkja út vonlausa stöðu mína í baráttunni við þurrkubletti augnanna bað læknirinn mig að vera nú duglega að blikka...hratt, oft og miiikið til að halda augunum rökum!
Akkúrat það sem vantaði upp á flekklaust útlit mitt og framkomu.
Einmitt!!!!!

Wednesday, July 09, 2008

Ellismellur

Eins og mig grunaði eru allir hættir að kíkja hingað inn á þessa löngu dauðu síðu mína, svo mér ætti að vera óhætt að setja inn reynslusögu sem átti sér stað í gær.
Við Helga skelltum okkur í göngutúr í gær (soldið kellingalegt). Þegar við vorum búnar að labba einn hring í kringum Rauðavatn, ákváðum við að fara annan (soldið kellingalegt, enda ekki hægt að afsaka sig með því að langa til að sjá útsýnið í seinna skiptið, meira svona tilraun til björgunarhringjaeyðingu!). Þegar við vorum í miðjum umræðum um fjármál heimilanna (soldið kellingalegt), sáum við lítinn strák sem var að reyna að hjóla með mömmu sinni. Við brostum til hans (soldið kellingalegt) og tókum frammúr þeim. Þá skall það á okkur...þessi barnalega, heiðarlega og opinskáa spurning litla stráksins sem hann kallaði út í kyrrt loftið "Eruð þið leikskólastjórar??"(Hrrrriiiiiikalega kellingalegt)
Úffffff

Tuesday, July 08, 2008

Ljúfa líf, ljúfa líf....

Mínir kæru foreldrar voru 6-tugir á árinu og af því tilefni buðu þau börnum, tengdabörnum og barnabörnum í sumarhús í Hollandi í tvær vikur...óóó svo gaman :)

Frábært veður og Katla Þöll sá um að bera sólarvörn á liðið
Í sól og sumaryl
En svo kólnaði með kvöldinu...
Mæðgurnar Æsa og Katla Þöll
One big happy family..!
Við Gunni skelltum okkur með 3/4 hluta ungviðisins til Belgíu í hjólatúr
Já, þetta gátum við!
SkrímslaJökull og PrinsessuBjörk
Ég, Þráinn, Björk, Æsa og Gunni skelltum okkur í smá þrautabraut. Hér eru Æsa og Gunni að komast lifandi á leiðarenda
Addý Mára tjillaði á meðan
Bestu vinirnir "Dunni" og Addý
Svo var að sjálsögðu brunað í tívolí, okkur krökkunum til mikillar gleði
Spenningurinn leynir sér ekki...
...hjá ungum jafnt sem öldnum
Svo rann upp dagurinn sem allir höfðu beðið eftir; Katla Þöll Þráinsdóttir 7 ára!!!
Til að halda nú partýinu gangandi eftir að til Íslands var komið, skelltum við Hlédís okkur á landsmót hestamanna til liðs við Arndísi, Ása, Ölmu ofl.
Það var náttúrulega bara tær snilld, hriihiikalega gaman