Á mig hefur verið skorað að blogga um "geislaferlið" mitt sem hófst í raun í síðustu viku. Þá hætti ég að taka lyfin mín sem sjá mér fyrir efnaskiptum, hormónaflæði.. já beinlínis halda mér hérna megin línunnar. Að hætta lyfjatöku er svipað og að stöðva virkni eins ákveðins líffæris..kannski svona eins og ákveða að hætta að blikka augunum eða einbeita sér að því að stöðva munnvatnsframleiðslu einn daginn!
Eins og gefur að skilja eru ýmsar aukaverkanir sem fylgja því að stoppa eitt tannhjólið í vélinni og var ég upplýst um þær allra helstu.
Nú er sem sagt vika síðan ég tók síðast inn lyfjaskammt og enn láta aukaverkanirnar bíða eftir sér. Ég vildi nú meina að það væru einstaklega miklar læknisfræðilegar ástæður fyrir því að ég sofnaði í miðjum bangsaleik við Kötlu frænku mína í gær..en þeir sem mig þekkja hristu hausinn og muldruðu: "eiiiinmitt"
Einnig velti ég því fyrir mér hvort skjaldkirtilsleysið ylli því að þegar ég sat í fullum bíósal í kvöld og horfði á Tristan og Ísold, gat ég ekki hætt að hugsa um það hvað mig langaði í Sinalco!! (engin leið að nálgast það nú til dags..vá hljóma ég ekki eins og öll 29 árin mín).
En enginn vafi er þó á því að ósýnilegi kötturinn sem lá á bringunni á mér í nokkra mánuði áður en æxlið uppgötvaðist er kominn aftur! Hann beið færis á því að skríða upp á bringuna á mér og liggur þar af fullum þunga. Vonum að hann stökkbreytist við geislunina og verði að fallegum prins (kannski Tristan!!)
1 comment:
Hæ Matta.
Amma segir að það eina sem hægt sé að gera í stöðunni sé að loka sig inni þar sem enginn sér uns varaþurrkurinn hverfur. Þá má nota ímis sleipiefni til að flýta fyrir betrun.
Post a Comment