Thursday, April 20, 2006

Ég bara verð að deila því með ykkur...

...hversu mikilvægt það er fyrir suma að halda sig bara inni, helst alltaf og vera ekkert mikið að láta sjá sig innan um annað fólk!!
Áðan fékk ég símtal sem veitti mér aðgang út í frelsið. Það var ísótópastofa sem er niðri á næstu hæð og vildi fá mig niður í mælingu. Eftir að ég lagði á leið mér svona svolítið eins og ég væri að fara á árshátíð eftir langt hlé. Ég vandaði mig við að pissa rétt (og auðvitað allt beint í skálina, ekkert á ská eða neitt þannig), sturtaði tvisvar niður og þvoði mér tvisvar um hendurnar. Greiddi mér, tannburstaði fyrir ofan vaskinn og hitti öllu oní og vandaði mig sérstaklega við tunguna!
Svo var komið að því að velja föt... ég var mjög lengi að ákveða í hverju ég ætti nú að fara, því það er ekki á hverjum degi sem manneskja í minni stöðu fær að fara út úr helli sínum. Eftir miklar vangaveltur ákvað ég að fara í síðu nærbuxurnar sem eru hvítar sem mjöll og þvottahússtafirnir framan á buxnaklaufinni eru svartir sem tinna! Sokkarnir toppuðu svo fegurðina og ferskleikann og það voru titrandi hendur sem snéru hurðarhúninum á leið út á gang. Ég var með hálfgerðan kjánahroll alla leiðina niður, fannst ég vera að stelast út um miðja nótt til að sækja í vafasaman félagsskap..svo var líka önnur tilfinning sem sótti á mig en ég var ekki alveg viss um hver hún var. Þar sem ég má náttúrulega ekki snerta fólk, fannst mér ég getað bætt fyrir fjarlægðina með því að brosa mínu breiðasta meðan ég arkaði á neðri hæðina.
Þá gerðist það..dularfulla tilfinningin sem ég hafði fundið fyrir var sú sem píparar einir finna ekki og eru því oft með svokallaðan "plummer" en aðrir eiga að vera nokkuð meðvitaðir um. Síðu fínu nærjurnar mínar höfðu mjakast niður og þegar ég hélt að ég væri að hífa þær upp, var ég alltaf að toga í strenginn á þeim stuttu sem innanundir eru...og úps..í miðjum stiganum, geislavirk og brosandi eins og Þyrnirósin eftir aldarsvefninn, missti ég niðrum mig fallega "árshátíðarföðurlandið" mitt!!!
GUÐI SÉ LOF FYRIR AÐ SUMARDAGURINN FYRSTI ER FRÍDAGUR OG ÞVÍ FÁIR Á FERLI!

MS=Matthea Sperrileggur

5 comments:

Anonymous said...

Þú ert náttúrulega bara snillingur...

eibban

Anonymous said...

Matta! Matta! Matta!

Gangi þér vel elsku Matta mín.

Anonymous said...

Ohhhh Matta, þú ert mögnuð..... þetta er ekkert smá erfitt og sjæsinn að vera í svona einagrun maður... gangi þér rosalega vel .... haltu áfram að blogga..... kv eva

Miss Marsibil said...

Datt hérna inn eftir langt hlé.. óska þér gleðilegs sumars og góðs gengis.. Baráttukveðjur af Bifröstinni

Anonymous said...

Thu er yndisleg Matta min!
Astarkvedjur fra Norge, Svanhildur