Friday, March 18, 2005

Afrakstur dönsku fyrirlestranna í dag:

Olga teygði letilega úr sér og geispaði. Hún hafði ekki sofið svona vel í langan tíma. Venjulega svaf hún laust og var sífellt á varðbergi. Hrökk upp við minnsta hljóð sem oftar en ekki var gaulið í hennar eigin görnum. Lífið á götunni hafði breytt henni mikið, gert hana taugaveiklaða og miskunnalausa. Hún hikaði ekki við að traðka á öðrum til að halda í sér lífinu. “Éttu eða vertu étinn” var lögmál götunnar og Olga kunni að fara eftir því. Hún tilheyrði nokkurs konar hverfisgengi sem var þekkt fyrir flest annað en auðsveipni og góðmennsku. Reglulega voru háðir harðir götubardagar og þeir höfðu sett mark sitt á sál og sinni Olgu. Hún var alltaf skítug, meidd og hrakin. Það var ekki fyrr en myrkur var skollið á að hún hætti sér í fínu hverfin, gægðist inn um gluggana og lét sig dreyma.
Hún mundi óljóst eftir þeim tíma þegar hún tilheyrði þessum heimi. Þá fann hún sjaldnast fyrir hungri, var alltaf hrein og partur af góðri fjölskyldu. Hún hefði ekki trúað því þá að lífið gæti verið svona grimmt. Erfiður skilnaður, flutningar fjölskyldunnar og peningavandræði áttu stærstan þátt í því að Olga lenti á götunni. Fyrst um sinn leitaði hún ákaft til fólksins síns í von um að allt félli í ljúfa löð, en fljótt skildi hún að enginn hafði tíma fyrir hana lengur. Fjölskyldan hafði snúið við henni baki. Síðustu árin hafði enginn haft afskipti af henni og langt var síðan hún kynntist nýju fólki svo hún hélt sig í hæfilegri fjarðlægð. Röð tilviljana varð til þess að leiðir þeirra Önju lágu saman. Anja var nýflutt í eigin íbúð í fjölbýli. Það var stórt skref fyrir þessa glaðlyndu stelpu sem fram að þessu hafði búið í foreldrahúsum. Hún hafði stefnt að því lengi að kaupa sér íbúð þegar menntaskólinn væri að baki og nú var sá draumur orðinn að veruleika. Hverfið var fallegt, rólegt og gott og Anja naut þess að hjóla þessa stuttu leið sem lá í vinnuna. Dagurinn sem hún sá Olgu í fyrsta sinn var óvenju bjartur miðað við þennan árstíma. Olga hafði hætt sér út í fínu hverfin, þrátt fyrir dagsbirtuna því meiri líkur voru að fá eitthvað ætilegt á þeim slóðum. Þegar hún sá Önju hljóp hún í felur eins hratt og hún komst á höltum fætinum, götubardaginn hafði farið óvenju illa fyrir henni síðast. Hvort sem meiðslunum var um að kenna eða að forsjónin hafi gripið þarna inní, sá Anja Olgu rétt áður en hún hljóp fyrir horn. Hún stökk af hjólinu og elti. Anja var einstaklega aumingjagóð og mátti ekkert illt sjá. Henni brá verulega við að sjá útganginn á Olgu og ákvað hátt og í hljóði að gera sitt besta til að koma henni aftur á réttan kjöl. Hún gaf henni nestið sitt og beið á meðan Olga skóflaði því í sig með áfergju. Upp frá þessu hittust þær alltaf á þessum sama stað og Anja gaf Olgu að borða. Með tímanum fór Olga að treysta Önju betur og dag einn ákvað hún að elta hana heim. Anja hafði orðið vör við eftirförina en vildi ekki styggja Olgu svo hún sagði ekki neitt. Hún ákvað með sjálfri sér að bjóða Olgu að búa í geymslunni sinni. Geymslan var hlý, frekar vistleg og rúmgóð og Anja var búin að setja þangað dýnu, teppi og mat handa Olgu í von um að hún fengist til að flytja inn. Það tók lengri tíma en Anja hafði reiknað með að sannfæra Olgu. Í margar vikur stóð hún í felum rétt hjá blokkinni og hætti sér ekki nær. En loks tók hún þá ákvörðun að kanna málið..hún hefði hvort sem er engu að tapa. Hún trúði varla sínum eigin augum þegar hún kom inn, hlýjan, maturinn og dýnurnar voru miklu meira en hún hafið þorað að vona. Eftir að hafa rifið í sig matinn og kannað svo allar aðstæður, steinsofnaði hún á einni dýnunni. Nú, þennan sólríka morgun, þegar hún hafði teygt vel úr sér komst hún ekki hjá því að hugsa hversu heppin hún hafði verið að kynnast Önju. Því eftir allt saman þá er hún nú bara skítugur og haltur flækingsköttur!

5 comments:

Anonymous said...

"auðsveipni" .......... héðinn getur þú sagt mér hvað þetta þýðir......hef það samt á tilfinningunni að ég sé ekki auðsveipinn.......
góð smásaga dúlla.

Anonymous said...

ég legg til ad tetta verdur vikulidur hjá tér;)

matta-hildur

irusvirus said...

Byrja á að segaj takk fyrir síðast. Mikið rosalega vorum við full..egar. Vá. Sagan þín er rosalega, rosalega fín. Ég fór að þínu dæmi og gerði líka sögu. En mín er draugasaga. Sjáðu bara.
Kyss kyss kjútí.
ps. hvenær kemurðu næst til Köben.

Anonymous said...

dr.slefa skrifar...... hey thú.... hvenær thú koma aftur århus......

Anonymous said...

Koddu heim til DK Matta!!!!!!!
ég fer ad verda reid... ég sakna tin svo... bú ad vera svo geggjad vedur hérna.. 18 stig og sóóóól..
Koddu og spókadu tig med mér down town... hver veit nema thad verdi kannski einn kaldur on the side... tempting haaa? ;)


Kv Matthildur