Wednesday, November 13, 2013

Hamingjan er hér

Sem liður í tilraun minni til að faðma heiminn og fá útrás fyrir allt þakklætið og gleðina sem fyllir mig núna, koma hér nokkur orð: Þar sem síðasta færsla endaði í tilvonandi og æsispennandi nokkurra klukkustunda legu í skanna er rétt að byrja þar sem hún endaði. Í skannann fór ég. Búin að byrgja mig upp af hljóðbókum sem þið, gersemarnar mínar, voruð búin að útvega mér og hóf ég ferlið með því að velja mér eina álitlega... Brynhjarta eftir Jo Nesbo. Ef ég myndi einhverntímann nota toppstykkið til að hugsa, hefði ég kannski áttað mig á því að ég hefði ekki getað valið mér óheppilegri bók, áður en ég lagðist og lét óla mig niður í skannann sem var staðsettur fáa sentimetra frá trýninu á mér og niðrá tær. Lýsing: Brynhjarta er það ástand þegar manneskja er grafin undir svo miklu fargi að álagið á brjóstkassann er slíkt að hún nær ekki andanum. Með brynhjarta er hægt að lifa í fjórar mínútur. Á móti mér tók brosandi geislafræðingur sem iðaði af spenningi að segja mér frá þeim góðu fréttum að bilaði armurinn á skannanum væri dottinn inn. Við gáfum hvor annarri fæv og drifum okkur í verkið. Það er skemmst frá því að segja að þessa tæpu 4 klst sem ég lá í skannanum var armurinn að detta út og inn og reglulega tilkynnti samherji minn mér stöðu mála. Þetta var farið að minna á þegar Samúel Örn Erlingsson datt inn og út af alþingi eina kosningavökuna... "Nú er hann inni...ahhh, nei nú er hann dottinn út!" Þetta hafðist þó allt á endandum og í gær fékk ég gleðisímtal frá lækninum um að engar sjáanlegar frumur væru að gera sig líklegar til að mynda fleiri æxli og því taldi hann ekki ástæðu til að senda mig í geislajoð. :) Ég finn hvernig ég nálgast jörðina á ný og því ætti þeim ykkar sem hringduð í mig í gær að vera óhætt að gera það aftur við tækifæri, ég lofa að skríkja ekki á ykkur aftur ;)!

Wednesday, November 06, 2013

The Neverending Story

Mér er tjáð að þarna úti sé fólk að hugsa til mín og þykir mér vænt um það. Takk, þið vitið hver þið eruð ;) Aðgerðin er búin og tókst vel að sögn lækna. Ég er öll að koma til, saumarnir farnir og krúttlegt ör búið að bætast í safnið. Þessa dagana er ég í rannsóknum (og lítilli meðferð) sem miða að því að hjálpa læknum að meta hvort ég þurfi í áframhaldandi meðferð og af þeim sökum hef ég verið eins og grár köttur á hinum fjársvelta Landspítala undanfarið. Það er óþarfi að tíunda ástandið í heilbrigðiskerfinu hér á hálfdauðu bloggi á alnetinu, við ættum öll að vera meðvituð um stöðuna en mér tekst samt alltaf að verða jafn hissa þegar ég rekst á veggi í þessu ferli mínu. Ég vissi að von var á lyfjum fyrir mig að utan og beið og beið (og beið) eftir símtali. Þegar það kom ekki eins og til stóð, hringdi ég í lækninn, fór sjálf á stúfana og náði í lyfið og labbaði mér upp á krabbameinsdeild til að finna einhvern til að sprauta því í mig. Heilbriðgisstarfsfólk er allt að vilja gert og því var það nokkuð auðsótt mál en þegar búið var að blanda lyfið kom að því að finna stað á deildinni til að komast afsíðis og fá sprautuna. Þrátt fyrir mikla leit fannst ekki autt skúmaskot í næði, svo blóðrjóður hjúkrunarfræðingurinn benti mér á að fylgja sér inn á skrifstofu læknis sem var í óða önn að senda tölvupóst og tala í símann. Hann gaf bendingu um að honum væri sama þó við kæmum okkur fyrir þarna hjá honum og þannig atvikaðist það að ég girti niður um mig brækurnar og fékk hjúkku til að sprauta mig í rassinn inni á skrifstofu hjá grunlausum lækni! Aftur sat ég andspænis blóðrjóðum heilbrigðisstarfsmanni í dag sem sagði að annar armurinn á skannanum sem ég fer í á föstudaginn væri bilaður og af þeim sökum tekur helmingi lengri tíma að skanna mig en annars. Ég má búast við svona 5-6 klst. þar sem ég er óluð niður og hálfbilaður skanni sér um verkið. Slæmu fréttirnar eru þær að ég má ekkert hreyfa mig á meðan. Góðu fréttirnar eru þær að ég má hlusta á hljóðbók, svo nú leita ég til ykkar um hugmyndir af góðum hljóðbókum fyrir föstudaginn og/eða hvar sé hægt að nálgast þær.... Að þessu sögðu langar mig koma þeim skilaboðum áleiðis til frúarinnar í Hamborg að ég veit sko alveg hvað ég myndi gera við peningana sem hún gæfi mér! -Lifi Landspítalinn- P.s. Eins og sjá má kann ég ekki ennþá á Enter-takkann á þessu bloggi.