Sunday, November 23, 2008

?

If we are all God's children, what the hell is then so special about Jesus?

Thursday, November 13, 2008

Stiklur úr miðvikudegi í lífi Krækibers

Kl. 06.15: Krækiberið snýr sér á hina hliðina eftir andvökunótt... geeetur ekki farið í ræktina. Sendir Hlédísi sms og sofnar aftur

Kl. 07.55: Krækiberið vandar sig sérstaklega í beygjunni þar sem það klessti aftan á gamlamannsbíl fyrir nokkrum dögum, en er samt að flýta sér í vinnuna

Kl. 14.00: Símtal við Arndísi sem litast af því að Krækiberið heldur á þeirri stundu að það sé á leiðinni í nefnda rækt eftir vinnu

Kl. 15.45: Örlagaríkt símtal við syss þar sem Krækiberið tekur að sér að skoða og meta húsgögn sem syssið sá auglýst til sölu í Fréttablaðinu. Syssið hafði talað við auglýsandann sem reyndist vera frá Tælandi og tala mjög bjagað og því vissi syssið engan veginn hvar söluvarningurinn var til húsa. Á þessum tímapunkti héldu syssið og Krækiberið þó að um væri að ræða húsgagnaverslun með fjölbreytt úrval húsgagna

Kl. 16.16: Krækiberið náði í "sölukonuna" fyrir utan Hallgrímskirkju, þær dóla saman í fjögurumferðinni í átt að Hafnarfjarðarhöfn

Kl. 16.30: Tvær grímur eru farnar að renna á Krækiberið sem nú áttar sig á því að sölukona þessi er ekki aðeins að selja húsgögn, heldur auglýsti líka eftir manni handa tælenskri vinkonu sinni..og samkvæmt henni: "Íslenskir menn vilja bara leika, ekki giftast"!

Kl. 16.40: Krækiberið verður vitni að merkilegu samtali sölukonu og væntanlegs biðils vinkonunnar og aðspurð um aldur kvonfangsins sagði sölukonan þrjátíu.................................................................og átta ..eða fjörutíu, var ekki alveg viss. Þegar hún vissi aldur biðilsins ljómaði hún og sagði alveg tilvalið fyrir hann að fá sér 42 ára konu, því nú mundi hún aldurinn

Kl. 16.55: Krækiberið og sölukonan renna inn á gámasvæði Hafnafjarðarhafnar og bisa við að opna gám, og þegar það loks tekst hendist sölukonan af stað til að pissa á bak við næsta gám og skilur Krækiberið eitt eftir við gáminn sem allt eins gat verið fullur af þýfi

Kl. 17.15: Krækiberið veit ekki hvort það eigi að hlægja með eða gráta þegar sölukonan skýrir skellihlæjandi frá barsmíðum sem hún varð fyrir hér á landi þegar hún var nýflutt

Kl. 17.35: Krækiberið fær símtal frá Hlédísi sem, fyrir tilviljun, var í bílnum á undan, leit í baksýnisspegilinn og var merkilega lítið hissa þegar hún sá Krækiberið rúnta á Miklubrautinni með skellihlæjandi sölukonu í bílnum (þess má geta að oftast vita Hlés og Krækiberið um ferðir hvors annars)

Kl. 17.40: Sölukonan stígur úr bíl Krækibersins við Hallgrímskirkju og Krækiberið brunar heim á leið, klípandi sig í hendina öðru hverju...

Kl. 17.55: Krækiberið sígur í sófann heima hjá sér, öll ræktaráform komin í salt og ákveður með sjálfu sér að stuðla að því að framvegis geri það og fjölskylda þess öll húsgagnakaup í IKEA!

Monday, November 10, 2008

Líf í Bingóvöðvunum...


Úfffff...

Nú tilheyra hreyfingar á borð við; að setja hárið í tagl, veifa, klóra sér í/bora í nefið, setja á sig gleraugun, þvo sér í framan, skafa af bílnum o.s.frv. sögunni til!

Einhver gæti ályktað að þessi tímabundni hreyfingaskortur minn væri tilkominn af högginu sem ég fékk af því að bomba aftan á "gamlamannsbíl" sem taldi góðan kost að snarbremsa fyrir framan mig, en ónei! Þessi sársaukafulla fötlun mín stafa eingöngu af öfgum í hreyfiþörf Mattheu. Ég ákvað sem sagt að nú væri tími til kominn að rísa upp úr eigin leti og leyfa heiminum að kynnast aðeins minni útgáfu af sjálfri mér. Ég slóst í hóp með hinni duglegu Hlés minni í lyftingasal World Class og í dag er ekki laust við að ég merki örlítið og viðkvæmt líf í bingóvöðvunum!