Tuesday, January 02, 2007

Gleðilegt nýtt ár

og takk fyrir það gamla!
Ótrúlegt alveg að 2007 sé komið, það liggur við að það sé mjólk í ísskápnum sem rann út árið 2000, þetta er svo rosalega fljótt að líða allt saman.
Ég er soldið hrædd um að bloggandinn sem yfirgaf mig seinnihluta þessa árs, sé ófáanlegur til að koma tilbaka. Þegar ég er löggst upp í rúm, með tölvuna í fanginu, tilbúin að upplýsa ykkur um e-h ótrúlegt úr mínu lífi eða annarra, heyrist bara suð í hausnum og allir angar eru utan þjónustusvæðis :(Hugsanlega er skýringin líka sú að ég er næstum hætt að sjá á skjáinn fyrir undirhökunni á mér, sem skyggir á flest allt þessa síðustu og verstu daga (ræktin, hvaða fyrirbæri var það aftur).
Í andartaks bjartsýniskasti ákvað ég að vinna uppí ráðuneyti í fríinu mínu frá skólanum. Jább, ætlaði að taka jólafríið með trompi og vinna allar þær stundir sem ég væri ekki að versla jólagjafir, baka, skreyta, skrifa jólakort eða sofa. Þetta fór þó svo að ég vann 2 daga, hengdi einn jólakertastjaka upp í loftið, bakaði ekki neitt, svaf lítið og öll jólakortin sem ég skrifaði eru ennþá í veskinu mínu, og ég bíð eftir að þau fljúgi af stað til réttra viðtakenda :) Ekki get ég kennt lyfjaleysinu um, því það hófst ekki fyrr en á jóladag!
En talandi um það. Einhverjir bíða spenntir eftir hormónasögum þar sem ég brest í söng við hin vandræðalegustu tækifæri eða skellihlæ að e-h sorglegu, en ekkert slíkt hefur þó ennþá gerst. Ég er samt frekar slöpp öll og finnst eins og síðasta lyfjaleysi hafi farið betur af stað. Er sennilega hægt að skella e-h skuld á jólin og þeirri óreglu á svefni og mataræði sem þeim fylgir. Þó vatnaði ég nokkrum tugum músa eftir spilakvöld með fjölskyldunni, öllum að óvörum og ekki síst sjálfri mér...alveg eðlilegt að eiga notalega spilastund með fjölskyldunni og halda upp á kósý stemningu með því að háskæla upp úr þurru (veit að þið haldið að ég hafi tapað og notað lyfjaleysið sem afsökun til að væla eins og frekur krakki, en neibb, tapaði ekki einusinni):/
Hef staðið mig soldið að því að ætla að gera allt í einu og ef það tekst ekki, vera þá svekkt út í sjálfa mig og með eilífðar samviskubit. Ætla að taka litlu 5 ára gömlu frænku mína til fyrirmyndar sem tjáði mér, þegar við lágum uppí rúmi með nammi um jólin, að skoða Andrésblöð, að það væri henni ofviða að hætta að vera pirruð inní sér (á nýfædda systur sem fær soldið mikla athygli að mati stóru systurinnar)og hætta að bora í nefið í einu. Svo sleikti hún stundum hendurnar á sér þegar þær væru þurrar og hún vissi að það væri líka ósiður. Hún sagði við mig á alvarlegu nótunum að hún ætlaði fyrst að hætta að vera alltaf svona pirruð, svo að finna annan tíma til að hætta að bora í nefið..hitt kæmi svo enn síðar.
Þetta er mikil speki hjá krúttinu mínu og mætti ég sko vel taka hana til fyrirmyndar; að reyna ekki alltaf að gera allt í einu!
Hlédís er farin til Indlands! Ég eiginlega trúi því ekki. Hún og Sigrún eru farnar og koma ekki aftur fyrr en í maí. Ásdís og Héðinn fara svo á föstudaginn til London og Danmerkur, og Helga fer til Ástralíu um miðjan mánuðinn.. já hér verður feit, háskælandi og vinalaus eftirlegukind (Matthea) í hormónaflippi í lok janúarmánaðar :)
Jólin voru frábær og áramótin líka. Hafði hugsað mér að hafa þá pistla e-h lengri en nú er ég búin að hafa þessa færslu allt of langa til að e-h nenni að lesa hana, svo ég læt þetta duga.
Hafið það gott á nýja árinu

12 comments:

Anonymous said...

Gleðilegt nýtt ár Matta mín! Vona að nýja árið verði þér gott. Við hljótum svo að hittast á árinu, er ekki að koma að ML-útskriftarhitting eða hvað. Tíminn líður svo hratt að maður veit ekki orðið hvenær maður útskrifaðist. Kveðja Dröfn

Kolla said...

Gleðilegt nýtt ár Matta mín. Ég er enn á landinu góða og er ekki að fara neitt ef þig vantar vin fyrst allir hinir eru að yfirgefa þig he he!! Hafðu það gott dúllan mín.
Kveðja frá Hveróz

Dilja said...

sé ekkert annað í stöðunni en að fjölga Sleikunum í vetur...
...þú mátt svo líka alltaf fjölga bloggfærslum, yes I like.

takk fyrir síðast elskan mín!!

Anonymous said...

Gleðilegt nýtt ár og jól frá mér og pésa, það er svooooooooo langt síðan ég sá þig síðast..... ég er með bullandi fráhvörf.... langar svo að heyra einn góðan möttuhlátur.... gangi þér rosalega vel gullið okkar.... hlökkum til að sjá þig aftur .........hafðu það bestast !!! kveðjur úr fjárhúsum.... eva og pési man ....

irusvirus said...

Gleðilegt ár sætust.
Það var gaman að hitta þig á Vegamótum þótt stutt væri. Vona að þú komir að heimsækja mig og Héðinn í lúxusíbúðina okkar í miðbænum, langar alveg að sjá þessa hormónasveiflu, hljómar spennandi :)

Kyss kyss
Íris

Fanney said...

Gleðilegt ár Matta mín. Alltaf gaman að lesa pistlana þína. Sjáumst vonandi fljótlega
Fanney Snorra

Anonymous said...

elsku sykurhúðaði púðinn minn!!!

þín er skvo sárt saknað hér í Bangalore... vá hvað það væri mikil draumur að hafa þig hér til að hlægja af öllu ruglinu sem feiti hvíti vesturlandabúinn er búin að lenda í... indverjar eru yfirleitt miklu minni en við víkingarnir ;)

var bitinn endalaust í nótt, náði eiginlega ekkert að sofa í nótt .. ekki fyrr en það birti. ég lá sofandi komin í náttbuxur, peysu og sokka ... meðan sigrún lá á hlýrabolvð hliðina á mér.. gettu hvor okkar var bitin eins og 7 sinnum... gettu: já ég... og af því að ég var fullklædd þá bitu þær mig bara í andlit og lófana.. sem er viðbjóður ;) heppinn ég að hafa aldrei fengið unglingabólur ... múhahahahah

elska þig
-hlé

*ætla að byðja einhvern um að tala við hindí sjálfan um að láta þetta lyfjaleisi fara vel... eins og allah um árið ;)

koss og knús

Anonymous said...

You´ve got me:)

iris said...

Gleðilegt nýtt ár elsku Matta frænka.

Kiss kiss Íris.

Anonymous said...

Heybalúbba!!

Þetta er ein sú mesta speki sem ég hef heyrt/lesið um að hætta tvennu í einu. Krakkinn er náttúrulega bara snillingur. Ég ætla að ættleiða gamalt barn. Þá getur maður vitað hvernig það er í sér og ég ætla að sigta út einhvern svona karakter! Þá er það ákveðið... ;-)

Vona að fylgikvillar lyfjaleysisins séu á undanhaldi. Trúi því og treysti!

Stórt knús frá Bangalore,

Sigrún Ósk

Anonymous said...

Elsku Matta mín.

Þú ert yndisleg.

Anonymous said...

Gleðilega árið Matta mín...Ef þér leiðist þá er þú alltaf velkomin í kaffi..Daman er alltaf heima til að taka á móti þér :o) Enda komin tvö ár síðan við fluttum frá Laugarnesveginum...

Hlakka til :o) Knús og kossar