Tuesday, February 28, 2006

Þessir dagar!

Er eðlilegt
að standa í sakleysi sínu í röð í 10-11 þegar róni ryðst inn, plantar sér í beint fyrir aftan mann og þegar maður lítur við, þá andarvarpar hann af "fullum" krafti beint framan í mann!

Nei!

er þá eðlilegt
að hrökkva upp við að e-h ýti það fast á dyrabjölluna að hún festist inni (kemur fyrir þessa dagana) og þegar maður hleypur niður og ætlar að fixa helvítis bjölluna, þá kemur í ljós að þar stendur sami róninn og heldur að maður reki gistiheimili!

Nei!

Hvað er þá eðlileg við að maður bjóðist til að fletta upp á títtnefndu gistiheimili fyrir rónann og kalla svo götuheitið niður af svölunum því þrátt fyrir rónann í sjálfum sér, er maður soldið hræddur við róna almennt...!

Guði sér lof fyrir Hlés mína sem stóð sem einfættur klettur við hlið frænku sinnar í rónaraununum!

Friday, February 24, 2006

Hver okkar á mest bágt...

...ég eða húsaflugurnar tvær og hrossaflugan sem liggja þurrsteiktar í loftljósinu í svefnherberginu mínu.
Jákvætt við þeirra aðstöðu: Þær enduðu líf sitt í sviðsljósinu og kalla á athygli augna minna þegar ég rýni upp í loftið= töff lík
Jákvætt við mína aðstöðu: Ekkert
Neikvætt við þeirra aðstöðu: Þær eru dauðar
Neikvætt við mína aðstöðu: Ég þarf að ná í stól, teygja mig eins langt og ég get, hugsanlega fara úr lið við það, skrúfa ljósið eða toga í það...ég man það aldrei og pirrast gífulega á þessu stigi ferlisins, sturta úr ljóskúplinum í ruslið (eða jafnvel í froskabúrið;), fara aftur til baka, aftur upp á stólinn, teygja mig og reyna að muna hvort helvítis ljósið sé skrúfað eða smeygt!

Það þarf ó svo sterk bein stundum til að vera hún Matthea

Thursday, February 23, 2006

Hrollaugur Bósi og Jónas (í hvalnum) II

Ég gekk (ekki þó í hægðum mínum) á hlaupabretti í Laugum í gærkveldi og velti því fyrir mér hvort strákurinn við hliðina á mér vissi af því að hann gargaði og tók fyrir andlit sér þegar Chelsea stóð sig ekki gegn Barcelona á skjánum fyrir framan hann. Ég var að spá í hvort ég ætti að flissa inní mér að honum þegar ég áttaði mig á því að sjálf var ég svo niðursokkin í skautadansinn á næstu rás, að ég var alvarlega farin að velta því fyrir mér hvort skautadansmeyjarnar lentu aldrei í því að vera akkúrat á túr á stórmótum. Kjólarnir bjóða ekki beint upp á það að fela dömubindi eða spotta af túrtappa...og það hlýtur að vera óþægilegt að klóra sér í eyranum með tánni á fullri ferð á skautasvelli ef maður (kona) er með álfabikarinn.
Ég veit alveg að það er hægt að stjórna blæðingunum með pillunni..en sumar eru svo ungar, sem veltir upp annari pælingu, hvort þær fari á pilluna bara til að vera ekki á túr á stórmótum.
Æ ég hætti allavega hlaupunum (labbinu) áður en ég komst að niðurstöðu!

Jónas minn vann froskanafnasamkeppnina með nöfnunum Hrollaugur Bósi og Jónas II (sem er prins í álögum). Albínóinn er sjálfskipaður Hrollaugur, er hrollvekjandi og býr í laug.
Takk þið öll yndin mín fyrir tillögurnar, þær voru allar góðar og aldrei að vita nema ég fái mér fleiri dýr (ekki samt áður en ég kaupi mér flugmiða Héðinn) og leiti þá í nafnabankann :)

Tuesday, February 21, 2006

Loksins gerðist það

að barnaskapur minn og peningaráð færu illa með mig. Ekki svo að skilja að þetta sé í fyrsta skiptið, en núna birtist geðveikin í formi tveggja froska (annar er albínói). Ég skrapp í gullfiskabúð fyrir helgi og gekk út hálftíma seinna með fangið fullt af froskadóti ásamt prinsunum mínum sem settir voru í poka. Þeir þykjast alltaf vera dauðir þegar ég tala við þá (surprise!) en stökkva svo á mig þegar ég skipti um vatn...sem endar með því að íbúðin og ég erum á floti!
Ef einhver kann skemmtilegt froskanafn, þigg ég allar hugmyndir (Héðinn það er bannað að segja Flus eða Húnbogi!)

-og hvernig stendur á því að síðasta færslan mín datt út!
Arg

Tuesday, February 14, 2006

Fiskur á reiðhjóli

Oddný Sturludóttir, samfylkingarkona hlaut verðlaun fyrir að ferðast allra sinna ferða á hjóli. Ekki voru allir á eitt sáttir með réttmæti þeirra verðlauna þar sem hún býr í Þingholtunum og kostningaskrifstofa hennar er á Laugarvegi.
Það sýður á einum góðum vini mínum sem þeysir um á gráa fiðringnum sínum um allt og býr hann í Hlíðunum!!
Hann fær umhverfisverðlaun mánaðarins hjá vinkonu sinni, Mattheu. Til hamingju Frímann minn!
Kveðjuathöfn saumaklúbbsins Sleiks var haldin á Ítalíu í gærkveld. Dillý okkar tyllti niður tánni hér á landinu á leið sinni frá Danmörku til San Fran. Á meðan við skáluðum fyrir "afmælislíkamshluta" Diljáar, var brotist inn hjá mömmu hans Frímanns...ljótterðað!
Þorrablót helgarinnar var með eindæmum skemmtilegt. Öll systkini mín voru samankomin á blótinu, Ragnhildur, Þrási, Hlés og Arndís, Æsa og svo auðvitað Gísli bílstjóri.
Sumir tóku með sér svið heim á leið, aðrir stálu jakka!
Bara gaman að því!

Thursday, February 09, 2006

Arg

Einhverntímann hefði ég flissað eins og smástelpa ef einhver hefði sagt að mér ætti eftir að klæja í einn kalkkirtilinn minn!
Fram að þessu hefur mér fundist eins líklegt að hægt væri að klægja í kalkkirtil eins og að blikka með brisinu en nú er þetta því miður orðin staðreynd.
Ófullkomleiki minn felst meðal annars í því að einn af mínum fjórum kalkkirtlum er saumaður í vöðva eftir skurðaðgerð og ekkert meira með það neitt. Fyrr en á síðustu dögum þá líður mér eins og þessi títtnefndi kalkkirtill sé að fá uppreisn æru, eftir langa þögn. Aaaarg, það er ekki eins auðvelt að klóra sér í kalkkirtlinum eins og eyranu!

Vilborg afmælisbarn, til hamingju!

Wednesday, February 08, 2006

Fyrir 28 árum

fæddist í þennan heim lítil vera sem átti síðar átti eftir að vera þekkt innan vinahóps síns sem "Florence Nightingale". Hún á það til að; gera hlé á djammi sínu um miðja nótt og hoppa upp í sjúkrabíla sem ná í slasaða á skemmtistaði borgarinnar, dýfa hendi sinni ofan í vaska sem stíflast hafa af magainnihaldi vina sinna, kaupa sér flugför til hinnar og þessar heimsálfunnar í stundarbrjálæði, hughreysta vini sína þegar illa gengur (og vel), klifra yfir klósettveggi...einnig í þágu vina sinna, ofl ofl..
Helga mín, til hamingju með afmælið!!!

Monday, February 06, 2006

Gulli getur...

...stokkið upp eina hæð í hverju skrefi.
Á þessa staðreynd rak ég mig á föstudagsnóttina þegar ég var nýkomin heim og búin að hreiðra um mig í stofusófanum með ís (já nú eru allir dagar ísdagar). Það var dinglað (og bjallan festist inni eins og vanalega). Ég gekk fram, viss um að þetta væri Arndísin mín sem hefði gefist upp á djamminu eins og ég (jább, eins og ég þekkti hana frænku mína ekki neitt!). Ég ýtti á takkann á dyrasímanum og opnaði svo hurðina á íbúðinni minni. Bjóst við að sjá glitta í dökkan koll á leið upp stigann, en í staðin stóð dökkklæddur Gulli beint fyrir framan dyrnar...
Það má segja að ég hafi alveg misst kúlið, andlitið og hjartsláttinn á því andartaki, og úr fagurmótuðum raddböndum mínum spratt út hást öskur, sjitt hvað mér brá...
Langaði bara að deila því með ykkur elzkurnar, hversu ó svo hættulegu lífi ég lifi!!