Sunday, February 27, 2005

Óskarinn!

Nú er óskarsverðlaunahátíðin í sjónvarpinu og ég er að horfa á hana á meðan ég blogga (...þess má geta að ég er líka hrútur og því mjög keppnis... og ég ÆTLA að vinna næstu bloggkeppni, enn meiri ögrun þegar talvan mín er biluð)

Nördar

Við Diljá erum svo miklir nördar... Sitjum hérna í stofunni hjá Hröbbu og Viktori, með sitt hvora tölvuna í fanginu, bloggum og skiptumst á að láta hina vita þegar blogginu er publishað svo hún geti lesið... Þess má geta að Diljá er í fallsætinu í bloggkeppni Hröbbu og Eivorar og nú ætlar hún að sýna klærnar!!

Til hamingju með afmælið á föstudaginn Unan mín!

Í stofunni hjá fósturforeldrum mínum sit ég nú og blogga eftir frábært spilakvöld með famelíunni og flóttamanninum Diljá. Rosa gaman og gott að vera komin aftur heim til Hröbbu minnar og Viktors. Hrabba er aðal gellan í sjónvarpinu og blöðunum hérna, enda átti hún góðan leik á laugardaginn þrátt fyrir tap :(
Í síðustu færslu nefndi ég að við Kiddi ætluðum að mála bæinn bleikan... við máluðum hann, ójá, alveg eldrauðan og höfðum gaman að. Um næstu helgi verð ég í Köben og þá er aldrei að vita nema við skellum okkur á djammið þar í borg einnig.
Diljá fær íbúðina sína aftur á morgun því hálfnakta hurðarhúnaírananum verður hent út um hádegið og læsingunum skipt út.
Ég held bara áfram að stelast í annarra manna tölvur þegar ég vil blogga, mín er ekkert að skána.
Una átti afmæli á föstudaginn..til hamingju ezkan.

Saturday, February 26, 2005

Af tölvum, tónleikum, flóttamönnum, Kidda ofl...

Kæru hálsarnir mínir, stórir og smáir. Nú er langt um liðið síðan síðasta blogg leit dagsins ljós og það er sko ástæða fyrir því. Sú ástæða er Nýherji..eða þeas sá eða þeir starfsmenn sem hafa blóðmjólkað mig við að þykjast gera við tölvuna mína. Ég hélt að þegar ég náði í tölvuna í viðgerð í þriðja sinn á nokkrum mánuðum, væri hún loksins komin í lag og hætt að stríða mér. Það var sko aldeilis ekki og nú er svo komið að ég get ekki bloggað, opnað póstinn minn, né önnur forrit...helst að msn-ið virki, en það er bara tímaspursmál hversu lengi það hangir inni.
Ég finn mig því knúna til að biðja Nýherjastarfsmanninn sem nú er sennilega að reykja vindil í sólstofunni sinni að drepa í honum og gera annað af þessu tvennu:
a) éta úldinn hund
b) úldna
Nú er ég að blogga úr tölvunni hennar Diljáar sem fékk hæli hjá mér um stund sem flóttamaður! Meira um það á eftir.
...Ég hafði hugsað mér að þegar ég kæmist í að blogga myndi ég kannski tala um skólamál sem eru vonandi að glæðast, það, hvernig ég fann danska grund titra af gleði þegar Þórir Kjánaskott steig á hana í gær, eða þegar hópur lítilla araba hertóku strætó, flautuðu og opnuðu og lokuðu hurðinni (á fólk) þar til strætóbílstjórinn snappaði og hringdi á lögguna (spurning um að læða nokkrum búrhnífum í töskuna sína áður en maður hættir sér í strætó)...en allt þetta verður að bíða betri tíma, því nú er allt að gerast!

Í gær fór ég á tónleika með Tim Christiansen með kollegienu mínu. Það var mjög gaman, bæði að fara með þeim og að heyra og sjá þennan frábæra tónlistarmann á sviði. Ég fékk mér nokkra bjóra og dillaði mér svo í takt við tónlistina, en verð þó að viðurkenna að þrátt fyrir að ég telji mig vera smá saman að ná dönskunni, þá skildi ég ekki baun í grínistanum sem skemmti á undan tónleikunum (samt fannst nokkrum félögum mínum af vistinni þeir verða að reyna að sannfæra mig um að þetta væri sko EKKI fyndnasti uppistandari Danmerkur).
Ég kláraði þó ekki tónleikana því Matthea hin meðvirka fór í panikk þegar Diljá mín sendi sms um að geðsjúki íranin sem leigir með henni, væri búinn að stela tölvunni hennar Heke úr íbúðinni, þær búnar að læsa hann úti og flýja til nágrannanna með allt sitt hafurtask. Íranska mafían væri búin að parkera drossíum fyrir utan íbúðina og nágrannarnir væru að hópa sig saman í hræðslu sinni! Ég stökk af stað og hitti Dillí mína sem var þá orðin slök í partýi með skólafélögunum eftir að hafa fengið breska fylgd út úr húsi sínu. Við skelltum okkur á Skjoldhoj þar sem við horfðum á Desperate Housewives fram á morgun.
Litlir fuglar vöktu okkur í morgun með þær fréttir að Kiddi sætasti klipparinn í DK væri kominn yfir hæðina...beint frá Köben og stefnum við að því að mála með honum bæinn...amk bleikan!
Kannski verður bið á bloggi...kannski dettur msn-ið út fljótlega, kannski förum við á þorrablótsball í kvöld, kannski er svarið við öllu 42 (eins og Bragi vill meina) en eitt er þó víst...ég kem heim 20. mars og geri þær kröfur á ykkur, kæru lesendur, að þið hugsið til mín daginn eftir...þegar ég verð 28 år gammel og ef þið viljið minnast mín..ekki senda blóm og kransa til Nýherja.
Yfir og út

Saturday, February 19, 2005

Eilífðar Beyglur?

Tími: sunnudagur seint í júlí
Staður: Beygluhúsið á Laugavegi
Þátttakendur: Fjórir einstaklingar sem stundum kjósa að kalla sig "vinahjón"

Eftir að hafa pantað sér beyglur í stíl við útlitið þennan sunnudaginn og fundið sér sæti (sumir vilja tryggja sér sæti stutt frá salerni, aðrir þar sem hægt er að fá frískt loft, enn aðrir halda því fram að þeim sé alveg sama, því þeir verði aldrei þunnir...) spá vinirnir í framtíðina. Á þessum tímapunkti er ljóst að einn einstaklinganna er búinn að fá skólavist í Danmörku og allt bendir til þess að annar flytji líka til Dk, en óvíst er með tilgang þeirrar ferðar. Tveir úr hópnum fölna þegar framtíðina ber á góma og beita allri sinni orku í að láta tímann standa í stað (...og ef það gengur ekki, þá troða e-h upp í þá sem spurja slepjulega "og hvað ætlar þú svo að gera í haust?"). Árangur alls veltings á vöngum fjórmenninganna þennan sunnudag var ekki mikill og lausn við gátu framtíðarinnar var leitað í stórum ís í brauðformi, eins og svo oft áður.
Nú standa málin þannig að 3/4 hlutar hópsins eru brátt búsettir í danaveldi og 1/4 í Frakklandi...en spurningin er: Erum við einhverju nær því hvað við ætlum að verða þegar við erum orðin stór?

Thursday, February 17, 2005

Í kvöld voru vendipunktar í lífi mínu!

-Ég og samherji minn frá Uzbekistan, burstuðum Frakkland og Bretland í fótboltaspili í sprogskólanum í kvöld.
-Ég fékk að tjá mig í tíma, á dönsku auðvitað, um afsögn Henriette Kjær og hvað mér finndist nú um það...
-..þar kom að tveimur veikum punktum í sálartetri Mattheu, dönsku og pólitík
-Ég sá lítinn Goth strák, allan pinnaðan í framan, með svart sítt hár og hvítt andlit, koma ferskur og töff inn í strætó, en bílstjórinn sá hann ekki og lokaði hurðinni á gæjann sem festist og keyrði nokkuð langt áður en vinir litla gothstráksins náðu andanum af hlátri og gátu látið vita af honum...og hann guffaðist niðurlútur til vina sinna, þetta gerist bara þar sem fólk fer inn í strætó að aftan!
-Ég þurfti að tjá mig, í skemmtilegu spili, um það hvort ég myndi vingast við leiðinlegan nágranna minn sem ætti sundlaug, ef ég ætti von í að fá að nota sundlaugina hans. Ég sagði "nei" til að freista þess að vinna spilið, en auðvitað myndi ég gera það, enda fölsk með eindæmum ;)
-Ég skrifaði smásögu um fyrirbæri sem við berum (flest okkar allavega) en pælum sjaldan í og sjáum ekki eftir þó að vanti, nema það fari í miklu magni...

-Ég er næstum hætt að fá komment á síðuna mína og langar rosalega að biðja ykkur sem kíkið við að kommenta svo ég haldi nú allavega að e-h lesi þetta bull mitt!

Wednesday, February 16, 2005

Harlem

Þetta er ástæðan fyrir því að hinn reglubundni göngutúr minn að kvöldlagi styttist til muna, ég lækkaði tónlistina í eyrunum og gekk jafnvel svo langt að líta til beggja hliða áður en ég fór yfir götur...! En nú get ég haldið skokkinu áfram í skjóli nætur því gæinn hefur aftur verið gómaður, hjúkk!

Tuesday, February 15, 2005

Hvað er málið...

með þetta! Ég veit nú reyndar um einn sem fór húsavillt í Hveragerði, skreið upp í rúm og vaknaði svo með brjálaða húsráðendur og pirraða kærustu þegar kom að því að útskýra fjarveruna...!

Riddari götunnar

er ég, Matthea Sigurðardóttir, sem geystist um hraðbautir Jótlands eins og vindurinn. Ástæðan: Dagný Skúladóttir, spila-, handbolta- og almennur snillingur þurfti að ná flugi til Þýskalands. Tinna diskódrottning bættist í hópinn í Horsens sem sérlegur leiðsögumaður. Ferðin gekk ótrúlega vel, röngum beygjum var haldið í algjöru lágmarki..þó það dytti alveg inn að maður færi óvart til hægri þegar átti að fara til vinstri og svona.. En þetta gekk og það er bara gaman að því!

Drama...en mér er alveg sama!

Það var komið fram í mars þegar ég fann það gerast. Sólin var að koma upp og hitastigið fór hækkandi. Fyrst lýsti það sér í auknum þunga niður með síðunum og svo dofa neðst í líkamanum. Ég hafði rýrnað með hverjum deginum sem leið, en vonaði alltaf að það væri bara ímyndun í mér. Ég vissi að endalokin væru bara hluti af þessari stöðugu hringrás lífsins, en ég vonaði alltaf að ég hefði lengri tíma, að veru minni á þessari jörð væri ekki lokið svona fljótt. Margir í minni stöðu höfðu farið verr en ég. Nágranni minn, sem reyndar var smávaxnari en ég, missti útlim áður en hann hvarf á vit forfeðra sinna. Ég sá hann útundan mér, rétt áður en hann féll í hinsta sinn í jörðina. Hann hafði áður dottið, en ávallt var honum komið til bjargað af smáum líknandi höndum og tjaslað saman á ný. Ég hafði munað fífil minn fegri. Annað munnvikið hafði slappast verulega eftir hlýjindakast í febrúar og síðan þá hafði ég brosað skökku brosi að því sem yfir mig gekk. Ég hafði misst annað augað nokkru áður og var því með verulega skekkt sjónsvið en eins og títt er um okkar líka var ég læstur í hálsliðunum og gat ekki snúið höfðinu svo vel mætti vera.
Þegar ég fann hvernig lífið fjaraði út, fór ég að hugsa um lífskeið mitt sem var allt of stutt en þó viðburðaríkt. Ég var ekki stoltur af öllum þeim hugsunum sem þutu um kollinn á mér í dauðastríðinu. Þegar ég hafði fulla sjón hafði ég horft öfundaraugum á herramanninn sem bjó á móti mér. Hann var alltaf með pípuhatt, trefil sem gerði hann á einhvern hátt virðulegan og hafði yfir sér sérstaka reisn sem ekki er öllum gefin. Ég dauðöfundaði hann því ég hafði aldrei haft útlitið með mér. Það var líkt og skapari minn hafi haft um nóg annað að hugsa þegar ég varð til. Bústnar kinnarnar litu út fyrir að vera misstórar, maginn lá í fellingum og höfuðið var keyrt ofan á risastóran búkinn svo vart sást í hálsinn.
En nú hafði ég ekki áhyggjur af því, enda var ég farinn að halla óeðlilega mikið til vinstri og ég fann að góða augað var að gefa sig. Rétt áður en ég féll til jarðar sá ég hvernig skólabörnin óðu í pollana, glöð og kát yfir betri tíð. Ég reyndi að brosa að þeim í hinsta sinn því án þeirra væri ég ekki til. Fallið var ekki hátt en auga mitt skoppaði í rennvotu grasinu og beið þess að tilheyra nýjum snjókalli að ári!

Monday, February 14, 2005


Þegar þessi mynd var tekin, vissi Týra ekki að ef hún slyppi úr bælinu sínu, gætu beljur óvart stigið á hana...hún átti eftir að reka sig á það! Posted by Hello

Hmmm...

Á laugardaginn var ég boðin í veislumat til fósturforeldra minna. Hrabba galdraði fram rækjukokteil í forrétt, fahitas í aðalrétt og ávaxtasúkkulaði og ísrétt í eftirmat...mmmmm
Svo spiluðum við Stikord og þó svo að við Viktor stæðum okkur eins og sannar hetjur, unnu þær systur Dagný og Hrabba, enda miklar keppnismanneskjur þar á ferð!
Húsfélagið á Velby center vej tók fyrir ákveðið mál sem brunnið hefur á fólki um hríð. Eftir löng fundarhöld varð niðurstaðan sú, að sambúð okkar fjölskyldunnar gengur mjög vel, og ekki stendur margt í vegi fyrir því að allir geti lifað í sátt og samlyndi. Einn hængur er þó á og á honum verður að taka hið snarasta ef ekki á illa að fara...nefninlega er ég, fósturdóttirin, fýlupúkinn og tveggjamannakapalspilasjúklingurinn...alveg einstaklega fötluð á því sviði að geta aldrei munað að setja hverja hnífaparategund í sitt hólf í uppþvottavélinni...ég viðurkenni hér með vanmátt minn á þessu sviði og vona að ekki sé of seint að bæta fyrir mistök mín !
Annars fékk ég aldeilis að finna fyrir því að danir lamast algerlega þegar fyrsta snjókornið fellur til jarðar og samgöngur eru lagðar niður. Strætóbílstjórar bresta í grát og fólk gerir sitt besta til að keyra á gangstéttunum eða þvert á veginum...
Ég fer í tungumálaskólann á fimmtudaginn, spennandi að vita hvernig það fer.
Læt vita

Saturday, February 12, 2005


Nú segja danir að úti sé "snjóstormur"..(frekar aum snjókoma) en það er nógu andsk... kalt! Þar lágu danir í´ðí! Posted by Hello

Í gær fórum við nokkrar saman að mála bæinn rauðan. Kvöldið hófst á Ítalíu þar sem mál-og heyrnarlausi þjónninn fór allt í einu að syngja og einbeitti sér sérstaklega að okkar borði. Hann skildi alls ekki af hverju við vildum ekki fara á djammið með súperslepjulegum og hallærislegum vinum hans, en næst lá leiðin á den hoje. Þar kom í ljós að Rasmus er hættur að vinna...en ég læt það sko ekki stoppa mig! Þegar nýji staðurinn "Súkkulaðiverksmiðjan" þótti full kannaður fóru sumir heim en aðrir á den sidste! Skemmtilegt kvöld. Þarna erum við allar; Oddný, Matthildur, ég, Erla, Ragnheiður, Harpa og Diljá. Posted by Hello

Komnar í grænlendingana... Posted by Hello

Á den hoje!! Posted by Hello

Harpa og Erla Posted by Hello

Erla, Diljá, Matta og Oddný Posted by Hello

Á fimmtudaginn var matarboð hjá Ástu. Hún hristi fram úr erminni saltfiskrétt og margt fleira sem ég kann ekki að nefna en bragðaðist æðislega. Takk kærlega fyrir mig. Á myndinni eru Ásta og Eva Sonja. Posted by Hello

Thursday, February 10, 2005

Þegar rignir...

...verða gellurnar krullhærðar
...pirrast blaðsölufólkið
...halla ég glugganum
...er troðningur í strætó
...klínist málningin
...forðar Júlían mín sér
...sýnist strætóinn fara hraðar
...er auðveldara að skrópa í skólanum
...sullast drullan upp á kálfa
...sakna ég Íslands

Wednesday, February 09, 2005


Afmælisbarn dagsins...er Vilborg Magnúsdóttir. Vilborg er lögga og sáli sem styrkir mann í vandamálunum þegar þau dúkka upp ;) Vilborg er, líkt og Helga í gær, orðin 27 ára en lítur ekki út fyrir að vera deginum eldri en 26 ára.. hehe Vilborg ég elska þig! Posted by Hello

Afmælisbarn gærdagsins...er Helga Pálmadóttir ein yndislegasta manneskja sem til er í heiminum. Hún er hjúkrunarfræðingur fyrir allan peninginn, tekur tillit til allra og er gull í gegn. Helga mín, mér finnst endalaust vænt um þig og vona að þú hafir átt góðan dag! Posted by Hello

Dagurinn í dag leggur mig í einelti!!!

Dagur frá helvíti:
Hann byrjaði á því að ég svaf yfir mig á stefnumót okkar Diljáar við Sprogskólann. Með stýrurnar í augunum hentist ég út og kom við í hraðbanka. Þá vildi bankinn ekki sjá neitt af kortunum mínum og ég hljóp því titrandi af pirringi í skólann. Þar kom í ljós að við Diljá værum dottnar af listanum því við mættum ekki í janúar, þó að ég væri búin að segja kennaranum að ég yrði fram í febrúar á Íslandi. Röðin inn til kennarans var á lengd við Kínamúrinn svo ég dreif mig út til að ná í strætó...en missti náttúrulega akkúrat af honum. Geislaspilarinn minn var batteríislaus, nettengingin fraus og dvd spilarinn er bilaður. Hvers á ég að gjalda!?!
Það er saumó hjá okkur Frímanni og Diljá á Englinum í kvöld..eins gott, annars myndi ég kuðla þessum degi saman og troða honum...

Monday, February 07, 2005


Afmælisbarn dagsins er Jökull Gíslason!!! Hann er 2 ára sjarmur sem elskar dýr og útiveru. Hann vill ekki með nokkru móti segja "Matta" en hins vegar segir hann "skjaldbaka" í tíma og ótíma og einnig kýs hann að heyra fagnaðarlæti þegar hann pissar í kopp og vill helst ekki að undraverkinu sé sturtað að lokum í klósettið! Til hamingju með daginn elsku Jökullinn minn, ég hugsa til þín. Posted by Hello

Sunday, February 06, 2005


Í kvöld var matarklúbbur hjá Svölu og Robba. Í boði var þriggja rétta máltíð og svignaði borðið undan kræsingum. Mikið var rætt um handbolta, rifjaðar upp gamla sögur en merkilegast þótti samt að þarna væri Breiðholtsskólafólk í meirihluta...(sönnun á því að hinir hæfustu lifa af..þeir sem ekki eru stungnir í bakið með skrúfblýanti!). Á myndinni eru Robbi, Svala, Raggi og Matthildur. Posted by Hello

Viktor, Robbi og Robbi Posted by Hello

Stulli og Hrabba Posted by Hello

Saturday, February 05, 2005

Þakklæti

Hvar væri ég án Hröbbu og Viktors? Það er góð spurning...

Diljá og Martina í rosa strandpartýi sem haldið var í KaosPilot skólanum í gær. 17 tonn af sandi, brimbretti, kokteilar og bjór út um allt og hitinn var miiiiikill. Posted by Hello

Það er heitt á ströndinni...! Posted by Hello

Diljá og Erla strandgellur Posted by Hello

Thursday, February 03, 2005


Viktoría Dís prinsessa Posted by Hello

Ég var að koma frá þeim súperhjónum Hröbbu og Viktori og gullmolanum okkar allra, Viktoríu. Ég var búin að hlakka svo rosalega til að sjá þau aftur enda ég, týnda dóttirin, loks að koma úr jólafríi sem náði næstum fram að næstu jólum. Þessar elskur buðu mér í heimabakaða pizzu, gítarspil (og kennslu, takk Viktor minn), spil, spjall og almenna gleði og ánægju. Takk fyrir mig! Posted by Hello

Þetta er hann Kiddi. Hann er vænn mannkostur og fær í flest show. Hann vaknar snemma með kjarngott íslenskt spaugsyrði á vör, stundar vinnu sína af elju stillir sig um óhóflegar lífsnautnir. Ég bætti Kidda á linkasafn mitt og hefði átt að vera löngu búin að því, ég les hann daglega og það ættuð þið að gera líka, hann er allra meina bót. Kiddi, ég elska þig!
 Posted by Hello

Wednesday, February 02, 2005

í 41 klukkutíma samfleytt...

...hef ég nú verið vakandi. Ég ligg nú uppí rúminu mínu í Árósum eftir laaangt og strangt ferðalag og get ekki sofnað því ég er búin að vaka yfir mig.
Ég á alltaf erfitt með að rífa mig upp með rótum og fara eitthvað en það er samt ýmislegt gott sem kemur út úr því ef vel er að gáð. T.d eru allir svo rosalega góðir og almennilegir við mann þegar brottförin nálgast.
Dæmi:
-Yndislega mamman mín bauð mér í nudd...ÆÐI, það eina sem skyggði á það var að þegar nuddarinn (sem var ungur maður) var að nudda á mér bakið, beið ég alltaf eftir að hann myndi kyssa mig á milli herðablaðanna...HVAÐ ER ÞAÐ! Hann var með andlitið svo nálægt bakinu á mér (ekkert perralega samt) að mér hefði fundist fullkomlega eðlilegt ef hann hefði smellt á mig einum í leiðinni..Er þetta eitthvað sem við eigum að ræða frekar,eða...!
-Afinn minn stillti sig um að stinga mig af, vegna þess að ég var að fara. Þetta krefst útskýringa: Við afi förum stundum að fá okkur frískt loft, hann keyrir um á rafmagnsbíl (ill nauðsyn eftir heilablóðfall) og ég geng. Nánast undantekningalaust gefur hann í svo ég þarf að hlaupa við fót til að hafa við honum. En af því að ég var að fara aftur til Danmerkur, silaðist hann áfram á mínum hraða og reyndi ekki einusinni að koma í kapp.
-Sumir kreista fram tár þegar kemur að kveðjustund svo manni finnst maður smá ómissandi (ætla sko ekki að nefna nein nöfn hérna elsku Helga mín)
-Fólk reynir ekkert mikið að draga úr fjarðlægðum þegar ég segi með dramantískum hætti að nú sé ég að fara yfir höfin sjö..!
-Ég fékk óvænt myndaalbúm og falleg orð með mér í töskuna
-Fáir láta í ljós hneykslun sína yfir því að ég skyldi fatta, daginn áður en ég fór út, að ég ætti ekki að byrja í skólanum fyrr en í lok feb...!

Svo er líka svo gott að koma aftur út.
Dæmi:
-Héðinn og Kiddi tóku fagnandi á móti mér í Köben í dag. Eftir að ég var búin að prófa öll átta símanúmerin sem eiga að tilheyra DanmerkurHéðni í símanum mínum, komst ég að því að fæst þeirra voru rétt (komst upp um þig Hési minn) en með seiglu (flettum þessu orði upp næst ezku Kiddi) tókst mér að hafa upp á honum og fá heimkomuknús. Við borðuðum & bjórsötruðumst á þvottabarnum, pössuðum poka (í pokum erum við bezt),gengum um og vældum af hlátri þannig að hið slappa og sárþreytta andlit mitt fékk í sig nokkurs konar líf á ný.
-Diljá og Matt(hildur)a ætla að knúsa mig bráðum (vonandi á morgun)
-Hrabban mín og co eru búin að bjóða mér í mat á morgun
-Ég get ekki beðið eftir að sjá Evu og Ástu aftur eftir allt of langan tíma
-Mér skilst að það sé strandpartý framundan
-Fersk og gljáandi 9.sería af Friends bíður við dvd spilarann...!

Jább, við Danmörk erum sameinaðar á ný!