Wednesday, August 25, 2004

Jarðarfjör

Afi minn var jarðaður í dag.
Hann var fæddur frostaveturinn mikla 1918, hefði því orðið 86 ára á þessu ári og hefur átt merkilega æfi. Hann hló hátt, kenndi okkur krökkunum að meta nýupptekið smælki (litlar kartöflur), þurrkaði af því mestu moldina og stakk því upp í okkur! Hann var tapsár í spilum og mjög hreinskilinn. Hann var mikill útivistarmaður og elskaði að fara á skíði.
Mér þótti mjög vænt um afa, en ég fylltist gleði í dag þegar hann var jarðaður. Hann var löngu búinn að fá leið á lífinu, hættur að geta hreyft sig og talað almennilega. Hann lét okkur nánustu aðstandendur lofa sér því, rétt áður en hann dó, að fara ekki að gráta á jarðarförinni. Þetta var erfitt, sérstaklega þegar við bárum kistuna út úr troðfullri kirkjunni, en þegar ég horfði á eftir afa ofan í jörðina, við hliðina á ömmu, varð ég allt í einu svo glöð. Gott að fá að deyja þegar maður er sáttur við líf sitt en þreyttur á að halda því áfram.
Jarðarförin varð svo alsherjar jarðarfjör í erfidrykkjunni og svo fór nánasta fjölskylda í Hafnarfjörð til að spjalla, hlæja, borða og knúsast.
Ég er fegin að hafa getað kvatt afa áður en ég flýg á brott.
4 dagar í brottför...
Knús
Matta

1 comment:

Úngfrúin said...

Knús Matta mín.