Friday, April 28, 2006

Ábending frá Ástralíu

Hún Þórhildur mín benti mér á að það væri eins og ég hefði ekki lifað einangrunina af, ef miðað er við bloggleysi mitt síðan ég lauk "afplánunni".
Það er öðru nær.
Ég er sprellalæv, fór langt upp fyrir sjálfa mig þegar ég byrjaði aftur á lyfjunum og nánast öskraði úr gleði og hamingju á aumingja alzheimerssjúklinginn ömmu mína þegar hún hringdi til að kanna ástand mitt. Svo sveif ég hægt niður til jarðar aftur og held að ég sé að ná jafnvægi.
Mig langar til að þakka ykkur öllum fyrir kommentin. Gaman að sjá hversu margir kíkja hingað og þegar sjálfstraustið fór að rjúka upp með auknu Euthyrox í blóðinu, fór ég að spá í þessu með skriftirnar. Ég komst að því að ég gæti aldrei skrifað bók. Í fyrsta lagi kemur "andinn" ekki yfir mig nema ég skrái mig í mastersnám í Danmörku eða loki mig af á sjúkrahúsi og fórni eins og einu og einu líffæri og í öðru lagi lengi ég alltaf mál mitt þegar ég segi frá svo að allar mínar bækur myndu byrja á setningunni "Í upphafi var orðið...!" og smásögur mínar yrðu eins og ævisögur í þrem bindum!
Ég fór á húsfund í gær! -Þessi setning hljómar ekkert ógurlega í eyrum margra en ég veit að Gummi og Lísa fá kalt vatn milli skinns og hörunds mér til samlætis. Þessir fundir eru til þess gerðir að ræna mann lífslönguninni. Fyrir utan það að búið er að klína aleigu minni, í formi hraunáferðar, á veggi blokkarinnar, nýja gluggalista og múrviðgerðir, þá hefur gamalt fólk (sem er í miiiiklum meirihluta í þessu 63 íbúða húsfélagi) mjög sterkar skoðanir á öllu, öllu sem viðkemur blokkinni og öllu öðru. 62 skoðanir eru t.d. á því hvaða litur fari blokkinni best (getiði hverjum er hundaskítsama). Þegar fimmtugastiogáttundi íbúi blokkarinnar var að tjá sig um mikilvægi sveigjuhandriða var ég komin í svo djúpar samræður við gömlu konuna við hliðina á mér að ég vissi nákvæmlega hvar hún ólst upp, hvaða leið hún hjólaði í vinnuna í gamla daga og að maðurinn hennar sem sat hinumegin við hana ropar orðunum út úr sér eftir að hafa fengið krabbamein í raddböndin!
Af þessum fundi fór ég svo beint á fund Kennarafélags Reykjavíkur og með því fór ég úr öskunni í logandi elda helvítis. Ef ég gef mér það, að ég lifi fram yfir fimmtugt, (þá þarf ég líka að láta af þeim ósið að mynda krabbameinsæxli hér og þar, fara að líta í báðar áttir þegar ég fer yfir götu og standa mig í átakinu "hjólað í vinnuna" (sem ég skráði mig í með glöðu geði en spyrnti svo við fótum þegar átti að plata mig til að koma í morgunverð í Hafnarfirði kl. 06.00 á fimmtudaginn og hjóla svo þaðan í vinnuna)) verði ennþá með gleraugu og finnist ég knúin til að garga skoðanir mínar og baráttumál yfir fullan sal af fólki er ég sem sagt orðin eins og megnið af fólkinu sem þarna var í gær... árar Kölska.

Friday, April 21, 2006

Þriðji í einangrun

Ég trúi varla að upp sé runninn þriðju dagurinn í einangruninni! Eivor engillinn minn í Þýskalandi reddaði mér góðum hluta gærdagsins með því að koma mér inn á veftv stöðvar 2 og er ég nú búin að rifja upp nánast alla Svínasúpuþættina og hló svo undirtók í stofunni :)
Það er soldið merkilegt ferli sem á sér stað inni á spítölum. Ekki það, að ég hafi spáð mikið í það hingað til, enda yfirleitt verið hálf dópuð af lyfjum eða sársauka þegar ég hef lagst inn fram að þessu, en ég hugsaði vel og vandlega um það áðan. Þannig er nefninlega að nú er tími úthreinsunarinnar.. jebb eins og allir vita þá kúka stelpur ekki svo ég mun reyna að hafa þennan kafla bloggsins frekar stuttan. En ég fór sem sagt í þetta ferli í morgun að fá hina og þessa pilluna, stíla, túbur og vökva til að allt geislavirkt myndi nú örugglega skila sér út í sjó, þaðan í fiskana og að lokum á sushi-diskinn ykkar :)
Stuttu eftir allar þessar inntökur til úthreinsunar var hringt frá ísótóparstofu og nú átti að mæla mig vel og rækilega til þess að hægt væri að reikna út hvenær óhætt sé að sleppa mér lausri (svona soldið eins og þeir gera víst í Hrísey..eða gerðu allavega).
Mér var komið fyrir á mjóum bekk og yfir mig var settur stór skanni og svo rann bekkurinn rólega í tæpan klukkutíma og skanninn vann sína vinnu í hverjum krók og kima líkama míns. Til þess að ég yrði nú kyrr þessa klukkustund og ekkert myndi klikka, var ég óluð niður á höndum og fótum.
Það var akkúrat þá sem ég áttaði mig á því að maður þarf að vera ansi meðvitaður um sjálfan sig ef maður vill ekki verða fórnarlamb aðstæðna...að vera nýsloppin úr einangrun og vera svo ólaður niður á bekk...hmmm...
Svo ég tali nú ekki um að vera með Microlax í sunnanendanum, sem er ekki beinlínis róandi fyrir klukkutíma afslöppun, niðuróluð og fín :)
Heimferð í dag og hið daglega líf framundan, víííííííí

Mamma á afmæli í dag og ég ætla sko að kalla til hennar úr fjarlægð...TIL HAMINGJU!!!

Thursday, April 20, 2006

Ég bara verð að deila því með ykkur...

...hversu mikilvægt það er fyrir suma að halda sig bara inni, helst alltaf og vera ekkert mikið að láta sjá sig innan um annað fólk!!
Áðan fékk ég símtal sem veitti mér aðgang út í frelsið. Það var ísótópastofa sem er niðri á næstu hæð og vildi fá mig niður í mælingu. Eftir að ég lagði á leið mér svona svolítið eins og ég væri að fara á árshátíð eftir langt hlé. Ég vandaði mig við að pissa rétt (og auðvitað allt beint í skálina, ekkert á ská eða neitt þannig), sturtaði tvisvar niður og þvoði mér tvisvar um hendurnar. Greiddi mér, tannburstaði fyrir ofan vaskinn og hitti öllu oní og vandaði mig sérstaklega við tunguna!
Svo var komið að því að velja föt... ég var mjög lengi að ákveða í hverju ég ætti nú að fara, því það er ekki á hverjum degi sem manneskja í minni stöðu fær að fara út úr helli sínum. Eftir miklar vangaveltur ákvað ég að fara í síðu nærbuxurnar sem eru hvítar sem mjöll og þvottahússtafirnir framan á buxnaklaufinni eru svartir sem tinna! Sokkarnir toppuðu svo fegurðina og ferskleikann og það voru titrandi hendur sem snéru hurðarhúninum á leið út á gang. Ég var með hálfgerðan kjánahroll alla leiðina niður, fannst ég vera að stelast út um miðja nótt til að sækja í vafasaman félagsskap..svo var líka önnur tilfinning sem sótti á mig en ég var ekki alveg viss um hver hún var. Þar sem ég má náttúrulega ekki snerta fólk, fannst mér ég getað bætt fyrir fjarlægðina með því að brosa mínu breiðasta meðan ég arkaði á neðri hæðina.
Þá gerðist það..dularfulla tilfinningin sem ég hafði fundið fyrir var sú sem píparar einir finna ekki og eru því oft með svokallaðan "plummer" en aðrir eiga að vera nokkuð meðvitaðir um. Síðu fínu nærjurnar mínar höfðu mjakast niður og þegar ég hélt að ég væri að hífa þær upp, var ég alltaf að toga í strenginn á þeim stuttu sem innanundir eru...og úps..í miðjum stiganum, geislavirk og brosandi eins og Þyrnirósin eftir aldarsvefninn, missti ég niðrum mig fallega "árshátíðarföðurlandið" mitt!!!
GUÐI SÉ LOF FYRIR AÐ SUMARDAGURINN FYRSTI ER FRÍDAGUR OG ÞVÍ FÁIR Á FERLI!

MS=Matthea Sperrileggur

Gleðilegt sumar!!

Kannski það hafi blundað í mörgum á þeirra villtustu árum hræðsla við að vakna upp á þeim stað sem ég er núna. Eftir að hafa kvatt veturinn "full" harkalega, drukkið frá sér ráð og rænu, frídagur daginn eftir og svona..og vakna svo í sótthreinsuðu umhverfi og algjörlega á valdi þvottahúss spítalanna! Þetta hvarflaði svona að mér í morgnun þegar ég vaknaði við bank og morgunmatarbakka var smeygt inn svo hann rétt snerti innri hurðina á stofunni minni.En sem betur fer er ég fullkomlega meðvituð um ástæðu veru minnar hér og hef ákveðið að njóta hennar.
Ég á svo góða vini og fjölskyldu að ef ég væri væmin að eðlisfari, færi ég að grenja akkúrat núna. En eins og einn góðvinur minn segir: "Tilfinningar eru bara fyrir eymingja, homma og kjellingar" svo ég læt nægja að segja bara 1000 þakkir fyrir símtöl, komment, bréf ofl..þið eruð rjómi þjóðarinnar og mér finnst afskaplega vænt um ykkur öll :)
Alveg eins og ég var búin að ímynda mér mörgum árum fyrr hvar ég yrði um aldamótin sem þá virtust mjög fjarlæg, hafði ég ekki beint planað þessar aðstæður mínar þennan sumardaginn fyrsta! Að sjálfsögðu var ég heldur ekki stödd í Eiffelturningum í París á miðnætti um aldamótin en ég er enn að átta mig á þessu öllu hér.
Aldrei hefur verið brýnt eins vel fyrir mér að spíta tannkreminu vel og vandlega ofaní vaskinn, svona svolítið eins og ég sé vön að spíta því í lófann á mér og klína svo í hárið á einhverjum, eins heyrðist öðru hvoru rödd í gegnum hurðirnar mínar tvær í gær sem hvatti mig áfram að sjúga nú brjóstsykurinn...vel og vandlega. Á tímabili fór ég að halda að þarna væri á ferð annar sjúklingur sem hefði laumast að hurðinni og væri að tala skítugt, en er ég kannski sú eina sem set uppí mig brjóstsykur, velti honum svo rækilega upp úr gólfinu og geymi hann að lokum á milli rasskinnanna?! Nei nei, það er gott að fylgst sé vel með manni og auðvitað er mikilvækt að ég spíti ekki geislavirkum síklum hér um allt og svo þarf ég stöðugt að koma munnvatnsframleiðslunni af stað til að geislarnir setjist ekki í munnvatnskirtlana.

Vá þegar rennt er yfir þessa bloggfærslu má sjá hvernig sjálfhverfur einstaklingur (ég) verður enn sjálfhverfari (um mig) þegar hann er einn (frá mér) með sjálfum sér (til mín)!

Björkin mín besta varð átta ára í gær! Ég komst því miður ekki í afmælið (þó hefði kannski verið soldið gaman að sjá upplit foreldranna þegar inn valsaði úfin, geislavirk frænka í síðum hvítum nærbuxum sem væri komin til að knúsa krakkana þeirra..muhahahahahah) en hugsaði þeim mun meira vestur til gullmolans míns sem var svo heppin að kindin hennar bar lambi á afmælinu sem var að sjálfsögðu skírt í höfuðið á au-pairnum Ninu. Og svona bara fyrir Braga: Kýrin Matta hefur það fínt, en ég er enn að venjast því að eiga belju sem nöfnu ;)

Wednesday, April 19, 2006

Eign þvottahúss spítalanna

Jább það er ég! Alveg frá toppi til táar. Þrátt fyrir að ég hafi nú sterklega á tilfinningunni að þvottahús spítalanna kæri sig alls ekkert um að eiga mig!
Allavega er pokinn í óhreinatauskörfunni minni úr sykri til að hægt sé að demba öllu draslinu beint í vél og enginn þurfi að snerta á sýktum spjörum mínum.
Ég sem hef sjaldan tekið mig betur út. Síðu, niðurþröngu nærbuxurnar vinna þannig með stuttu afa-sniðnu nærbuxunum að þær draga hvora aðra niður. Þannig að í gegnum gula kartöflusekks-sloppinn minn þarf ég að kafa á mínútu fresti til að hífa öll herlegheitin upp um mig! Lukka í ólukkunni að ég fái ekki að spranga hér um gangana og dilla skönkunum, þess í stað sit ég í turnherbergi mínu og get ekki einusinni beðið eftir því að prins komi og frelsi mig. Ef ég myndi skella lokkaflóði mínu út um gluggann og ætla að bíða þess að prinsinn á hvíta hestinum klifraði upp, gæti ég þurft að bíða ansi lengi því ég er, jú, eitruð!!

Bloggleysi síðustu daga/vikna kemur til af ýmsu. Þó sérstaklega þeirri staðreynd að ég hef haldið mig nær alla páskana í sveitasælunni hjá Ragnhildi syss og co, sofið og borðað til skiptis og verið nánast símasabands og tölvulaus. Ég gat mokað mér á KK og Ellenar-tónleika með Hlédísi og Sigrúnu á Hótel Búðum en þar með var þátttöku minni í menningar eða skemmtiviðburðum páskahátíðarinnar lokið. Ef sundferðir, spilakvöld eða spjallhittingur var planaður eftir kl 22 á kvöldin, var Matthea B-manneskja Sigurðardóttir að játa sig sigraða fyrir hinum snemmsækna A-manneskja svefni! Hrikalegt alveg.
Og nú er ég hingað komin. Á krabbameinsdeild 11 E, stofu 12 sem allir óttast að koma nálægt, matarbakkar eru lagðir fyrir utan hurðina og eins er með hreinan tískufatnað, beint úr þvottahúsi allra landsmanna. Allt er reynt til þess að líf manns breytist sem minnst við svona innlögn..þeir eru með iðnaðarmenn beint fyrir utan gluggann hjá mér hér líka!!! Og Hlédís, veistu hvað..þessir eru sko líka með bor..alveg fyrir allan peninginn!
Mér finnst þetta nokkuð gaman. Var að hugsa um það í morgun, eftir að ég keyrði pabba og félaga hans út á flugvöll (þeir voru að fara til Spánar í golfferð) að mér liði eins og þegar ég kom heim úr göngunni okkar upp í Reykjadal þarsíðasta sumar. Sólin var komin upp, fuglar sungu, fáir á ferli og allt af vakna. Vor í lofti og sumarið framundan.

Þar sem lítið er að gera hér í lítilli einangraðri stofu, á ég von á því að blogga mikið og þá kannski sérstaklega um það sem ég hugsa um núna, þegar ég hef svo góðan tíma til að hugsa.
Núna lítur allt út fyrir að ég verði hér aðeins fram á föstudag því það er víst röð af fólki sem vill láta myrða frumur í hálsinum á sér með þessum hætti (eða kannski bara þreyttar húsmæður/feður sem eru hvíldinni fegin). Í gær var mér sagt að ég færi í fyrsta lagi heim á laugardaginn..en þetta skýrist allt á næstunni.
Bæjó-í bili þó!

Monday, April 03, 2006

Fegurðarblundur

Einhverntímann stóð ég í þeirri trú að fólk sem fengi sér blund svona við og við, væri ólíklegra til að fá bauga, hrukkur og væri alltaf í góðu skapi því það væri svo úthvílt (allavega fórum við Arndís, meðvitað eða ómeðvitað, eftir þessari speki öll menntaskólaárin!
Nú er hins vegar svo komið að blundirnir hjá með veita mér allt annað en fegurð eða ferskleika. Ég er bókstaflega alltaf þreytt og sofna hvar og hvenær sem er þessa dagana. Hef minnt sjálfa mig á konuna í fyrstu Duice Bigalow-myndinni sem þurfti að binda hárið við stólinn svo andlitið dytti ekki ofan í súpuskálina þegar hún sofnaði í tíma og ótíma.
Eftir ræktina og göngutúr um helgina var planið að skella sér aðeins austur til mömmu og pabba, en fá sér smááá lúr áður en lagt væri í heiðina..5 klst seinna, í framan eins og rúsína og með orku á við tannstöngul, vaknaði ég og ekkert varð af ferðalagi. Ég veit að nú hugsa margir að þetta komi þeim ekki svo mikið á óvart fyrst þetta sé nú einusinni ég, og ég viðurkenni alveg að ég hef mikla reynslu í eftirmiðdagslúrum..en nú er mér brugðið, svo þið getið rétt ímyndað ykkur!
Ég þakka þeim sem hugsuðu til mín um helgina og reyndu að hringja, ég svaf nánast alla helgina og hefði hvort sem er ekki verið skemmtilegur félagsskapur, en takk fyrir að hugsa til mín.
Nú eru 2 vikur búnar ég er hálfnuð í ferlinu. Ég er ekki komin með bjúg ennþá eða önnur líkamleg einkenni en köttinn á bringunni, svo þetta er vel sloppið hingað til. Ef bjúgurinn lætur sjá sig, er ég svo heppin að baugarnir undir augunum eru að verða það síðir að ég breiði þá bara yfir mesta bjúginn og málið er dautt!