Saturday, October 09, 2004

Öskubuska

Kirkjuklukkurnar í Dómkirkjunni hringja alltaf á heila tímanum og óma um bæinn...ég hugsa alltaf til Ásdísar sem finnst alltaf eins og hún þurfi að flýta sér heim þegar hún heyrir í klukkunum, eins og Öskubuska... sem hlýtur að þýða að henni líði eins og prinsessu alla daga :)

Fínt að frétta frá mér. Er búin að sitja sveitt á skrifstofunni minni uppi í skóla og ritgerðin mjakast..
Frímann bauð mér í mat í gær. Eldaði sjálfur þessi elska, frábær matur með frábærum strák. Við fórum svo á danssýningu þar sem við hittum Evu og Höllu, en dansararnir vinna með Höllu (sem er líka dansari hér í Århus fyrir þá sem ekki vita). Danssýningin var mjög skemmtileg. Hluti af menningarhelgi sem nú stendur yfir. Stelpurnar dönsuðu sama dansverkið eftir fiðluleik og rokktónlist. Fyrsta danssýningin sem ég sé sem fer ekki eftir tónlist, heldur bara áfram þegar tónlistin hættir og dansinn breytist ekkert eftir breyttri tónlist!
Svo fórum við Frímann, Halla og allir dansararnir á kaffihús. Einn dansaranna (sænsk) kunni nokkur orð á íslensku: "Hvar er klóstið?" "Hvað segirðu gott" og "Bara fínt". Hún bjó með íslenskum dansara einusinni og alltaf þegar sú hringdi heim spurði hún "Hvað segirðu gott"...svo kom þögn í símanum og svo svaraði hún "Bara fínt", þannig lærði þessi sænska íslenskuna. Hún er alveg heilluð af tungumálinu okkar og finnst alltaf eins og við séum frá fornöld þegar við tölum saman.
Við fórum svo í partý hjá vinum Frímanns í KaosPilot. Það var rosalega skemmtilegt. Allir fóru strax að tala saman á ensku þegar ég kom svo ég myndi nú örugglega skilja allt, meir að segja þegar ég fór fram í stofu, héldu samræðurnar í eldhúsinu áfram á ensku...enginn má vera útundan. Umræðurnar í partýinu snérust aðallega um það hversu langt maður ætti að ganga í gestrisni þegar maður fengi vini frá útlöndum í heimsókn, hversu miklu breytir maður sínu lífsmynstri, er skemmtilegra fyrir vininn að sjá "Gullfoss og Geysi" en að sjá hvernig lífi þú raunverulega lifir, ferð í vinnu og sinnir þínum málum..!
Partýið fluttist svo yfir í arkitektarskólann. Áður en við fórum tóku strákarnir catwalk á ganginum, mis vel klæddir og gjörningar voru framdir. Casper fór alveg með það þegar hann gekk inn ganginn með handklæði um mittið og glas í hendinni. Hann settist í stól við enda gangsins, hellti vatninu úr glasinu yfir hausinn á sér og henti glasinu svo aftur fyrir sig. Snéri sér svo við, henti handklæðinu yfir vatnspollinn og dillaði svo rassinum inn ganginn tilbaka! Gjörningur mánaðarins.
Í arkitektarskólanum var elephant fest, sem felst í því að arkitektarnemar drekka elephantbjór frá kl. 15 og fram eftir nóttu. Uppblásnir fílar voru um allt, barir á öllum hæðum og mis drukkið fólk upp um alla veggi. Þetta var rosalega gaman. Ég sá nú ekki framtíðar eiginmann minn í þessum hópi en þetta var skemmtilegt þrátt fyrir það!
Í dag hitti ég Jónínu frænku, Grétar Odd og Christine. Það var rosalega gaman. Grétar og Christine sóttu mig og við hittum Jónínu, Halldísi og Jónínu yngri. Svo fórum við í bíó. Við sáum danska mynd sem heitir "Bræður" rosalega umhugsunarverð mynd með dönskum stórleikurum. Svo fórum við út að borða og svo keyrðu þau mig heim. Til að kóróna svo daginn hringdi Arndís yndislega í mig, svo ég sofna með brosið hringinn.

1 comment:

irusvirus said...

Hei. Ég er líka búin að sjá ,,Bræður."
Hún er miklu umhugsunarverðari en ég hafði búist við þegar ég kom út úr biffen, er búin að vera föst í hausnum á mér í heila viku.
Maaaaattaaaaa... ef þú ert að fara að flytja í nóvember, ætlarðu þá ekki að flytja til Köööööbeeeen?
o:-)
Kyss kyss