Monday, July 31, 2006

Hvar hafa bloggdagar lífs míns litum sínum glatað...?

Orðrómur götunnar segir að sumarið sé tíminn... en ég hef það sterklega á tilfinningunni að þegar ég fer að vinna vetrarvinnuna mína eftir hálfan mánuð, sé það einmitt sumartíminn sem kemur til með að virðast sem dagur, ei meir! Tíminn fylgir ekki alveg minni klukku sem þarf að innihalda aðeins fleiri klukkustundir eins og hjá svo mörgum. Einn dagpartur hefur farið í Austurvallarhangs og það var eftir kl 17!! Veðrið hefur svo sem ekki verið að flækjast fyrir mér, en þrátt fyrir að sumarið hafi rokið framhjá mér hefur margt gerst og enn fleira framundan..
Í sumar:
-hefur landbúnaðarráðuneyti Íslands notið starfskrafta minna
-hef ég hringt á skrifstofu opinberrar stofnunar til þess að flissa að talanda símadömunnar
-átti Þórhildur mín afmæli

-er skottan væntanleg til landsins á næstu dögum, frá Ástralíu með litla ungann sinn í kengúrupokanum
-hef ég lagst í fjöruna við Gróttu og ritað í sandinn
-var grillað í Þjórsárdal
-datt Katlan okkar niður klett og brotnaði á báðum höndum
-hlustaði ég á Sigur Rós
-fengu kennsluhæfileikar (þolinmæði) mínir að njóta sín við að kenna afa á kasettutæki..það tók ekki nema 2 klst!
-voru gluggarnir teknir úr íbúðinni minni..og enginn að stressa sig að setja nýja í..hver þarf svo sem súrefni
-hef ég unnið upp ákveðna skuld og er nú á núlli skv. Héðni bókaranum mínum ;)

Í dag:
-á Arndísin mín afmæli!!!

-Mér finnst svoooooooooooo vænt um þig elsku frænka og myndi kalla ferfalt Húrra fram af svölunum mínum ef ég væri ekki nú þegar komin á dauðalista nágrannanna (eftir kveðjupartýið síðustu helgi)

Wednesday, July 12, 2006

Golfmót í Vík!!!

Komið þið sæl,

n.k. laugardag þannn 15. júlí verður golfmót í Vík til styrktar Hilmi Snæ Guðmundssyni.
Spilaðar verða 9 holur á þessum skemmtilega golfvelli og verður fyrirkomulagið punktakeppni.

Í boði eru veglegir vinningar, t.d. ferð fyrir 2 til einhvers af áfangastöðum Icelandair í Evrópu. Einnig verða veitt nándarverðlaun og dregið verður úr skorkortum, þannig að allir ættu að geta unnið eitthvað.

Mótsgjald verður 3500kr. Hægt er að skrá sig með því að senda póst á netfangið golfvik@gmail.com eða hringja í síma 893-3383 Stefán Davíð Helgason eða 861-1779 Þráinn Sigurðsson.

Með von um góða þáttöku,

mótstjórn

Allir eru velkomnir

Heimasíða golfklúbbsins í Vík er http://golf.is/index.jsp?iw_language=is_IS&ib_page=560

Tuesday, July 11, 2006

Harpa


Þetta er hún Harpa afmælisbarn sem á bumbuna Emil. Hún hélt upp á afmælið sitt með rosalegri kvennaveislu á sunnudaginn, þegar úrslitaleikur HM var spilaður. Hörpu líður aldrei vel nema eiga e-h í panti í IKEA. Nú er hún búin að ná í kommóðuna sem bumbuEmil á að fá í september, svo nú leitar hún í örvæntingu að e-h til að panta í IKEA.
Þess má geta að Diljá rokklingur er umboðsmaður bumbunnar.

Tuesday, July 04, 2006

Katlan mín


Í gær átti Katla Þöll, bróðurdóttir mín, 5 ára afmæli. Til hamingju litla skottið mitt!!!

Hvað hefurðu verið að gera að undanförnu, annað en að fitna?


Í hverri ungri konu býr feit miðaldra kelling sem bíður eftir að brjótast út, sagði vinur minn í gær á meðan hann tróð ís í andlitið á sér. Hann hikaði aðeins og bætti svo við hjá sumum glittir í hana fyrr en hjá öðrum!

Ekki þarf að taka fram að þessi athugasemd hægði soldið á handtökunum sem taktfast höfðu borið skeiðina að fésinu á mér, svo munnurinn væri örugglega alltaf stútfullur af ís!

Monday, July 03, 2006

Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns...

Í þau óteljandi skipti sem ég hef gengið fram hjá fallegasta húsinu á Laugarásveginum á leið minni um Laugardalinn, hef ég yfirleitt staldrað aðeins við, horft heim að húsinu og látið mig dreyma um að búa þarna. Ég hef séð fyrir mér hvernig húsið lítur út að innan, virt fyrir mér stóru gluggana og fallegu bílana á stæðinu.
Þegar við Helga nálguðumst húsið í göngutúrnum okkar í dag, breyttist draumur minn í blákaldan veruleika. Gömul kona reikaði út úr húsinu "mínu" og bað okkur um að hjálpa sér. Við héldum það nú og skelltum okkur inn til hennar. Mjög fljótlega kom í ljós að kona þessi var illa haldin af alzheimer og vissi hvorki almennilega í þennan heim né annan. Hún vissi ekki hvort hún væri að koma eða fara, hver byggi þarna með henni, hvort hún væri læst úti eða bara hissa á að enginn væri heima. Við Helga (Nightingale)tókum þá gömlu að okkur, hringdum nokkur símtöl þegar hún var búin að ákveða sig hvað dóttir hennar héti og hvar hún byggi, og sátum svo hjá gömlu þar til dóttirin kom heim. Sjaldan, ef nokkurntímann höfum við vinkonurnar þurft að endurtaka jafn oft staðreyndir um sjálfar okkur og eftir að hafa sagt 5 sinnum hvar við byggjum, létum við nægja að segja bara að við byggjum í nágrenninu.
Þetta var bara nokkuð skemmtileg tilbreyting á kvöldgöngunni og kannski við Helga förum bara að gera út á að kíkja við hjá gömlu ringluðu fólki sem leitar á náðir náungans í neyð!