Saturday, September 04, 2004

Århus

Þegar lestin kom til Århus beið mín hress og snyrtilegur kall = leigjandinn sem keyrði mig að herberginu mínu. Herbergið er svo sannarlega á 5. hæð, ó já, alveg fyrir allan peninginn. Í fyrstu leist mér ekkert svo hrikalega ill á það, en svo fór ég að líta í kringum mig og þefa!
1. Það var ekkert ljós í herberginu, vírar héngu út loftinu og ekki virtist sem ljósakróna hefði hangið í þeim lengi.
2. Hlandlykt! Hlandlykt var í herberginu, á gólfinu, á veggjunum, loftinu, hurðinni, alls staðar.
3. Ekki var hægt að læsa herberginu (sem átti svo sannarlega eftir að koma í bakið á mér síðar)
4. Einu sinni þótti flott ef hlutir hefðu margvíslegan tilgang. Penni sem er líka vasaljós og svona. Þetta viðhorf var svo sannarlega hjá þeim sem hannaði íbúðina (sennilega ekki verið gert ráði fyrir baðherbergi né sturtu) því klósettið var líka sturtubotn! Maður átti sem sagt að draga sturtuhengi fyrir hurðina, fjarlægja klósettpappír o.þ.h. og skrúfa frá sturtunni; þvo sér um hárið yfir tannburstunum og mikið ef maður átti ekki bara að nota klósettburstann til að þvo sér á bakinu! Rosalega var ég fegin að hafa farið tvisvar í sturtu í Köben.
-Þarna átti ég sem sagt að búa ásamt tveimur stelpum og einum strák.
Gott á mig!
Dekurrófan ég, sem var á hóteli á Þjóðhátíð ár eftir ár til að getað farið í sturtu um leið og ég yrði skítug, verið örugg með dótið mitt og sofið í hlýju rúmi, varð nú að sætta mig við að baða mig upp út klósetti, geyma eigur mínar í ólæstu herbergi og sofa á vindsæng í ljóslausu og hlandangandi herbergi...spurning um að ég hafi ekki tekið þroskastökk þarna á staðnum, um leið og ég fékk menningarsjokk.
Ég ákvað að kingja bauninni sem okkur prinsessunum er svo illa við og láta mig hafa þetta!

No comments: