Þegar ég kom inn í skólastofuna duttu þær fáu lýs mér af höfði sem ekki höfðu dottið þegar ég sá herbergið mitt. Ömmur og afar röltu um, allt flóði í gráum hárum og gleraugum...hvar voru allir sætu strákarnir sem áttu líka að vera klárir og hjálpsamir og lána mér glósur þegar ég tapaði þræðinum við að horfa á upphandleggsvöðvana á þeim?
Þessi eini norðmaður sem ég hafði lagt allt mitt traust á, við, þau einu sem ekki erum danir, reyndist eftir allt saman vera dani, bara búsettur í Noregi eins og er...frrrrrrábært!
Ég er sem sagt eyland!
Þessa tvo daga sem ég hef verið í skólanum hefur mér liðið eins og ég sé á kafi í vatni, og kennarinn líka og hann tali og tali svo loftbólurnar frussist úr honum og verði að skilja, glósa og kinka kolli öðru hverju. Þetta er alveg hræðilegt.
Ég reyndi í fyrstu að telja samnemendum mínum trú um að ég skildi alveg soldið í dönsku (kynnti mig á samblandi af dönsku og ensku) en þegar ég skildi ekki spurningar eins og hvenær ég hefði flogið hingað eða hvar ég byggi, fór fólk að halda sig í fjarðlægð og horfa á mig vorkunnaraugum.
Ein reyndi samt að "bonda" við mig á þeim forsendum að hún hefði verið á Íslandi í sumar, á landsmóti hestamanna. Hún lækkaði róminn og sagði mér í trúnaði að hún vissi um íslending sem hefði djammað frá föstudagskvöldinu til kl. 2 daginn eftir... ég lagði mig fram um að sýnast hissa.
No comments:
Post a Comment