Sunday, October 20, 2013
Kreppukrabbi
Ég er að gera mitt besta til að tapa ekki gleðinni, en hér kemur samt smá raus:
Ef einhver hér er að hugsa um að þróa með sér æxli, er mín ráðlegging til hans að bíða fram að næsta góðæri..
Nú hef ég leiðinlega góðan samanburð á samskonar meini með átta ára millibili og gerði í einfeldni minni ráð fyrir að lækningaferlið væri svipað nú. Það er klárt mál að fumlaus og ákveðin vinnubrögð læknanna gerðu það að verkum að ég fann aldrei fyrir óöryggi þegar meinið kom fyrst upp. Mikil samvinna ríkti milli lækna, tæki og tól voru til staðar og virkuðu og fólk tók upp símann til að koma skilaboðum áleiðis.
Það er skemmst frá því að segja að nú eru bráðum fimm vikur síðan ljóst var að eitill í hálsinum á mér var farinn að hegða sér óeðlilega. Frá þeim degi til dagsins í dag, með tilheyrandi ástungum, blóðprufum, skoðunum og tímagjöfum hefur enginn heilbrigðisstarfsmaður hringt í mig. Ég hef í öllum tilfellum gefist upp á biðinni (og er þó þolinmóð kona ;) og hringt sjálf og leitað þeirra svara sem ég þarfnast. Nýjasta er að beiðni sem fór frá krabbameinslækninum til skurðlæknisins týndist í tvær vikur og kom ritarinn af fjöllum þegar ég kannaði málið.
Ég íhugaði að byrja þetta bara með búrhníf í hádeginu en nú er ég loksins komin með tíma! Fer í undirbúning á morgun og aðgerðina á þriðjudag :)
Allar fótbrotsóskir vel þegnar!
Yfir og út
Tuesday, October 15, 2013
I´m back
Þið sem hélduð að bloggið væri dautt, internetið bara bóla og ég laus við krabbameinsstúss!
Ónei, allt er þetta sprellalæv og ég komin aftur hingað í Krækiberið.
En áður en fólk fer að stofna styrktarreikninga, hjálpa mér yfir götu og velja sér arfgripi er rétt að taka fram að þetta þykir ekki mjög alvarlegt mein í krabbameinsheiminum og vilja læknar meina að þeir verði fljótari að ná því en Gunni (sem var þó ansi fljótur) að ná snuddunni hans Sigga upp úr klósettinu um daginn...
-Við Viktor Hólm vil ég segja: Líklega er æxlið ekki nógu nálægt raddböndunum til að ég verði aftur Skrámur..en við getum alltaf vonað.
-Við fylgjendur meistaranáms vil ég segja: Ég hef tvisvar farið í MA nám og í bæði skiptin fengið krabbamein eftir fyrra árið, er ekki ráð að stytta þetta bara niðrí eina önn? :Þ
-Við nóvember vil ég segja: Víí hvað ég hlakka til að útskrifast geislandi af Lsp og valhoppa út í lífið.
-Við ríkisstjórnina vil ég segja: Takk fyrir fjárlögin! Hlakka til að verða Eign þvottahúss spítalanna upp í innlagnarskuld.
-Við skurðlækninn vil ég segja: Taktu bara þinn tíma, það er ekki eins og ég sofi með símann undir koddanum af ótta við að missa af símtalinu...
-Við þá sem kunna almenniega á enter takkann vil ég segja: Hjálp, ég kann ekki að gera greinarskil á þessu bloggi!
Bæjó í bili þó
Subscribe to:
Posts (Atom)