Kannski það hafi blundað í mörgum á þeirra villtustu árum hræðsla við að vakna upp á þeim stað sem ég er núna. Eftir að hafa kvatt veturinn "full" harkalega, drukkið frá sér ráð og rænu, frídagur daginn eftir og svona..og vakna svo í sótthreinsuðu umhverfi og algjörlega á valdi þvottahúss spítalanna! Þetta hvarflaði svona að mér í morgnun þegar ég vaknaði við bank og morgunmatarbakka var smeygt inn svo hann rétt snerti innri hurðina á stofunni minni.En sem betur fer er ég fullkomlega meðvituð um ástæðu veru minnar hér og hef ákveðið að njóta hennar.
Ég á svo góða vini og fjölskyldu að ef ég væri væmin að eðlisfari, færi ég að grenja akkúrat núna. En eins og einn góðvinur minn segir: "Tilfinningar eru bara fyrir eymingja, homma og kjellingar" svo ég læt nægja að segja bara 1000 þakkir fyrir símtöl, komment, bréf ofl..þið eruð rjómi þjóðarinnar og mér finnst afskaplega vænt um ykkur öll :)
Alveg eins og ég var búin að ímynda mér mörgum árum fyrr hvar ég yrði um aldamótin sem þá virtust mjög fjarlæg, hafði ég ekki beint planað þessar aðstæður mínar þennan sumardaginn fyrsta! Að sjálfsögðu var ég heldur ekki stödd í Eiffelturningum í París á miðnætti um aldamótin en ég er enn að átta mig á þessu öllu hér.
Aldrei hefur verið brýnt eins vel fyrir mér að spíta tannkreminu vel og vandlega ofaní vaskinn, svona svolítið eins og ég sé vön að spíta því í lófann á mér og klína svo í hárið á einhverjum, eins heyrðist öðru hvoru rödd í gegnum hurðirnar mínar tvær í gær sem hvatti mig áfram að sjúga nú brjóstsykurinn...vel og vandlega. Á tímabili fór ég að halda að þarna væri á ferð annar sjúklingur sem hefði laumast að hurðinni og væri að tala skítugt, en er ég kannski sú eina sem set uppí mig brjóstsykur, velti honum svo rækilega upp úr gólfinu og geymi hann að lokum á milli rasskinnanna?! Nei nei, það er gott að fylgst sé vel með manni og auðvitað er mikilvækt að ég spíti ekki geislavirkum síklum hér um allt og svo þarf ég stöðugt að koma munnvatnsframleiðslunni af stað til að geislarnir setjist ekki í munnvatnskirtlana.
Vá þegar rennt er yfir þessa bloggfærslu má sjá hvernig sjálfhverfur einstaklingur (ég) verður enn sjálfhverfari (um mig) þegar hann er einn (frá mér) með sjálfum sér (til mín)!
Björkin mín besta varð átta ára í gær! Ég komst því miður ekki í afmælið (þó hefði kannski verið soldið gaman að sjá upplit foreldranna þegar inn valsaði úfin, geislavirk frænka í síðum hvítum nærbuxum sem væri komin til að knúsa krakkana þeirra..muhahahahahah) en hugsaði þeim mun meira vestur til gullmolans míns sem var svo heppin að kindin hennar bar lambi á afmælinu sem var að sjálfsögðu skírt í höfuðið á au-pairnum Ninu. Og svona bara fyrir Braga: Kýrin Matta hefur það fínt, en ég er enn að venjast því að eiga belju sem nöfnu ;)
3 comments:
Hæ elsku Matta minnsta, ég var að lesa bloggið þitt og veistu þú ert algjör hetja. Vona að þú vitir að við fjölsyldan þín dáumst að dugnaði þínum og ég er viss um að amma og afi "uppi" eru mjög "bissý" þessa dagana ég næ alla vega ekki nógu góðu sambandi. Njóttu dvalarinnar á hótel LSP-háskólasj...hlakka til að sjá þig stelpan mín,sendi alla mína bestu og kröftugustu strauma til þín knús, knús,knús GULLMOLI kveðja Bára móða
Þúsund þakkir elsku frænka, ég er svo heppin að eiga ykkur öll að. Hlakka til að koma í Öldutúnið þegar ég verð húsum hæf og spjalla..fátt notalegra en gott spjall við Báruna mína! Kossar og knús
Að sjálfsöguð hefur hún það fínt. Það eru ekki allra kýr sem eiga sjálflýsandi nöfnur í gulrótarbrókum.
Bragi
Post a Comment