Friday, April 28, 2006

Ábending frá Ástralíu

Hún Þórhildur mín benti mér á að það væri eins og ég hefði ekki lifað einangrunina af, ef miðað er við bloggleysi mitt síðan ég lauk "afplánunni".
Það er öðru nær.
Ég er sprellalæv, fór langt upp fyrir sjálfa mig þegar ég byrjaði aftur á lyfjunum og nánast öskraði úr gleði og hamingju á aumingja alzheimerssjúklinginn ömmu mína þegar hún hringdi til að kanna ástand mitt. Svo sveif ég hægt niður til jarðar aftur og held að ég sé að ná jafnvægi.
Mig langar til að þakka ykkur öllum fyrir kommentin. Gaman að sjá hversu margir kíkja hingað og þegar sjálfstraustið fór að rjúka upp með auknu Euthyrox í blóðinu, fór ég að spá í þessu með skriftirnar. Ég komst að því að ég gæti aldrei skrifað bók. Í fyrsta lagi kemur "andinn" ekki yfir mig nema ég skrái mig í mastersnám í Danmörku eða loki mig af á sjúkrahúsi og fórni eins og einu og einu líffæri og í öðru lagi lengi ég alltaf mál mitt þegar ég segi frá svo að allar mínar bækur myndu byrja á setningunni "Í upphafi var orðið...!" og smásögur mínar yrðu eins og ævisögur í þrem bindum!
Ég fór á húsfund í gær! -Þessi setning hljómar ekkert ógurlega í eyrum margra en ég veit að Gummi og Lísa fá kalt vatn milli skinns og hörunds mér til samlætis. Þessir fundir eru til þess gerðir að ræna mann lífslönguninni. Fyrir utan það að búið er að klína aleigu minni, í formi hraunáferðar, á veggi blokkarinnar, nýja gluggalista og múrviðgerðir, þá hefur gamalt fólk (sem er í miiiiklum meirihluta í þessu 63 íbúða húsfélagi) mjög sterkar skoðanir á öllu, öllu sem viðkemur blokkinni og öllu öðru. 62 skoðanir eru t.d. á því hvaða litur fari blokkinni best (getiði hverjum er hundaskítsama). Þegar fimmtugastiogáttundi íbúi blokkarinnar var að tjá sig um mikilvægi sveigjuhandriða var ég komin í svo djúpar samræður við gömlu konuna við hliðina á mér að ég vissi nákvæmlega hvar hún ólst upp, hvaða leið hún hjólaði í vinnuna í gamla daga og að maðurinn hennar sem sat hinumegin við hana ropar orðunum út úr sér eftir að hafa fengið krabbamein í raddböndin!
Af þessum fundi fór ég svo beint á fund Kennarafélags Reykjavíkur og með því fór ég úr öskunni í logandi elda helvítis. Ef ég gef mér það, að ég lifi fram yfir fimmtugt, (þá þarf ég líka að láta af þeim ósið að mynda krabbameinsæxli hér og þar, fara að líta í báðar áttir þegar ég fer yfir götu og standa mig í átakinu "hjólað í vinnuna" (sem ég skráði mig í með glöðu geði en spyrnti svo við fótum þegar átti að plata mig til að koma í morgunverð í Hafnarfirði kl. 06.00 á fimmtudaginn og hjóla svo þaðan í vinnuna)) verði ennþá með gleraugu og finnist ég knúin til að garga skoðanir mínar og baráttumál yfir fullan sal af fólki er ég sem sagt orðin eins og megnið af fólkinu sem þarna var í gær... árar Kölska.

8 comments:

Anonymous said...

Klapp klapp klapp!

Dilja said...

þú ert ein af fáumm sem láta mig alveg fá svona vellíðunarilltíhjartaðsting í hjartað þegar ég les bloggið þitt!
en þú dúxaðir í master í vináttuháskólanum í DK veturinn 2004-2005 mannstu ekki?

Anonymous said...

Ég styð þig virkilega í því að fara að skrifa bók! ekki spurning Ég mundi kaupa bókina í massavís og gefa svo öllum vinum og ættingum hana í jólagjöf! Gott að húmorinn hjá þér hefur ekki klikkað við alla þessa meðferð sem þú ert búin að vera í. Ég hef alveg ótrúlega gaman af því að lesa bloggið þitt Matta mín! Bestu kveðjur Dröfn

Anonymous said...

Meira meira meira. Þú ert svo skemmtileg að ég sakna þín meir að segja smá ...
Og í guðannabænum láttu af þessum leiðinda ósið.

Lalli og Eva said...

Mig dreymdi þig í alla nótt og fannst það ekki verri ástæða en hver önnur til að láta þig vita að þú ert YNDISLEG :)

Lalli og Eva said...

Hmmm já flott að lalli kemur svona á undan mér þarna í fyrirsögn. En það var samt ég sem dreymdi þig.

Við vorum í kapphlaupi upp og niður stigana á Laugarnesveginum... og skipti engu hvort það væri sveigjuhandrið eða ekki!! :)

Kiss og knús Eva

Anonymous said...

Takk fyrir síðast hunangið mitt, það var ógeðslega gaman - ekki hlegið jafn mikið lengi lengi og hlæ ég mikið! Það vantar samt upp á að ég muni allt...kenni öllum skotunum um. Langar aftur og aftur með ykkur á skrall núna.
Knús í krús, amlA rÝ

Hlin said...

Maður má ekki líta af blogginu í örskotsstund þá ertu búin að koma þér í stórhættu!
Ég fer að óttast að tapa fyrir þér í öra-keppni í framtíðnni (skiptir kannski ekki öllu, þú manst nú örugglega ekki eftir því ;-))
Hryllilega voru frásagnirnar af einangruninni skemmtilegar, -ekki eitthvað sem maður ég átti von frá úr frá þeirri stofu, þar sem fólk er jú eðli málsins samkvæmt alltaf eitt þar.
Farðu vel með þig,
Kveðja, Hlín