Saturday, September 04, 2004

Fyrstu kynni

Ég beið eftir annarri stelpunni sem átti að verða sambýlingur minn, því hún átti að kunna á læsinguna. Þegar ég heyrði umgang, smeygði ég mér hljóðlega fram og ætlaði að biðja hana að hjálpa mér við læsinguna. Hún var að skera fist með beittum hníf og brá svo hrikalega þegar hún sá mig að minnstu munaði að ég endaði ævina þarna uppi á hanabjálka með eldhúshníf á milli augnanna.
Hún reyndist vera mjög almennileg þegar hún var búin að leggja frá sér hnífinn og kom inn í herbergið mitt og fór að fikta í læsingunni. Hún hafði búið í þessu herbergi í 2 daga og sagði hlandlyktina króníska, ekkert útlit væri fyrir að ljósið yrði lagað og læsingin væri biluð því fyrir stuttu var brotist þar inn! Traustvekjandi!
Þegar hún hélt að læsingarmálum væri reddað, skelltum við hurðinni og hún sýndi mér hvernig ætti að opna innanfrá...nema að það gerðist ekki!
Við hjökkuðumst á hurðinni án árangurs, vorum pikklæstar inni í hlandlyktinni. Eftir hróp og köll, bauð ég henni sæti á vindsænginni minni og neyddi hana til að kynnast mér. Þegar við höfðum spjallað smá saman heyrðist í hinum sambýlingunum frammi á gangi, sem fóru nú að hamast á hurðinni til að reyna að opna. Ekkert gekk, við á 5. hæð og engin leið út, hvar var köngurlóarmaðurinn núna?!
Þegar þau þarna frammi voru næstum búin að brjóta upp hurðina, hafði myndast svo stórt gat milli stafs og hurðar að við gátum troðið lyklinum fram og losnað úr prísundinni.
-Ég býst við því að ég hafi ætlað að vera hagsýn í eina skiptið á ævinni þegar ég keypti mér síðast síma og borgað aðeins minna fyrir hann ef bara væri hægt að nota kort frá símanum í hann, núna get ég allavega ekki notað danskt kort í símann minn. Ekki það að ég hafi orðið hissa, þetta er nú einusinni ég!
Þessa fyrstu nótt lá ég sem sagt í kviklæstu herbergi á 5. hæð, ljóslaus og líklega sjaldan verið jafn einmana á ævinni.
Daginn eftir fékk ég mér minn fyrsta bjór á litlum veitingastað í hjarta Århus.

No comments: