Wednesday, June 20, 2007

Líf mitt sem Matthea

Mig langar að blogga í gleðifréttastíl, í hnyttnum stikkorðum sem lýsa líðan minni og gjörðum síðan ég bloggaði seinast. En ég er ekki skyld honum Bjössa ömmubróður mínum fyrir ekki neitt og því kemur hér veikindalisti undanfarins mánaðar, en þó skal ég reyna að halda saurlýsingum í lágmarki, þó ég þykist vita að það myndi Bjössi frændi sko ekki gera...

Ég fór seint niður úr skýjunum eftir júbileringuna. Já hamingjan og gleðin umléku mig svo að ég hélt að ég væri komin með harðsperrur í kinnarnar af brosi helgarinnar...en nei, ónei. Þessi harðsperrutilfinning breyttist smám saman í doða, sem varð að bólgu sem lak niður eftir kinnunum á mér og niðrí háls og aftur fyrir eyra. Ef þið eruð farin að sjá mig fyrir ykkur eins og Martin Short í Pure luck eftir að hann var stunginn af flugunni, þá er það ansi nærri lagi. Eftir læknaheimsóknir með tilheyrandi biðum, öðru og þriðja áliti þar sem ég þurfti aftur og aftur að segja saklausum rómi að ég hefði bara verið að drekka djús og lesa blaðið þegar fílamaðurinn í sjálfri mér braust svona skyndilega út, varð niðurstaðan sú að sennilega hafi geislajoð janúarmánaðar sest í munnvatnskirtlana á mér sem taka upp á því að bólgna upp við hinar og þessar aðstæður! Gaman
Ég sem er nýfarin að geta gengið upprétt aftur eftir að hafa rústað bakinu með því að þræða einfalda stíga Esjuhlíða...

Ég er hætt að vinna í Öskjuhlíðarskóla. Ætla að gerast unglingakennari í Brúarskóla á næsta ári en sit við tölvu í ráðuneytinu í sumar, eins og sl. sumar.
Við Gunni skelltum okkur norður á Akureyri í tveggjadaga fríinu mínu, á milli vinna, í síðustu viku. Við gistum á Laugum í Dalasýslu á leiðinni og ég tapaði mér í Vegahandbókinni... svona er þá í heimi hinna fullorðnu, Héðinn! ;)

En aftur að óförum mínum. Eftir vinnu í dag ákvað ég að halda upp á að bólgan í kinnunum (sem náði hámarki sínu í sólinni á Austurvelli í hádeginu þar sem íslendingar gátu sólað sig og horft á fríkið, Mattheu í leiðinni) væri að hjaðna og að bakverkurinn (sem ætlaði að fara að láta aftur á sér kræla í gær) væri á "bak" og burt. Ég bretti því upp ermar og flokkaði dósir og flöskur og brunaði í endurvinnsluna. Þar sem toppstykkið er það eina sem lítið hefur brugðist mér að undanförnu, átti ég ekki von á því að lenda í nokkrum samskiptaörðugleikum við afgreiðsluna, en annað kom á daginn. Konan sem lætur mann fá peninginn við afgreiðsluna var að segja mér eitthvað, sem ég ekki heyrði því hljóðneminn sem hún átti að tala í stóð eitthvað á sér.. Ég greip þá til "mest notaða orðsins í sambúð okkar Þórhildar í Mávahlíðinni", "HA" og færði eyrað alveg að hátalaranum sem var í glerinu á milli okkar... hrökk þá hljóðneminn í samband, ásamt því að kellugreyið hafði hækkað róminn "VILTU AÐ ÉG LEGGI ÞETTA INN Á DEBETKORTIÐ ÞITT!!!!!!!" Þetta er sennilega síðasta setningin sem ég heyri á ævinni því eftir að hafa klæjað lengst inní heiladingul, heyri ég bara suð... og allt þetta fyrir skitinn fimmtánhundruðkall!!

Það bjargaði þó deginum þegar ég var stödd á matsölustað fyrr í kvöld þar sem hálfstálpaðir unglingar, starfsmenn á matsölustaðnum hölluðu sér upp að afgreiðsluborðinu og nenntu greinilega ekki að vera þarna. Kona með þrjá litla stráka var á borðinu við hliðina á mér og elsti strákurinn, kannski fimm/sex ára gekk um staðinn og horfði á fólk og boraði í nefið. Hann labbaði upp að afgreiðsluborðinu til unglinganna og tilkynnti þeim að hann hefði misst tönn.. svo gapti hann til þeirra til að sýna þeim og þau gerðu sem þau gátu til að sýnast áhugasöm en tókst ekki. Hann gekk aðeins um staðinn og kom svo aftur að afgreiðsluborðinu, spurðu hvort þau ættu lítinn poka.. opnaði lófann og út valt lítil, hvít, blaut og smá blóðug tönn... þessu áttu unglingarnir ekki von á og hryllingssvipurinn á pæjunum var óborganlegur!
Sá litli fékk þó tóma kokteilsósudollu til að setja tönnina í og valsaði hann ánægður um staðinn og uppskar aðdáunaraugnaráð bræðra sinna sem bíða þess nú að tennurnar þeirra fari að losna!

Þeir sem eru enn að bíða eftir að ég sendi þeim myndir úr júbileringunni; ég er ekki búin að gleyma því, póstforritið er bara e-h að stríða mér.. Myndirnar koma vonandi bráðum.

Brúðkaup Braga og Eyglóar á laugardaginn.. gaman!