Thursday, June 30, 2005

Saumar fortíðar

Amma mín var stórgóð saumakona í gamla daga og eigum við afkomendurnir fullt af fallegum flíkum sem hún hannaði og saumaði þegar hún var upp á sitt besta. Mikið af þessum fatnaði er farinn að láta á sjá, en enginn tímir að henda honum...
Mamma er algjör barnakerling og hugsar allt út frá börnum (og þá sérstaklega barnabörnunum), hún setur gömul eldhúsáhöld út í kofa, geymir föndurdót í poka og á stóran leikfatakassa sem er í miklu uppáhaldi hjá krökkunum enda er þar að finna hallærislegustu föt allra tíma (og án gríns, af því að mamma geymir ótrúlegustu hluti/föt, þá eru einmitt föt frá öllum tímum í þessum kassa).
Í dag er ég búin að vera að hjálpa mömmu að henda fötum og dóti úr geymslunni og eins og það getur verið leiðinlegt, þá getur það líka verið frábærlega fyndið...í geymslum leynist nefninlega oft tímavél. Ég fann gamlan kassa frá mér, sem var fullur af fötum sem ég hef greinilega viljað geyma, af einhverjum gjörsamlega óskiljanlegum ástæðum, því ég var ekki skærasta peran í seríunni þegar ég gekk í þessum fötum, þveröfugt við það sem ég er í dag ;)
Þegar ég var hálfnuð að henda úr kassanum rakst ég á buxur og bol sem ég hafði saumað í saumatímum fyrir rúmlega 10 árum í ML..ég bjóst smávegis við að mamma myndi klökkna, strúka á mér kinnina og tilkynna hversu stolt hún væri af mér, að ég væri barasta hin fínasta saumakona eins og amma... en nei, aldeilis ekki...mamma skellihló, braut stórvirkin mín saman og kastaði þeim beint í leikfatakassann = of hallærisleg föt, meir að segja til að henda þeim!
Þar fór saumaframtíð mín (en án gríns, hvað var þetta með mig og blómóttar buxur og fjólublátt flauel!!)

3 comments:

Anonymous said...

saumaðir þú ekki líka gervileðurbuxur sem bráðnuðu?

Anonymous said...

Júbs, það er víst satt mín kæra...bráðnuðu á plaststól í sólskini...eftir að þær festust á veggnum þegar ég ætlaði að fleygja þeim á stólinn við rúmið mitt!
Matta

Miss Marsibil said...

Hahaha... tær snilld að lesa þetta, hef lítið komist á netið og er að taka einn stóran hring á bloggsíðum í dag! Alltaf gaman að lesa síðuna þína Matta!!